Sjúklingagjöld í dulbúningi

Þrátt fyrir að fíknsjúkdómurinn sé löngu viðurkenndur sem læknisfræðilegt fyrirbæri dregur stjórnvaldið enn lappirnar á eftir þekkingunni. Í augum þess er fólk með fíknsjúkdóm ekki veikt á sama hátt og annað fólk með aðra sjúkdóma.

Gamaldags viðhorf um siðferðisbrest, skort á staðfestu eða hugmyndir um að fólk með fíknsjúkdóm sé á einhvern yfirskilvitlegan hátt í vanda statt gagnvart skapara sínum, lita um of verk stjórnvaldsins. Á þessu sviði læknisfræðinnar eru auk þess fleiri sjálfskipaðir ómenntaðir sérfræðingar en þekkist um aðra sjúkdóma og raddir þeirra eru gjarnan háværar í fjölmiðlum sem leita ekki sannleikans eða kanna hvort eitthvað sé að marka goðsagnir og upphrópanir.

Það er aðeins fyrir þrýsting starfsfólks og stjórnenda SÁÁ og auðvitað notenda þjónustu samtakanna að hægt hefur verið að þoka faglegri heilbrigðisþjónstu fyrir þennan sjúklingahóp í átt til jafnræðis gagnvart öðrum hópum.

SÁÁ rekur heilbrigðisþjónustu samkvæmt lögum þar að lútandi. Eftirlit með starfseminni er hjá Sjúkratryggingum Íslands, Embætti Landlæknis, Lyfjastofnun, Brunaeftirlitinu, Heilbrigðiseftirlitinu og stéttarfélögum starfsfólks. Allt samkvæmt bókinni.

Í lögum um sjúkrahúsþjónustu er blátt bann lagt við sjúklingagjöldum inniliggjandi sjúklinga. M.ö.o.  er gjaldtaka heimil á göngudeildum en ekki inni á sjúkrahúsum. Stjórnvaldið hefur hins vegar frá upphafi litið á sjúkrahúsþjónustu SÁÁ sem annars flokks – þótt óumdeilt sé að Vogur er sjúkrahús, sem starfar í einu og öllu samkvæmt lögum og reglum um sjúkrahús og veitir sjúkrahúsþjónustu.  Til að framkvæma gjaldtökuna framhjá lögunum, eins og í refsingarskyni fyrir veikindin, lætur stjórnvaldið samtök sjúklinganna, SÁÁ, greiða gjöldin fyrir hönd sjúklinganna. Þannig hefur SÁÁ alla tíð greitt um 20% af rekstrarkostnaði Sjúkrahússins Vogs með sjálfsaflafé sem safnað er hjá almenningi og fyrirtækjum.

glaera1Á meðfylgjandi myndum sést hvernig bilið þarna á milli þess sem rekstur sjúkrahússins kostar og framlaganna frá ríkinu er stöðugt og gliðnar í sundur frekar en hitt. Á sama tíma og samtökin safna fyrir þessum dulbúnu sjúklingagjöldum á Sjúkrahúsinu Vogi hefur stjórnvaldið síðan skyndilega hætt greiðsluþátttöku sinni í göngudeildarþjónustu SÁÁ. Það er staðreynd sem enginn ágreiningur er um og sést á meðfylgjandi mynd.

glaera2Þessar fjárhagslegu byrðar – hlutur ríkisins í göngudeildarþjónustunni ofan á sjúklingaskattinn af sjúkrahúsinu – eru einfaldlega orðnar of stór kökubiti fyrir SÁÁ.

Við hljótum að gera þá kröfu að jafnræðis sé gætt og að sjúklingum sé ekki mismunað með þessum hætti. Það verður að vera hafið yfir vafa að þeir sem sýsla með fjármuni almennings séu ekki að þjóna einhverri sérvisku eða persónulegri duld. Vilja stjórnvöld að sú heilbrigðisþjónusta sem SÁÁ veitir standi áfengis- og vímuefnasjúklingum á Íslandi til boða eða ekki?

SÁÁ er 20 þúsund manna félag sem hefur starfað af miklum krafti í bráðum 40 ár. Lýðræðislegt umboð félagsins er því nokkuð stórt – amk jafnstórt og framlag þess til heilbrigðisþjónustu hingað til.

Höfundur greinar