Sjúkrahúsið Vogur. Við tökum vel á móti fólki með fíknisjúkdóm.

Þóra Björnsdóttir

Sjúkrahúsið Vogur. Við tökum vel á móti fólki með fíknisjúkdóm.

Fólk með fíknsjúkdóm er haldið sjúkdómi sem fylgt hefur mankyninu alla tíð. Það þekkja þvi flestir landsmanna einhvern sem hefur sótt sér þjónustu hjá SÁÁ. Lang oftast þarf sá eða sú sem leitar sér hjálpar að fá afeitrun sem fer fram hjá okkur á sjúkrahúsinu Vogi. Sjúkrahús okkar er sérhæft sem þýðir að við sem störfum þar erum sérhæfð í því að þjónusta fólk með fíknsjúkdóm. Við vinum saman í teymum og höfum verið að þróa þannig nálgun síðastliðin ár.  Markmið okkar er að efla og bæta þjónustuna, skjólstæðingum okkar  og fjöldskyldum þeirra til góðs.

Ég mun nú fjalla almennt um það sem fer fram hjá okkur á Vogi með sýn hjúkrunarfræðingsins. En ég hef starfað sem framkvæmdastjóri hjúkrunar á Vogi í 25 ár.

Aðgengi að þjónunstu okkar er góð og mikilvægt er að standa áfram vörð um það. Ferlið er þannig að einstaklingurinn, sem misst hefur tökin á neyslu sinni, getur sjálfur hringt og beðið um innlögn. Þau sem eru yngri og einnig þau sem ekki hafa verið áður fá fyrsta lausa tíma sem er lang oftast innan við 3 vikur. Það er góð þjónusta. Þau sem hafa verið áður fá boð um að mæta á göngudeild í stuðningsúrræði. Það er líka góð þjónusta.

Flest  hafa reynt að meðhöndla sig sjálf áður en þau leita til okkar um þjónustu. Lang oftast getur fólk stoppað neysluna en aðalmálið er að byrja ekki aftur. Að leggjast inn á Vog er samt ekki auðvelt. Flestir eru áhyggjufullir og kvíðnir yfir stöðunni og dæma sig oft sjálf ansi harkalega.  Því er mjög mikilvægt að við sem tökum á móti einstaklingnum séum róleg, styðjandi og hlýleg. Það er einmitt það sem við stöndum fyrir. Við bjóðum alla velkomna og óskum þeim til hamingju með þessa ákvörðun um að sækja sér aðstoð og meðferð við fíknsjúkdómnum.

Flestir okkar skjólstæðinga þurfa afeitrunarmeðferð sem tekur allt frá nokkrum dögum upp í nokkrar vikur eftir því úr hvað neyslu skjólstæðingurinn er að koma.  Skjólstæðingur í afeitrun er í viðkvæmri stöðu. Þess vegna er mjög mikilvægt að skapa rólegt og hlýlegt umhvefi þar sem viðkomandi finnur fyrir öryggi og stuðningi. Meðferð við fíknsjúkdómi er afeitrun, stuðningur, fræðsla og eftirfylgni í a.m.k eitt til tvö ár. Útkoman er síðan sú að einstaklingurinn gerir sé grein fyrir eigin ábyrgð á því að sinna bata sínum við fíknsjúkdómnum það sem eftir er.  Fíknsjúkdómur er sjálfstæður sjúkdómur sem hægt er að greina, meta og meðhöndla. Þegar þetta er orðið ljóst þá er hálfur sigur unnin. Lífið heldur áfram og samhliða því þarf einstaklingurinn að sinna sínum fíknsjúkdómi í daglegu lífi sínu með heilbrigðum lífsstíl, gæta að jafnvægi sínu dagsdaglega og forðast öfgar og óhóflega streitu.

Hjúkrunarfræðingar og sjúkraliðar annast sjúklinga í afeitruninni á þrískiptum vöktum allan sólarhringinn allt árið. Það er gefandi starf að hjúkra einstaklingum með fíknsjúkdóm, sjá hvernig einstaklingurinn kemur smá saman til sjálfs sín. Eða eins og við segjum stundum út úr þokunni þar sem þau hafa ráfað illa áttuð í hugarheimi vímunnar. Víman breytir fólki það er ekki með skýra hugsun vegna þeirra breytinga sem verða í heilanum. Oft man fólk ekki eftir fyrstu dögunum sínum á Vogi. Svefnin er raskaður og allt taugakerfið úr lagi gengið. Þessu ástandi mætum við með viðeignadi fráhvarfsmeðferð sem læknar stjórna. Ásamt þvi að fylgjast reglulega með lífsmörkum og almennu heilsufari einstaklingsins. Við erum heppin að eiga Vog sem er sérhæft sjúkrahús fyrir fólk með fíknsjúkdóm. Allur aðbúnaður er til fyrirmyndar. Á Vogi er sérstök aðstaða fyrir veikasta fólkið í upphafi afeitrunar og fyrir þá sem eldri eru og þurfa meiri aðstoð við athafnir daglegs lífs.

Móttökuteymið á Vogi samanstendur af ritara, sjúkraliða, lækni, áfengis-og vímuefnaráðgjafa og hjúkrunarfræðingi.

Sjúkraliðar taka á móti öllum sem leita sér meðferðar á Vogi. Taka fyrstu upplýsingar um neyslusögu og aðrar heilsufarsupplýsingar og skrá í sjúkrasögu, ásamt því að upplýsa einstaklinginn um það sem koma skal. Það er alltaf læknir á vakt  alla daga sem skoðar sjúklinginn og tekur komuviðtal, skráir sjúkrasögu og skráir fyrirmæli um lyfjagjafir og blóð eða þvag rannsóknir. Hjúkrunarfræðingurinn gefur komulyf, metur þörf á aukalyfjagjöf í samráði við vakthafnadi lækni. Gefur vítamínsprautur, tekur blóðprufur og fylgist með og skráir í sjúkrasögu líðan sjúklingsins. Sem betur fer rennur víman af öllum og í ljós kemur knýjandi þörf til að gera breytingar á lífinu. Áfengis-og vímuefnaráðgjar stjórna hópmeðferðinni sem fer fram alla virka daga ásamt því að sinna daglegum viðtölum og fræðsluerindum. Þau eru fjölmennasta heilbrigðisstéttinn í starfshópnum. Sálfræðingar og lýðheilsufræðingur sjá um að þróa og byggja upp meðferðarstarfið í takt við nýjustu þekkingu á hverjum tíma. Saman stillum við strengi og vinnum í takt í  þágu fólks með fíknsjúkdóm.

Höfundur greinar