Sjúkratrygging SÁÁ

Fjörugar umræður eru nú um einkarekstur í heilbrigðisþjónustu á Íslandi. Þeir sem eru hlynntir einkarekstri benda stundum á SÁÁ sem dæmi um að slíkur rekstur sé nú þegar til staðar hér á landi. Og nýlega sagði yfirlæknir á geðdeild Landspítalans í viðtali við RÚV að engum sjúklingum væri vísað þaðan frá og eitt úrræða spítalans væri að bjóða upp á fíknimeðferð á Vogi.

Á sjúkrahúsið Vog koma fleiri en 1.600 sjúklingar í meðferð á hverju ári. Á biðlista eru að jafnaði milli 300 til 350 einstaklingar. Tvísýnt er um líf margra á biðlistanum, enda er biðlisti inn á sjúkrahúsið Vog um margt líkur biðlista á bráðamóttöku. Allt eru þetta sjúkratryggðir einstaklingar og þjónustan er lögbundin. Óhætt er að teysta því að SÁÁ gerir ekki upp á milli sjúklinga sinna.

Viðvarandi halli er á rekstri sjúkrahússins Vogs en á síðasta ári vantaði 160 milljónir upp á til að endar næðu saman. Þessi skekkja í rekstrargrunni sjúkrahússins Vogs varð ekki til á einu bretti, óvart eða vegna þess að rekstraraðilinn er klaufi. Skekkjan verður til sem meðvituð pólitísk ákvörðun um að taka ákveðinn hóp sjúklinga út fyrir mengi heilbrigðislaga og rukka þá fyrir inniliggjandi sjúkrahúsþjónustu. En það er ekki einfalt að framkvæma það.

Innheimta sjúklingagjalda fyrir inniliggjandi meðferð á sjúkrahúsi er óheimil samkvæmt heilbrigðislögum. Vitandi vits láta ráðherrar Sjúkratryggingar Íslands innheimta sjúklingagjöld á sjúkrahúsinu Vogi, þótt það sé ólöglegt. Það er gert með þeim hætti að Sjúkratryggingar Íslands, sem er fullkunnugt um álagið á sjúkrahúsinu, greiða aðeins fyrir hluta hinna sjúkratryggðu einstaklinga, en láta þess getið í þjónustusamningi að SÁÁ sé heimilt að veita fleirum þjónustu en greitt er fyrir. Samtök sjúklinganna greiða svo með sínu sjálfsaflafé það sem vantar upp á, enda er innheimta gjalda af sjúklingunum sjálfum ólögleg.

Á hinum endanum eru svo eftirlitsaðilar að sinna lögboðnu hlutverki sínu með nýjar kröfulýsingar um tæki og tól og stöðugt aukinn viðbúnað. Sjaldan eða aldrei fylgir nokkurt fjármagn þessum auknu kröfum.

Allt eru þetta miklar furður.

SÁÁ er ekki einkaaðili í heilbrigðisrekstri heldur grasrótarsamtök sem urðu að almannafélagi sem berst fyrir hagsmunum áfengis- og vímuefnasjúklinga. Í slíku almannafélagi er falinn mikill styrkur þegar margir koma saman og láta gott af sér leiða. Stjórnsýslan má ekki víkja sér undan skyldum sínum með því að fela sig á bak við styrk SÁÁ. Slík hegðun gerir lítið úr lýðræðislegu umboði kjörinna fulltrúa okkar og grefur undan undan aflmiklum samtökum. Það er að gerast núna.

Vel má vera að enn sé til valdamikið fólk sem finnst að áfengis- og vímuefnasjúklingar eigi frekar skilið refsingu en heilbrigðisþjónustu. Það breytir ekki því að óheimilt er að innheimta sjúklingagjöld af sjúkratryggðum einstaklingum inni á sjúkrahúsinu Vogi og öðrum sjúkrahúsum. Kjörnir fulltrúar okkar þurfa að beita lýðræðislegu afli sínu, standa vörð um jafnræðisregluna og stoppa þennan skollaleik áður en illa fer.

Þessi grein Arnþórs Jónssonar, formanns SÁÁ, birtist fyrst sem aðsend grein í Morgunblaðinu í dag, 23. febrúar 2017.

Höfundur greinar