Sölumet jafnað í álfasölu

Niðurstöður álfasölu SÁÁ 2015 liggja nú fyrir. Salan var nánast sú sama og í fyrra þegar sölumet var sett.

„Við erum mjög þakklát fyrir stuðninginn,“ segir Arnþór Jónsson, formaður SÁÁ.  „Það sannaðist enn einu sinni núna að þjóðin stendur þétt á bak við SÁÁ og svarar kalli okkar um stuðning. Safnanir eins og álfasalan eru nauðsynlegar fyrir rekstur SÁÁ. Ár hvert eru um 2.000 innlagnir á sjúkrahúsið Vog. Ríkið greiðir fyrir 1.530 og ekki meir. Það er söfnunar- og sjálfsaflafé, eins og tekjurnar af álfasölunni, sem gerir okkur kleift að taka engu að síður við öllum þeim sem knýja dyra. Án þessara tekna þyrftum við að fækka sjúklingum um fjórðung eða loka sjúkrahúsinu 1. október ár hvert. Á sama hátt er það álfasalan og sá velvilji sem samtökin njóta hjá þjóðinni sem færir okkur tekjur til að veita börnum, unglingum og öðrum aðstandendum aðstandendum áfengis- og vímuefnafíkla stuðning og þjónustu sem þau fengju hvergi annars staðar og sem nýtur einskis stuðnings frá ríkisvaldinu.“

Um 1.000 manns unnu við álfasöluna um land allt dagana 6.-10.  maí síðastliðinn. Flestir þeirra tilheyrðu íþróttafélögum, eða hópum á vegum skáta eða skóla sem notuðu sölulaunin til að kosta ferðalög og önnur verkefni á eigin vegum.

Nokkrir tugir einstaklinga tóku einnig að sér sölustörf og sölukóngur ársins kemur úr þeirra röðum. Hann er Kristján Valsson, sem er á myndinni að ofan og seldi um 550 Álfa af árgerð 2015. Kristján fékk sinn eigin Ofur-Álf afhentan í viðurkenningarskyni.