Spara færslugjöld og styrkja SÁÁ með iKorti

SÁÁ og iKort hafa gert samning um útgáfu sérstakra fyrirframgreiddra greiðslukorta frá MasterCard fyrir velunnara SÁÁ. Hluti af tekjum vegna notkunar iKorthafa mun renna til SÁÁ.

iKort er hægt að nota á sama hátt og önnur greiðslukort í verslunum og í hraðbönkum sem taka við MasterCard. Þau eru líka hentug í net- og farsímaviðskiptum og til að skuldfæra reglubundin útgjöld eins og orkureikninga, símreikninga, fasteignagjöld og hvaðeina. Hægt er að leggja inn á kortin eftir þörfum og fylgjast með notkuninni á öruggu vefsvæði. Þar sem um inneignarkort er að ræða þurfa korthafar hvorki að fylla út eyðublöð né fara í greiðslumat í banka. Nánari upplýsingar er hægt að nálgast á iKort.is.

iKort byggjast á nýrri Evróputilskipun um úrbætur á greiðslumiðlun í þágu neytenda. iKort eru gefin út af Prepaid Financial Services Ltd. í Bretlandi samkvæmt leyfi frá MasterCard International. Prepaid Financial Services Ltd er með starfsleyfi frá FSA, Fjármálaeftirliti Bretlands, sem hefur jafnframt eftirlit með starfsemi fyrirtækisins. Meira en 1% íslensku þjóðarinnar er þegar farin að nota iKort og fjölmörg ný kort eru gefin út á hverjum degi.

Ásgerður Th. Björnsdóttir, framkvæmdastjóri fjármálasviðs SÁÁ, segir: „Við erum mjög ánægð með samstarfið við iKort. iKort er áhugaverð nýjung fyrir íslenska neytendur og einföld leið fyrir korthafa til að láta gott af sér leiða. Við munum bjóða öllum okkar félagsmönnum að fá iKort og teljum að fólk vilji nýta sér það hagræði sem þessi leið býður upp á fyrir alla aðila. Við erum mjög þakklát fyrir þann mikla stuðning sem við njótum hjá þjóðinni. Sá stuðningur greiðir rúmlega 20% af öllum kostnaði við meðferðina hjá SÁÁ.“

Viktor Ólason, stjórnarmaður iKorts ehf, segir: „iKort er eina greiðslukortið á landinu sem ekki er gefið út af banka eða félagi í eigu banka og við getum látið þetta góða málefni njóta góðs af hagkvæmari rekstri á sama tíma og við bjóðum lægri gjöld til korthafa. Eftir að hafa boðið þennan valkost í tvö ár erum við ánægð með þær móttökur sem iKortið hefur fengið hjá landsmönnum. Það er greinilega þörf fyrir alþjóðlegt greiðslukort, sem ekki er útgefið af banka, og þar sem korthafinn einn hefur góða yfirsýn yfir dagleg útgjöld og getur ekki eytt um efni fram. iKortið hentar einnig vel þeim sem vilja spara bankakostnað við að senda vinum og vandamönnum erlendis peninga á skjótan hátt og án kostnaðar. Við hlökkum til samstarfsins við SÁÁ og erum ánægð með að geta veitt samtökunum stuðning með þessum hætti.“

Myndin að ofan var tekin við undirritun samstarfssamning iKorts og SÁÁ: Frá vinstri: Kjartan Gunnarsson, stjórnarformaður iKorts, Viktor Ólason, stjórnarmaður iKorts, Ásgerður Th. Björnsdóttir, framkvæmdastjóri fjármálasviðs SÁÁ og Arnþór Jónsson, formaður SÁÁ.