Sprautufíklar og meðferðir SÁÁ

Fíknsjúkdómurinn er alvarlegur heilasjúkdómur með lífshættulegum afleiðingum og tekur sinn toll. Sá hópur sem sprautar vímuefnum í æð er hvað viðkvæmastur, og er í raunverulegri lífshættu á meðan slík neysla er virk.

Heilasjúkdómurinn er langvinnur og þarfnast aðhalds og aðgæslu allt lífið. Sem betur fer er hægt að ná bata frá honum, stundum í áföngum eða á tímabilum eða að hluta til, en það er allt mikilvægt.

Sá sem ekki kemst á byrjunarreit til bata, á ekki tækifæri. Margir heltast úr lestinni áður en komist er á byrjunarreit, eða falla aftur eftir batatíma og eiga ekki afturkvæmt. Það er sorglegt og átakanlegt. Oftar en ekki er um að ræða ungt fólk sem ætti að eiga framtíð fyrir sér, sem fékk í raun takmarkað tækifæri vegna þess þrældóms og ánauðar sem fíknin er.

Við viljum að tækifærið til lífs sé alltaf til staðar, að hægt sé að grípa inní og veita aðstoð til upphafs bata. Til þess þarf opnar dyr í heilbrigðiskerfið sem fleytir einstaklingnum af stað. Þær dyr eru sem betur fer margar á Íslandi. Sérhæfða meðferð þarf fyrir fíknsjúkdóminn og sérstaklega þá sem hafa alvarlega sprautufíkn. SÁÁ hefur þróað mörg meðferðar úrræði, einnig fyrir þennan hóp sérstaklega.

HIV smit kom inn í hóp sprautufíkla á Íslandi fyrir nokkrum árum, og var alvarlegt. Mikill viðbúnaður tók á því og sem betur fer hefur komið hlé í smit HIV vegna sprautufíknar síðustu árin. Landspítalinn tók öflugt á málum með því að rekja smitin, koma strax með inngrip, eftirfylgni og meðferð, og reyna að ná þar með utan um smitandi hópinn. Bráðamóttaka stóru sjúkrahúsanna sinna linnulaust afleiðingum sprautufíknar með galopnum dyrum. Áfram er gott aðgengi að hreinum áhöldum til að sprauta. Við höfum, ólíkt flestum, haft gott aðgengi að ótakmörkuðu magni og ódýru af slíku í apótekum landins. Það er gríðarlega mikilvægt að það haldi áfram og að þar sé góður skilningur á mikilvægi þess að greiða götu þeirra sem eru að reyna minnka skaða af neyslu sinni. Lyfsalar og starfsfólk í lyfjabúðum eiga hrós skilið og gegna mikilvægu hlutverki nú sem fyrr. Auk þess hefur RKÍ rekið bíl og gefið sprautuáhöld og veitt enn meiri þjónustu á afmörkuðum svæðum og tímum sem er ennþá meiri bót fyrir hluta hópsins.

Hjá SÁÁ eru margvísleg inngrip sem minnka skaðann og koma í veg fyrir smit og veikindi. Þau vinna jafnframt að bata á mismunandi stigum með langvinn markmið.

Sérstök meðferð fyrir húsnæðislausa sprautufíkla á Vin, meðferðarheimili hefur verið starfrækt í nokkur ár. Þar eru um 20 karlmenn á hverjum tíma í sérhæfðri meðferð með búsetuúrræði. Lengri meðferðir á Vík og Staðarfelli hafa alltaf boðist. Bráðainnlagnir frá lögreglu eða úr fangelsum eru hluti starfsins. Í dag er talsverður hluti þeirra nýsmituðu fíkla í langvinnri meðferð hjá SÁÁ.

Sprautufíklar hafa þurft og fengið meiri þjónustu hjá SÁÁ en flestir aðrir, sem hópur. Þeir hafa verið lagðir inn á Vog tvöfalt oftar en aðrir sjúklingar. Þeir þurfa sérstaka umönnun og hjúkrun á fyrstu dögunum, allt eftir tegundum vímuefna og líkamlegrar heilsu, og eru oft lífshættulega veikir vegna afleiðinga sprautufíknar. Ráðgjöf og eiginleg fíknmeðferð er einnig með sérstökum áherslum fyrir þennan hóp. Fyrstu dagarnir geta verið mjög erfiðir og hætta á brottfalli og uppgjöf mikil. Þá er mikilvægt að vinna öllum árum að því að önnur tilraun verði gerð til að stoppa neysluna en leyfa ekki vonleysi að ná undirtökunum.

Endurinnlagnir þessara veiku sjúklinga getur verið lífgjöf og getur líka verið til að bati hefjist í þetta sinn. Hér þarf engar refsingar eða kvóta, hér þarf meiri aðstoð, ekki minni. Fordómar gefa stundum skilaboð um annað og grafa undan möguleikum og von. Það er ekki eftirsóknarvert að vera virkur sprautufíkill og enginn sem vill vera þar, meðan lífið gengur þeim hjá.

Allt sem minnkar líkur á dauða eða veikindum meðan sprautuneysla er virk, er til bóta. Mikilvægt er að hjálpa þeim til að forðast lífshættulegar afleiðingar, eins og með fyrrgreindu aðgengi að hreinum áhöldum. Mikilvægast er að hafa aðgengi að hjálp og að það, að leita sér hjálpar, sé gert „auðvelda valið“. Allt sem heldur einstaklingnum í neyslu, hjálp sem hann fær bara í neyslu, og getur verið nauðsynleg, þarf að vanda vel. Hann þarf alltaf að eiga kost á að komast út úr sínum aðstæðum, aðstoð við að losna úr hlekkjunum, það þarf að vera „auðvelda valið“. Aðgengi að meðferð er þannig gríðarlega mikilvægt. Aðgengi hér er gott ef við miðum okkur við aðra, en samt vita flestir sem standa nærri þeim veikustu, að aðgengi gæti verið enn betra og þyrfti meira til.

HIV skimanir og Lifrabólgu C / B skimanir eru mjög mikilvægar til að hægt sé að greina smitið snemma, ræða það og hafa þannig áhrif á hegðun einstaklingsins, og einnig að vísa til sérfræðinga í smit- og lifrarsjúkdómum til meðferðar og eftirfylgni. Það er gert á Vogi. SÁÁ hefur átt gott samstarf við LSH og vísar tugum einstaklinga á ári til sérfræðinga vegna lifrarbólgu C. Lyfjameðferð við þessum sýkingum er síðan það mikilvægasta til að hindra enn frekari útbreiðslu og einnig þann skaða sem einstaklingurinn verður fyrir vegna smitsins.

Viðhaldsmeðferð við ópíóíðafíkn hefur verið veitt í 15 ár hjá SÁÁ og telur nú um 100 einstaklinga. Þetta er sannreynd lyfjameðferð við fíkn sem minnkar skaða vegna sprautuneyslu, dregur úr dauðsföllum vegna ofskammta og sýkinga og minnkar veirusmit. Hún er í samræmi við það sem nágrannalönd okkar gera og er talin nauðsynlegur hluti fíknmeðferðar. Hún er umhaldsmikil, dýr og krefst aðhalds. Fjölmargir einstaklingar sem voru hætt komnir vegna sprautufíknar hafa náð undraverðum bata á þessari meðferð og eru nú þátttakendur í fjölskyldulífi og samfélaginu. Aðrir eru á byrjunarstigum í þessari meðferð sem getur reynt á.

Alltaf bætist í hóp sprautufíkla ár frá ári. Nýjum sem leggjast inn á Vog vegna þessa hefur ekki fjölgað. Þó er það svo að hópurinn sjálfur, sprautufíklahópurinn, fer sífellt stækkandi og hann eldist. Það þarf að sinna honum áfram, sumir eru með langvinna sjúkdóma vegna fíknarinnar og þarf að sinna, aðrir eru á stundum virkir í neyslu og þurfa inngrip, enn aðrir eru í síneyslu og í sífelldri lífshættu.

Þessi veiki hópur er eitt af viðfangsefnum SÁÁ, og er að jafnaði um 20% sjúklinganna sem koma á Vog á ári hverju. Þeir þurfa meira en meðal sjúklingurinn sem leitar til SÁÁ, en eru líka í meiri hættu og það er til mikils að vinna.

Þetta er eitt af verkefnum SÁÁ sem ekki hverfur eða minnkar og mikilvægt er að styðja áfram við. Það kemur öllum til góðs að sinna því vel.