Sprautufíklar

Eftirfarandi umfjöllun birtist fyrst í ársskýrslu SÁÁ árið 2010.

Vímuefni sem sprautufíklar nota

Amfetamín er það vímuefni sem íslenskir sprautufíklar nota fyrst og fremst en þó hafa þeir í vaxandi mæli notað kókaín og morfín eftir 2000. Það er vel þekkt erlendis og talið einskonar lögmál að eftir mikla notkun örvandi efna fara sprautufíklar að sækja í róandi efni, einkum ópíumefni. Þar sem heróín er til staðar á vímuefnamörkuðum er það efnið sem mest er sótt í.

Heróín hefur ekki verið á markaði hér en miðað við núverandi ástand er mikil hætta á að svo verði áður en langt um líður. Heróínfíklar eru jafnan taldir veikastir vímuefnafíkla erlendis og flestir þeirra sprauta efninu í æð. Meðan hlutfallslegur fjöldi slíkra sprautufíkla hefur verið hár í Kaupmannahöfn, Amsterdam og í stórborgum á Bretlandseyjum og í Bandaríkjunum finnast þeir ekki í Reykjavík. Hefur þetta jafnan verið talið merki um að ólöglegi vímuefnamarkaðurinn á Íslandi væri ekki eins þróaður og ástandið hér miklu betra en hjá þessum nágrönnum okkar. Allir sérfróðir eru sammála um að ástandið mundi versna um allan helming ef heróínfíklar yrðu til á Íslandi.

Sprautufíklar hafa með vaxandi þunga sótt í ópíumefni sem ávísað er af læknum hér á landi. Þetta var þegar ljóst árið 1989 að í óefni stemdi vegna þess að sprautufíklar sóttu af miklum þunga í morfíntöflur sem þeir gátu leyst upp og sprautað í æð. Vandinn óx hratt og var mestur á árunum 2000-2005. Fjöldi nýju tilfellanna þar sem sjúklingar voru að sprauta morfíni í æð var þá á milli 40 og 50. Margir þeirra voru þá enn að fikta. Á sama tíma voru tilfellin þar sem einstaklingar voru að sprauta morfíni daglega í æð á milli 50 og 60 á ári. Vegna aðhaldsaðgerða dettur nýgengið niður í um 15 síðustu 4 ár. Fjöldi þeirra sem eru að sprauta morfíni daglega í æð kemur síðan í fyrsta skipti niður fyrir 50 á síðasta ári 2009. Þetta eru góðar fréttir

Við hrunið haustið 2008 og í kreppunni hafa sprautufíklar minnkað neyslu á kókaíni, ólöglegu amfetamíni og sækja með vaxandi þunga í ritalíntöflur. Í byrjun árs 2010 sýnir könnun að 60% sprautuíkla segja að ritalín sé það efni sem þeir noti mest eða næstmest. Sölutölurnar á ritalíni fyrir árið 2009 og fyrstu þrjá mánuði ársins 2010 sýna hrikalega aukningu.

Um sprautufíkla á Sjúkrahúsinu Vogi

– úr ársskýrslu SÁÁ 2010

Inngangur

Það má koma vímuefnum inn í líkamann og þar með til heilans á ýmsan hátt. Sama vímuefnið er mishættulegt eftir því hvernig það er notað. Ópíum og kannabisefni urðu þannig miklu hættulegri en verið hafði þegar menn komust upp á lag með að reykja þessi efni. Ástæðan var sú að við reykingar kemst vímuefnið hraðar inn í líkamann og upp í heilann. Víman sem fæst þannig verður kröftugri en ella vegna þess að styrkur vímunnar ræðst að nokkru af því hversu hratt þéttni vímuefnisins vex við viðtaka heilans.

Áhrifaríkasta og um leið hættulegasta leiðin til að koma vímuefnum til heilans og valda þar vímu er að sprauta efnunum í æð. Við það eykst þéttni vímuefnanna við viðtaka heilans einna hraðast og þéttnin verður mest. Víman er í réttu hlutfalli við styrk vímuefnisins við viðtakana og hversu hratt þessi styrkur fæst. Með öðrum orðum sprautan veldur sterkustu vímunni og er hættulegust.

Segja má að við það að sprauta vímuefnum í æð umbreytist verkun vímuefnanna og margfaldast og víman sem fæst er önnur og miklu meiri. Við það valda þessi efni heróín, kókaín og amfetamín vímu sem á ensku er kölluð rush. Vímunni líkja neytendurnir við kynferðislega fullnægingu.

Vímuefnaneysla nútímans hefur því tekið á sig nýja mynd því tæknin til að sprauta sig í æð hefur orðið vímuefnaneytendum sífellt aðgengilegri og auðveldari um leið og ólöglegu vímuefnaviðskiptin hafa aukist og auðveldað aðgengi fíklanna að efnum til að sprauta í æð.

Eins og annars staðar eru íslenskir sprautufíklar bæði líkamlega og andlega veikari en aðrir vímuefnafíklar. Fíkn þeirra er að jafnaði mun þrálátari og erfiðari viðfangs en önnur vímuefnaneysla. Líkamlegir fylgikvillar og dauðsföll af völdum of stórra vímuefnaskammta eru miklu algengari meðal þeirra en hjá öðrum vímuefnafíklum. Þeir eru því tíðir gestir á bráðamóttökum og almennum deildum sjúkrahúsanna. Kostnaður vegna slíkrar heilbrigðisþjónustu er mun meiri en kostnaðurinn sem hlýst af almennri vímuefnameðferð sem stendur þessum sjúklingum til boða. Auk þessa er vímuefnaneysla í æð mun tengdari alls konar afbrotastarfsemi en önnur vímuefnaneysla. Sprautufíklarnir mynda því hóp vímuefnafíkla sem eru þjóðfélaginu mjög kostnaðarsamur vegna afbrota og heilsutjóns.

Hér eins og víðast hvar annars staðar hefur sá hópur vímuefnafíkla sem sprautar vímuefnum í æð stækkað jafnt og þétt hin seinni ár. Horfurnar voru hér einna verstar á árunum 1998-2005. Þá fór saman hratt vaxadi nýgengi og aukin fjöldi sprautufíkla á Vogi. Horfurnar hafa batnað allra síðustu ár þó að fjöldi þeirra sem sprauta sig reglulega í æð sé enn að aukast. Nýgengið hefur minnkað 5 ár í röð og tilraunaneytendum fækkar snarlega. Unglingarnir sem áður voru að fikta við að sprauta sig gera nú mun minna af því. Sterkar vísbendingar eru því um að jafnvægi muni komast á innan tíðar og vímuefnafíklum sem sprautar sig reglulega í æð munu í framhaldinu fækka.

Hópur sprautufíkla á Íslandi sem er að sprauta sig reglulega í æð er orðiðn nokkuð stór og fjöldi þeirra sem leitar sér meðferðar ár hvert (algengi) er enn að aukats. Hópurinn er líka að eldast og stríðir oftar við alvarlega fylgikvilla. Kostnaður þjóðfélagsins hefur því vaxið hratt vegna þessa hóps og æ stærri hluti heilbrigðisþjónustu, félagsþjónustu og löggæslu fer í að sinna þessum einstaklingum.

Vandi sprautufíkla eru orðinn það stór hluti ólöglega vímuefnavandans, að tölulegar upplýsingar um sprautufíklanna og heilsufar þeirra segja okkur mikið um hvert stefnir í vímuefnamálum.

Pages: 1 2 3 4 5 6