Stéttskipt heilbrigðisþjónusta?

SÁÁ kom eins og stormsveipur inn í okkar litla samfélag fyrir 40 árum og byggði á skömmum tíma upp nýtt heilbrigðiskerfi fyrir áfengis- og vímuefnasjúklinga. Afglæpavæðing þessarar heilbrigðisþjónustu, hagnýting á vísindalegri þekkingu og fordómalaus nálgun sjúklinganna hlýtur að teljast eitt stærsta framfaraskref sem stigið hefur verið í lýðheilsumálum þjóðarinnar.

Peningar eru það sem greinir fólk í sundur félagslega. Þeir sem eru ríkir eiga oft erfitt með að umgangast hina sem eru efnaminni og öfugt. Eitt af því sem SÁÁ hefur hvað lengst verið gagnrýnt fyrir er hið opna og auðvelda aðgengi sem sjúklingar og aðstandendur þeirra hafa að þjónustunni. Þá hefur „sloppurinn“ á Vogi einnig fengið sinn skerf af háði en á sjúkrahúsinu eru allir sjúklingar í sloppum. Fólk hefur samt lítið verið að spá í hvers vegna þetta er haft svona – sem sagt opnu dyrnar og sloppurinn sem gerir alla eins útlítandi og félagslega jafnsetta þarna inni.

Það sækjast sér um líkir og sagt er að fíknsjúkdómurinn fari ekki í manngreinarálit. En er það alveg rétt? Slæmur félagslegur aðbúnaður barna og ungmenna er þekktur áhættuþáttur í umhverfinu sem eykur líkur á að einstaklingur þrói með sér fíknsjúkdóm. Erfðaþáttur í fjölskyldulægni sjúkdómsins er þannig félagslegur rétt eins og efnafræðilegur.

Innan úr stjórnsýslunni heyrist að lögbundnu fjármagni til heilbrigðisþjónustu sé best deilt með því að fjármagnið fylgi einstaklingnum þangað sem hann leitar eftir þjónustunni. Í nafni samkeppni eiga þjónustuaðilar að bítast um sjúklingana og með því ætlar ríkið að fá sem mest fyrir hverja krónu. Samt er alltaf um einokunarmarkað að ræða, því kaupandinn er aðeins einn –einkeypismarkaður er því réttnefni en ekki samkeppnismarkaður. Lögmál framboðs og eftirspurnar gilda ekki á einkeypismarkaði heldur lögmál þess sem kaupir þjónustuna og þær hömlur á mismunun sem ættu að gilda á hverjum tíma. Sjúkratryggingar Íslands deila og drottna á þessum markaði.

Og þá erum við komin að fyrirsögninni á þessum pistli. Er til stéttskipt heilbrigðisþjónusta á Íslandi? Já, hún er til. Á einkeypismarkaði Sjúkratrygginga Íslands er SÁÁ mismunað gróflega og sjúklingar sem nýta þjónustu SÁÁ, fá ekki afsláttarkort eins og aðrir sjúklingar og eins lög gera ráð fyrir. SÁÁ eru einu samtök sjúklinga á Íslandi sem safna peningum til að greiða fyrir heilbrigðisþjónustu sjúklinga sinna beinlínis. Regla stjórnsýslunnar um að peningar fylgi sjúklingum þangað sem þeir leita eftir heilbrigðisþjónustu gildir ekki um áfengis- og vímuefnasjúklinga. Þeim er mismunað og SÁÁ borgar sjálft það sem vantar upp á.

25 þúsund einstaklingar hafa komið í meðferð til SÁÁ. Sagan um að alltaf sé sama fólkið á Vogi lifir samt ennþá í óupplýstum skúmaskotum okkar samfélags. Og útúr þessum skúmaskotum heyrist baulað reglulega – endurkomufólk, lágstéttir, siðleysi, aumingjaskapur o.s.frv. Samt vitum við að í dag búa um 20 þúsund börn við þær erfiðu félagslegu og sálfélagslegu aðstæður að þurfa þola áfengis- og vímuefnaneyslu uppalenda sinna inni á heimilum sínum.

Í komandi kosningum hvet ég alla þá sem hafa nýtt sér þjónustu SÁÁ á síðustu 40 árum og aðstandendur þeirra til að kjósa þá stjórnmálaflokka sem lofast til að eyða þessari grófu mismunun og óréttlæti. Látum ekki nátttröllin trufla ferðalag okkar. Kjósum betra líf.

Höfundur greinar