Stjórn SÁÁ samþykkir byggingu nýrrar meðferðarstofnunar á Vík

Aðalstjórn SÁÁ samþykkti á fundi sínum 10. desember að ráðast í framkvæmdir við 2.730 fermetra nýbyggingar á Vík í Kjalarnesi. Jafnframt fara fram endurbætur og endurnýjun á því rúmlega 800 fermetra húsnæði sem fyrir er á Vík. Að framkvæmdum loknum verður risið ný meðferðarstofnun með fullkominni aðgreiningu meðferðar fyrir karla og konur og stórbættri aðstöðu fyrir sjúklinga og starfsfólk SÁÁ.

Frumhönnun er lokið en vinna við sérteikningum og hönnun innréttinga er ólokið. Tillaga til nýs deiliskipulags á landi SÁÁ á Vík er nú í auglýsingarferli hjá Reykjavíkurborg. Gert er ráð fyrir að nýtt deiliskipulag liggi fyrir innan tveggja mánaða. Framkvæmdir verða boðnar út að því loknu og er stefnt að því að framkvæmdir hefjist eins fljótt og kostur er og ekki síðar en í vor. Áætlun gerir ráð fyrir að framkvæmdum verði að fullu lokið um mitt ár 2017.

Á nýrri Vík verður rými fyrir 40 karla og 21 konu í eins manns herbergjum í aðskildum álmum og einnig verða aðskildar byggingar fyrir matsali, setustofur, fyrirlestra, meðferðarhópa. Átta herbergi verða sérútbúin með tilliti til aðgengis fyrir fatlaða. Einnig verður aukin og stórbætt aðstaða fyrir starfsfólk. Um leið og ný Vík verður tekin í notkun mun SÁÁ hætta starfsemi á Staðarfelli þar sem meðferðin er í leiguhúsnæði í áratugagömlu skólahúsi sem þarfnast mikils viðhalds og endurbóta og er óhagkvæmt í rekstri.

Á stjórnarfundinum gerði Theodór S. Halldórsson, formaður bygginganefndar framkvæmdastjórnar SÁÁ, grein fyrir undirbúningi framkvæmda og Ásgerður Th. Björnsdóttir, framkvæmdastjóri fjármálasviðs, fór yfir undirbúning fjármögnunar. Arnþór Jónsson, formaður SÁÁ, bar síðan fram tillögu til fundarins um að ráðist verði í framkvæmdirnar og var hún samþykkt samhljóða.

Áætlaður byggingakostnaður við framkvæmdirnar er um 920 milljónir króna en endanlegt kostnaðarverð er háð útboðum. Unnið hefur verið að fjármögnun framkvæmdanna í samstarfi við fjármálastofnanir og er það mat stjórnar samtakanna að rekstur samtakanna muni standa undir kostnaði við framkvæmdirnar miðað við að fjáröflun samtakanna verði með svipuðu sniði og verið hefur.

Myndin með þessari frétt sýnir eina þeirra útlitsteikninga sem eru til frekari úrvinnslu og kynntar voru fundarmönnum á stjórnarfundinum.