Sveppir sem valda ofskynjunum

Sveppir sem valda ofskynjunum hafa verið tíndir hér á landi og misnotaðir í yfir 20 ár. Þessi neysla er mjög tengd kannabisneyslu ungmenna og það eru sömu krakkarnir og nota hass hér á landi sem sækja í þessa neyslu. Sveppirnir eru etnir hráir eða þurrkaðir. Stundum er búið til úr þeim te eða þeir reyktir með hassi eða maríjúana.

Í mismunandi sveppategundum er mjög mismunandi mikið af efnum sem valda ofskynjunum og í sömu tegund getur magnið líka verið mjög mismunandi. Skammtarnir geta því þurft að vera allt frá 5 sveppum upp í 40. Óvirkir og eitraðir sveppir geta líka vaxið á svipuðum slóðum og líkst sveppunum sem sóst er eftir. Menn sem fara í slíka sveppatínslu þurfa því að vera talsvert sveppafróðir. Í sumum tilfellum þarf smásjá til að greina þessa sveppi nákvæmlega. Þessir sveppir virka eins og LSD og talsvert algengt er erlendis að LSD sé dreypt á óvirka sveppi og þeir síðan seldir. Sveppirnir sem hér eru tíndir eru litlir hattsveppir sem finnast einkum á umferðareyjum og túnblettum víða á höfuðborgarsvæðinu. Neysla þessara sveppa er talsvert algeng hér á landi en árstíðabundin. Ungmennin tína þessa sveppi seinnihluta sumars og á haustin og þó að sumir reyni að safna birgðum og geyma til vetrarins eru sveppirnir venjulega uppurnir fyrir jól. Neysla allra ofskynjunarefna þar með talin sveppaneysla hefur stóraukist á Íslandi síðastliðin fimm ár og virðist haldaast í hendur við stóraukna kannabisneyslu. Þannig kváðust 163 einstaklingar sem komu á Sjúkrahúsið Vog 1998 hafa notað sveppi; en 25 % þeirra sem voru 19 ára og komu á Vog höfðu notað sveppi eða 54.

Efnin sem valda ofskynjunum og eru að finna í sveppunum eru leidd af tryptamíni og því lík boðefninu seritóníni. Þau geta valdið svipuðum áhrifum og LSD og sýnt hefur verið fram á að efnin virka á seritonín 2 móttakara. Þessi vímuefni heita á efnafræðimáli psilocybin (4- fosforíl-DMT) og psilocin (4-hydroxí-DMT) og finnast í að minnsta kosti 40 tegundum af sveppum. Slíkir sveppir vaxa víða um heim og finnast hér á landi eins og í flestum heimshlutum. Psilocybin og psilocin eru að styrkleika 200 sinnum veikari en LSD og verka í um 6-10 klukkustundir. Þol myndast fljótt og krossþol er við LSD og meskalín.

Munurinn á psilocini og psilocybini er einungis sá að síðarnefnda efnið hefur fosfórsýrusameind sem klofnar strax frá þegar inn í líkamann er komið og breytist í psilocin.

Aðalhættan við að nota sveppi er sú að við neysluna getur neytandinn orðið geðveikur um tíma eða hrundið af stað alvarlegri geðveiki. Hægt er að deila um hverjir það eru sem þannig geta orðið geðveikir eða geðveilir. Flestir eru þó á því að veikleiki á geði þurfi að vera fyrir hendi til að slíkt komi fram. Erfitt er að segja fyrir um hverjir þola slíkt sveppaát en hægt að fullyrða að 15-20% okkar megum alls ekki nota þessa sveppi. Þeir sem eru í sérstakri hættu eru þeir sem eru geðveilir eða geðveikir eða í ætt þeirra er geðveiki. Aðrar aukaverkanir sem geta komið fram við sveppanotkun eru ógleði, uppköst, óþægindi í kvið, höfuðverkur, hár blóðþrýstingur og þanin ljósop og höfgi.

Önnur náskyld ofskynjunarefni

Til eru aðrar afleiður af tryptamínisem en psilocybin (4-fosforíl-DMT) og psilocin (4- hydroxí- DMT) sem valda ofskynjunum. Frægust er eflaust móðurefnið dímethyltryptamíne eða DMT sem er oftast smíðað í efnaverksmiðjum en finnst þó víða í náttúrunni í Suður-Ameríku og Vestur-Indíum. Þar finnst það í trjáberki og fræjum plantna. Fræin voru mulin og Indíánar tóku efnið í nefið og hafa gert um aldir. Í Bandaríkjum Norður-Ameríku hefur efnið verið reykt eftir að það hefur verið sett í steinselju eða eitthvað ámóta sem hægt er að reykja; það hefur verið drukkið eða því sprautað í æð eða vöðva. Þannig fæst verkunin. Þetta efni er ekki virkt þegar það er tekið um munn en getur valdið LSD-líkri verkun þegar það er sogið í nef eða reykt. Víma og örvun fæst um leið og efnið veldur breytingum á sjónskynjun. Ofskynjanirnar eru eingöngu ofsjónir. Efnið virkar mjög stutt eða í eina klukkustund og hefur því fengið viðurnefni og kallað LSD bisnissmannsins.

Ololiuqui-fræ eða Morning Glory-fræ voru notað af Indíánum í Mið- og Suður-Ameríku (Astekum og Mayum ) við trúarathafnir. Virka efnið er meðal annars lísergíðsýruamíð sem er 10 sinnum veikara en LSD. Aukaverkanir sem fylgja öllum ofskynjunarefnum sem líkjast seritónini eru mjög áberandi við neyslu þessara fræja og draga úr notkun þeirra. Aukaverkanirnar eru ógleði, uppköst, óþægindi í kvið, höfuðverkur, hár blóðþrýstingur og þanin ljósop og höfgi.