Svo það sé nú sagt

shutterstock_1014834241

Á síðasta ári var mikil umræða um biðlista á sjúkrahúsið Vog. Þrýst var á alþingismenn að hækka framlög til SÁÁ, svo hægt væri að vinna á biðlistanum. Í lok ársins var viðbótarfjárveiting samþykkt á þinginu, en þó með fyrirvörum um ráðstöfun þessara fjármuna sem beindu peningunum í allt annað en að stytta biðlista inn á Vog. Var það látið gott heita á þinginu og ráðherra málaflokksins og forstjóra Sjúkratrygginga Íslands falið að semja um kaup á þjónustu fyrir umrætt viðbótarframlag – heildarupphæðin 150 milljónir.

Gerður var samningur um göngudeildarþjónustu í Reykjavík og á Akureyri. Það tók þrjá mánuði og þá var sagt að ekki væri hægt að greiða afturvirkt fyrir þjónustu sem búið var að veita, þótt hún væri með öllu ófjármögnuð. Samningafundir hjá Sjúkratryggingum Íslands eru mjög sérstakir. Þar er annar aðilinn í einkeypisaðstöðu, leggur til samningstextann og ákveður sjálfur upphæð samningsins, einingaverð, magn og tegund þjónustu sem greitt er fyrir. Hinn aðilinn ákveður svo hvort forsvaranlegt sé að skrifa undir eða ekki. Skyldur Sjúkratrygginga Íslands liggja í óræðu gagnvirku sambandi við ráðherra en ekki gagnvart sjúklingum sem þurfa á þjónustu að halda.

„Það sem af er þessu ári hafa Sjúkratryggingar Íslands greitt 35,5 milljónir af 150 milljón króna viðbótarframlaginu. Ekkert af þessum fjármunum hefur runnið til kaupa á sjúkrahúsþjónustu fyrir fólk með fíknsjúkdóm.“

Það sem af er þessu ári hafa Sjúkratryggingar Íslands greitt 35,5 milljónir af 150 milljón króna viðbótarframlaginu. Ekkert af þessum fjármunum hefur runnið til kaupa á sjúkrahúsþjónustu fyrir fólk með fíknsjúkdóm. Biðlisti inn á Vog er lengri í dag en hann var nokkru sinni í fyrra, eða eins og Valgerður Rúnarsdóttir, forstjóri sjúkrahússins Vogs sagði á RÚV 12. júní sl., „Við tökum eins marga og við ráðum við að taka inn en það er ekki næstum því nógu margir, biðlistinn hjá okkur núna eru 650 manns sem að vilja koma og við tökum inn 2000 á ári og við höfum ekki undan.“

Höfundur greinar