Takk fyrir!

shutterstock_63859651-minni

Takk fyrir að styðja okkur hjá SÁÁ til þess að taka á móti einstaklingum og fjölskyldum, sem leita aðstoðar okkar vegna vanda af áfengi og öðrum vímuefnum.

Með ykkar aðstoð, getum við veitt 30% meiri þjónustu en ríkið greiðir fyrir með samningum Sjúkratrygginga Íslands.

Hjá SÁÁ bjóðast margs konar inngrip, allt frá viðtölum, kynningum og meðferð í göngudeildum, til inniliggjandi meðferðar við fíknsjúkdómi til mislangs tíma. Úrræðin eru einstaklingsmiðuð og meðferðarlínur eru sérhæfðar eftir aldri, kyni og mismunandi neyslu. Sjúkrahússvist á Vogi er meðal annars með lyfjameðferð, afeitrun, skimun smitsjúkdóma og meðferða þeirra, upphaf sálfélagslegrar meðferðar og einstaklingsbundinni áætlun um næsta skref. Allt frá skaðaminnkun í markvissa bataáætlun.

„Það eru þung skref að taka ákvörðun um að biðja um inniliggjandi meðferð við fíknsjúkdómi. Það er alltaf aðdragandi að því, endurteknar tilraunir á eigin spýtur og með öðru fagfólki eins og heimilislækni, sálfræðingi, félagsráðgjafa og fleirum.“

Á Vog vilja miklu fleiri koma en við ráðum við að sinna. Því miður er það svo. Það eru þung skref að taka ákvörðun um að biðja um inniliggjandi meðferð við fíknsjúkdómi. Það er alltaf aðdragandi að því, endurteknar tilraunir á eigin spýtur og með öðru fagfólki eins og heimilislækni, sálfræðingi, félagsráðgjafa og fleirum. Sjúkrahúsið Vogur er fjársvelt heilbrigðisstofnun, sem ætti þó að fá svigrúm til miklu meiri afkasta. Þörfin er til staðar. Eftirspurnin er til staðar. Það er ungt fólk sem hefur væntingar og skyldur sem biður um aðstoð, það þarf að sinna því. Vaxandi hópur eldri einstaklinga hefur knýjandi þörf fyrir aðstoð.

Í nútíma velferðarþjónustu er mikið er talað um að mæta fólki þar sem það er, virða ákvörðunarrétt einstaklinga og vinna að valdeflingu hvers og eins. Þetta eru allt eðlilegar kröfur og leiðandi í samskiptum í heilbrigðiskerfinu í dag, hvort sem um er að ræða skaðaminnkun eða meðferð til lækninga. Svo er einnig hjá SÁÁ.

Er mismunun einstaklinga eftir því hvert val þeirra er?

Þegar einstaklingur hefur tekið ákvörðun um að hætta neyslu áfengis eða annarra vímuefna og þarf til þess aðstoð, þá er slæmt að valið standi honum ekki opið. Það þurfa að vera opnar dyr, tækifæri til inngripa og meðferðar, þar sem einstaklingurinn tekur ábyrgð á sjúkdómi og bata við honum.

Ef ekki kæmi til stuðningur ykkar við SÁÁ, væri þjónusta okkar umtalsvert minni þrátt fyrir augljósa þörf fyrir það sem gert er í dag. Helst af öllu vildum við geta gert betur, sinnt fleirum og sinnt þeim fyrr, útrýma biðlista á Vog og auka til muna meðferð og möguleikum í göngudeildum.

Á meðan stuðningurinn er til staðar, höldum við áfram að gera okkar besta fyrir fólk með fíknsjúkdóm og fjölskyldur þeirra.

Höfundur greinar