Það þarf ekki áfall til að verða fíkill

Valgerður Rúnarsdóttir varð fyrst íslenskra lækna til þess að ljúka prófi í fíknlækningum í Bandaríkjunum og hefur unnið við að lækna íslenska áfengis- og vímuefnasjúklinga á Vogi síðustu fimmtán ár.

Valgerður er í ítarlegu forsíðuviðtali SÁÁ blaðsins, sem kemur út í dag, og þar ræðir hún meðal annars um fíknsjúkdóminn, spurninguna hvort karlar og konur eigi að vera saman í meðferð og um tengsl áfalla og fíknar en síðastnefnda atriðið er einmitt til umræðu í því broti úr viðtalinu sem gripið er niður í hér á eftir.

Það hefur verið gagnrýnt að ekki sé lögð nægileg áhersla á meðferð við áföllum í meðferðinni hjá SÁÁ, einkum hvað varðar konur. Hvað segirðu um það?

„Við vitum að það þarf ekki áfall til að verða áfengis- og vímuefnasjúklingur og það er ekki rétt viðhorf að konur sem koma á Vog almennt, séu hér út af áfalli.

Skýringin á áfengis- og vímuefnafíkn er ekki svo einföld. Hins vegar vitum við að áföll og ýmislegt sem gerist í lífinu getur gert mann viðkvæmari og veikari fyrir því að verða fíkill og alkóhólisti. Áföll og afleiðingar þeirra hafa líka mikil áhrif á það hvernig þróunin verður í sjúkdómnum og hvernig maður tekst á við hann. En það breytir ekki því að við þurfum að hugsa um áfengis- og vímuefnasjúkdóminn sérstaklega og sinna honum. Það er alltaf ástæða til að byrja þar. Stundum er ástæða til að koma fljótt inn með aðra meðferð, til dæmis ef fólk er mjög illa haldið af öðrum geðrænum einkennum. En stundum er það eitthvað sem kemur betur í ljós eftir því sem tíminn líður.

Sumir einstaklingar sem hingað koma þurfa aðstoð vegna áfalla. Það er mikilvægt að greina hverjir þurfa aðstoð við áfallastreituröskun, sem er sérstakur sjúkdómur, og fylgja því eftir að lokinni meðferð. Sama á við um mörg önnum vandamál sem við skimum líka fyrir hjá fólki og þarf að sinna í framhaldi.

En þetta er yfirleitt ekki bráðavandamál í meðferð við áfengis- og vímuefnafíkn.

Við hjá SÁÁ erum ekki með sérstaka áfallameðferð en áfengis- og vímuefnameðferð felur ósjálfrátt í sér heilmikla áfallameðferð. Langflestir sem hingað leita eiga áfallasögu en áfallastreituröskun er sérstakur sjúkdómur og þótt einhver hafi lent í áfalli þýðir það ekki að hann hafi fengið þann sjúkdóm.

Sumir sjúklingar eiga mjög mikið og alvarlegt áfall en aðrir minna. Sem betur fer þá ná flestir sér af áföllum án þess að það verði úr sjúkdómur um aldur og ævi, jafnvel þótt áfallið gangi aldrei úr minni.

Litlir sigrar hafa góð áhrif

Í meðferðinni næst oft mikill ávinningur gagnvart fyrri erfiðleikum. Litlir sigrar geta haft mjög góð áhrif og hjálpað fólki að ná sér af ýmsu sem það hefur verið þjakað af; gömlum erjum og sárum sem hefur gengið illa að ná sér frá eða truflað sýn frammávið. Beint og óbeint fer þetta saman. En meðferð við alvöru áfallastreituröskun fer ekki fram á fimm vikum í áfengismeðferð. Þá þarf miklu meira að koma til þótt oft sé hér hafin lyfjameðferð.

Það sem við viljum gera hér er að hjálpa fólki að koma auga á hvernig það getur nýtt sér sína bestu kosti, möguleika og sterkar hliðar til þess að ná sér. „Hvernig getum við getum hjálpað sjúklingnum til að ná sér?“ við erum alltaf að hugsa um það. Hér á Vogi rennur ýmislegt upp fyrir fólki sem það hefur verið blindað á vegna ýmissa varnarhátta og annarra eðlilegra ástæðna og það verður ákveðið í því að hætta neyslu. Þá förum við að vinna að því að hjálpa fólki að finna sína styrkleika til að geta nýtt þá til að ná sér.

Þessi sjúkdómur okkar, áfengis- og vímuefnafíkn, er ekki einfaldur. Hann getur reyndar verið mjög einfaldur í sinni tærustu mynd en flestir einstaklingar eiga við ýmislegt annað að etja. Langoftast veðja starfsstéttir, sem eru að sinna hinum ólíku vandamálum mannsins, á að það sé gott að taka á áfengis- og vímuefnavandanum áður en farið er að snúa sér að öðrum inngripum.

Hvort sem verið er að tala um að fara í erfiða aðgerð eða meðhöndla alvarlega geðsjúkdóma eða vægari geðsjúkdóma eða annað þá skiptir máli að huga jafnframt að fíknsjúkdómnum. Stundum þarf að meðhöndla fleiri en einn sjúkdóm í einu en meðferðir geta verið mismunandi áríðandi. Oftast er mikilvægast að koma að meðferð á áfengis- og vímuefnavandanum fyrst af því að hann ruglar allt sem snýr að geðsjúkdómum og gerir sumum ókleift að taka ábyrgð á bata frá öðrum sjúkdómum og vandamálum.

Smellið hér til að lesa allt viðtalið (bls. 4-7) og SÁÁ-blaðið 3. tbl. 2014 í heild sinni

Höfundur greinar