Þjóðin vill styrkja okkur og kaupa Álfinn

Fyrsta álfasalan fór fram 1990, skömmu eftir að Ásgerður Th. Björnsdóttir, viðskiptafræðingur og framkvæmdastjóri fjármálasviðs SÁÁ, byrjaði að vinna í sumarafleysingum á skrifstofu samtakanna. Hún hefur fylgst með álfasölunni og rekstri SÁÁ allar götur síðan.

Álfasalan hefur verið öflugasta og traustasta fjáröflun SÁÁ frá upphafi,“ segir Ásgerður. „Það hefur komið okkur á óvart ár eftir ár hvað við höfum mikinn meðbyr. Þjóðin vill styrkja okkur með því að kaupa Álfinn. Það er ótrúlegt hvað margir eru alltaf tilbúnir að leggja hönd á plóg.“

Í maí á hverju ári setur álfasalan svip sinn á starfsemi SÁÁ. „Álfasalan er mjög skemmtilegur tími í starfinu,“ segir Ásgerður. „Það bætast margir í hópinn á þessum tíma, því margir vilja taka þátt, bæði starfsfólk, félagsmenn í samtökunum og fólk utan samtakanna.

Það er mikil stemmning, langur vinnudagur og allir eru glaðir og kátir. Fyrir sölufólk eru þetta uppgrip því við greiðum góð sölulaun. Það er mikið um að íþróttafélög og alls konar hópar noti álfasöluna sem fjáröflun fyrir utanlandsferðir og ýmis konar verkefni og góð málefni. Að stórum hluta vinnur sama sölufólkið með okkur ár eftir ár. Þetta er mikill álagstími hér á skrifstofunni og allir leggja mikið á sig, ekki síst okkar fasta starfsfólk, sem bætir á sig verkefnum og vinnutíma meðan álfasalan stendur yfir.“

Álfurinn fyrir unga fólkið

Síðustu ár hefur álfasalan verið tileinkuð starfi SÁÁ í þágu barna og unglinga undir kjörorðinu Álfurinn fyrir unga fólkið. SÁÁ heldur úti margvíslegri starfsemi fyrir ungt fólk. Ellefu sjúkrarúm af um 60 rúmum á Vogi eru á unglingadeild. Þangað leita að jafnaði 2-300 sjúklingar undir tvítugu á hverju ári. Einnig má nefna sálfræðiþjónustu fyrir börn. Sú þjónusta er að langmestu leyti fjármögnuð af fé samtakanna en borgin styrkir þjónustuna að hluta. Um 900 börn á aldrinum 8-18 ára sem eiga áfengis- og vímuefnasjúklinga fyrir foreldra hafa fengið sálfræðiþjónustu frá árinu 2008. Önnur starfsemi fjölskyldudeildar SÁÁ er líka fjármögnuð að af samtökunum með söfnunarfé. Þar er til dæmis um að ræða fjölskyldumeðferð og fræðslu fyrir aðstandendur áfengis- og vímuefnasjúklinga, bæði foreldra, maka og fullorðin börn. Í boði eru námskeið, einstaklingsviðtöl og stuðningshópar sem fjölmargir nýta sér.

Frá árinu 1996 hefur SÁÁ látið 2,6 milljarða króna, á verðlagi þessa árs, renna í sjúkrarekstur sinn, segir Ásgerður. Þetta eru peningar sem safnað hefur verið með Álfasölu, félagsgjöldum og öðrum fjáröflunarverkefnum á vegum samtakanna.

„Þarna er um að ræða niðurgreiðslu samtakanna á lögbundinni heilbrigðisþjónustu, það er ekkert flókið,“ segir hún. „Þessir peningar greiða fyrir meðferð sjúklinga. Meðan ríkið hefur jafnt og þétt skorið niður framlög, sérstaklega eftir hrun, hefur það fallið á SÁÁ að greiða stærri og stærri hluta af kostnaðinum svo að hægt sé að halda uppi allri þeirri þjónustu sem hægt er. Vegna okkar fjáröflunarstarfs og þess mikla stuðnings sem við njótum höfum við verið þeirrar gæfu aðnjótandi að geta gert það.“

Álfurinn er ómissandi fyrir SÁÁ

Fjáröflun eins og álfasalan er ómissandi þáttur í rekstri SÁÁ og nú eru um 20% af kostnaði við sjúkrarekstur samtakanna greidd með söfnunarfé. Þjónustusamningur við ríkið tryggir greiðslu fyrir fyrir 1.530 innlagnir á Vog á hverju ári.

Innlagnirnar eruhins vegar um 2.000 ár hvert. Allt umfram 1.530 innlagnir greiðist af söfnunarfé samtakanna. Segja má að það jafngildi því að ríkið greiði rekstur Vogs fyrstu níu mánuði hvers árs en frá 1. október og fram til áramóta sé Vogur rekinn í boði þeirra sem kaupa Álfinn og annarra velunnarra SÁÁ. Síðustu ár hefur ríkið einnig gert kröfu um að að sjúklingar á Vík og Staðarfelli greiði tiltekna fjárhæð í fæðis- og húsnæðiskostnað. Samtökin hafa greitt hlut fátækra sjúklinga af söfnunarfé þannig að enginn þurfi að neita sér um meðferð vegna þess að hann hafi ekki efni á að greiða fæðis- og húsnæðiskostnað.

SÁÁ í fararbroddi í árangursmælingum Alls var meðgjöfin af söfnunarfé inn í sjúkrareksturinn 250 milljónir króna á árinu 2014. Ríkisendurskoðun endurskoðar árleg reikningsskil samtakanna án athugasemda.

Einnig hefur nýlega komið fram hjá landlækni að SÁÁ sé í fararbroddi íslenskra heilbrigðisstofnana hvað varðar það að vinna í samræmi við gæðamarkmið og stunda mælingar á árangri af starfseminni.

Þetta viðtal við Ásgerði Th. Björnsdóttur, framkvæmdastjóra fjármálasviðs hjá SÁÁ, birtist fyrst í SÁÁ blaðinu, 1. tbl. 2015.

Höfundur greinar