Þjónusta SÁÁ fyrir börn og unglinga

Þjónustu SÁÁ fyrir börn og unglinga má skipta í tvo meginþætti. Annars vegar er þjónusta fyrir börn áfengis- og vímuefnasjúklinga sem eru í hættu en hafa ekki þróað með sér vímuefnavanda. Sálfræðingar SÁÁ veita þessa þjónustu, sem um 1.100 börn hafa nýtt sér. Sálfræðiþjónustunni er fyrst og fremst beint að börnum þeirra sem sótt hafa sér meðferð hjá SÁÁ vegna áfengis- og vímuefnafíknar en er öllum börnum áfengis- og vímuefnasjúklinga opin. Hins vegar er þjónusta fyrir unglinga með áfengis-og vímuefnavanda.

Þjónustan felst í að finna þekkta áhættuþætti hjá þessum börnum eins og geðeinkenni, geðraskanir, hvatvísi, áföll, félagslega áhættuþætti og fleira og meðhöndla þessa þætti í góðri samvinnu við foreldra og forráðamenn. SÁÁ telur að þessi stóri hópur barna sé sá áhættuhópur sem er best afmarkaður og auðveldast er að ná til og veita markvissa forvarnarþjónustu. Samtökin hafa því lagt mikla áherslu á sálfræðiþjónustu fyrir þessi börn áður en þau byrja að nota vímuefni.

Þegar unglingur ratar í vímuefnavanda er full ástæða að reyna meðferðarúrræði sem raska sem minnst högum hans og miða að því að koma unglingunum sem fyrst í sitt eðlilega umhverfi að nýju. Meðferðin á Vogi og göngudeild SÁÁ í Efstaleiti býður upp á slíkt. Þeim sem hafa meiri vanda og eru 19 ára eða yngri er boðið upp á tveggja til fjögurra vikna framhaldsmeðferð á stofnunum SÁÁ á Staðarfelli og Vík.

Sérstaða sjúkrastofnana SÁÁ er mikil og hugmyndafræðin sem liggur að baki meðferðarinnar er allt önnur en hjá öðrum stofnunum landsins sem sinna unglingum. SÁÁ setur í forgang og vinnur fyrst að því að fá unglinginn til að reyna að sporna við vímuefnaneyslunni. Þegar tekist hefur að tryggja þetta er lögð aðaláhersla á samvinnu við foreldra og einstaklingsbundna geðræna og hugræna meðferð sem tekur stuttan tíma. Frekari félagsleg endurhæfing og menntun er lögð í hendur fjölskyldu og stuðningskerfa innan skólans eftir að meðferð lýkur.

Pistillinn að ofan er byggður á upplýsingum úr ársriti meðferðarsviðs SÁÁ 2016. Ársritið í heild er hægt að lesa með því að smella hér.