Þróun meðvirku fjölskyldunnar

Þegar einn úr fjölskyldunni veikist er það markað í erfðum okkar hvað við gerum. Við göngum fram fyrir skjöldu, tökum byrgar af hinum veika og vinnum vinnuna hans. Í flestum tilvikum er þetta rétt og gagnast vel. Þegar einhver veikist af fíkn í fjölskyldu okkar bregðumst við eins við og setjum af stað þróun sem ekki sér fyrir endann á.

Við getum skipt þessarri þróun í fjögur stig og kallað afneitun, stjórnun, einangrun og upplausn. Auðvitað er hægt að notað miklu fleiri stig til að lýsa þróuninni. Aðalatriðið hér er að gera sér grein fyrir að verið er að lýsa mjög flókinni þróun og þá dugar ekki að verða bókstafstrúar.

Líður ekki vel en heldur ekki illa

Fyrsta stigið einkennist af því að allir í fjölskyldunni trúa því ekki upp á ástvin sinn að hann sé að veikjast af þessum skammarlega sjúkdómi sem almennilegt fólk fær ekki. Þeir réttlæta gjörðir fíkilsins í huga sér og hylma yfir með honum og fela. Hjálpa honum til að halda andlitinu um leið og þeir reyna með vaxandi ákafa að stjórna hegðun hans og líðan. Hér líður öllum nokkuð vel og telja sig ráða við aðstæður.

Næsta stig köllum við stjórnunarstig. Það einkennist af því að vandinn er viðurkenndur að hluta en ekki utan fjölskyldunnar og reynt er að fela hann fyrir öðrum. Hver og einn einstaklingur er upptekinn við að reyna á sinn hátt að lækna fíkilinn með því að hafa áhrif á hegðun hans og líðan. Einstaklingarnir tala ekki saman um vandann og hafa enga heilstæða áætlun um lausn hans og leita sér ekki aðstoðar. Fíkillinn elur með framkomu sinni og orðum á ósamheldni og rifrildi meðal ástvina sinna. Allt er í hnút og allir vissir um að þeir hafi rétt fyrir sér og halda enn sínu sjálfstrausti. Þeim líður ekki vel en heldur ekki illa. Oft fer fíkillinn í meðferð á þessu stigi og ástvinirnir gera sér óraunhæfar væntingar um batann.

Einangrun og upplausn

Þriðja stigið er einangrun og það versta því að allar stjórnunaraðgerðir og tilraunir hafa brugðist og fíkillinn heldur áfram að vera virkur. Einstaklingunum í fjölskyldunni finnst að þeir hafi brugðist og séu þess vegna misheppnaðir. Vaxandi félagsleg einangrun kemur til sögunnar, tengsl maka við vini rofna og börnin bjóða fáum heim. Sameiginleg áhugamál eru vanrækt og samverustundum fækkar. Tilfinningaleg einangrun heldur innreið sína í fjölskylduna þar sem einstaklingarnir draga sig í hlé og gefa ekki öðrum hlutdeild í lífi sínu og tilfinningum. Ástæðan er augljós; ef tilfinningarnar brjótast fram hefur það alvarlegar afleiðingar í för með sér og oftast að fíkillin fer í neyslu. Á þessu stigi býr fólk við vaxandi vanlíðan og óhamingju.

Fjórða og síðasta stig þróunarinnar er upplausn í fjölskyldunni og hún hættir í raun að vera til sem slík. Náttúran sér um að fólk komist úr óþolandi einangrunarstigi. Smám saman hætta einstaklingar fjölskyldunnar að einblína á fíkilinn og finna sér annan farveg í lífinu. Makinn snýr sér að verkefnum utan fjölskyldunnar og börnin koma sér burt og mynda sína eigin fjölskyldu. Einstaklingarnir aftengjast fíklinum svo mikið tilfinningalega að furðu sætir.

Ekki tala um ,,vandamálið”

Líta má á þróun í fölskyldum fíkla á annan hátt. Sjá að smám saman myndast samskiptareglur sem einstaklingarnir fara eftir. Reglurnar verða sífellt meira áberandi og einstaklingarnir fara sífellt nákvæmar eftir þeim. Claudia Black var með þeim fyrstu að benda á þetta og talaði um reglurnar þrjá. Ekki tala, ekki treysta og ekki finna til. Robert Subby og aðrir töluðu um fleiri reglur eins og þær sem hér koma á eftir:

  1. Það á ekki að tala um vandamál og alls ekki „vandamálið“.
  2. Það á ekki að bera tilfinninga sínar á torg.
  3. Samskipti eru óbein, helst í gegnum þriðja aðila
  4. Vertu sterkur, góður, fullkominn og hafðu rétt fyrir þér.
  5. Gerðu okkur stolt af þér.
  6. Vertu ekki sjálfselskur eða eigingjarn.
  7. Gerðu eins og ég segi en ekki eins og ég geri.
  8. Það er ekki æskilegt að bregða á leik og vera of ærslafullur.
  9. Við skulum ekki ýfa öldurnar

Í batanum er mjög mikilvægt fyrir fjölskylduna að brjóta upp þessar reglur og koma á sameiginlegum fundi þar sem leyfilegt er að tala um hegðun fíkilsins og önnur viðkvæm mál.

 

-ÞT

Sjá SÁÁ blaðið 2010 3.tbl