Þverpólitísk samstaða í áfengismálum

Hertar reglur um áfengisauglýsingar, bann við kostun áfengisframleiðenda, opinber verðlagning á áfengi og síðast en ekki síst: Bættur aðgangur að meðferð fyrir áfengissjúklinga. Þetta eru helstu atriðin í þverpólitískri sátt sem hópur breskra þingmanna hefur náð um nauðsynlegar aðgerðir í áfengismálum þar í landi.

Þingmennirnir sem mynda saman þverpólitískan hóp til að vinna gegn áfengismisnotkun náðu saman um tíu aðgerðir sem þeir vilja að  stjórnvöld og aðrir stefnumótendur  beiti til að draga úr skaðsemi áfengisneyslu í bresku samfélagi

Þar á meðal eru hertar takmarkanir við áfengisauglýsingum í fjölmiðlum og áætlun um að banna kostun áfengisframleiðenda á opinberum viðburðum. Einnig verði lagðir stórauknir fjármunir í meðferð og aðgang að áfengismeðferð.

Þá verði tekin upp opinber verðlagning á áfengi í Bretlandi og stjórnvöld gefi út formlegt lágmarksverð fyrir áfenga drykki þar í landi. Einnig verði farið út í markvissa fræðsluherferð fyrir félagsráðgjafa og starfsfólk í félagsþjónustu um áhrif sjúklegrar áfengisdrykkju foreldra á líf barna. Loks er hvatt til þess að ráðist verði þjóðarátak fyrir úrbótum í áfengismálum meðal bresku þjóðarinnar.

„Það má rekja eitt dauðsfall á tólf klukkunda fresti til áfengisneyslu,“ segir þingmaðurinn Tracey Crouch, og staðhæfir einnig að 1.200 þúsund innlagnir á bresk sjúkrahús eigi sér stað árlega vegna áfengisneyslu.

Lord Brooke of Alverthorpe, sem einnig situr á þingi og tekur þátt í þessum þverpólitíska hópi segir: „Næst á eftir reykingum verða flest dauðsföll, sem hægt væri að koma í veg fyrir, vegna áfengisneyslu. Áfengi kostar ekki bara mannslíf heldur veldur nánast óbærilegu álagi á heilbrigðiskerfið og réttarkerfið og veldur síauknum kostnaði. Þetta vita allir stjórnmálaflokkar en þeir hlaupast í felur undan þessum óþægilegum staðreyndum vegna þess gífurlega þrýstings sem stjórnmálamenn verða fyrir frá talsmönnum áfengisiðnaðarins. Þar er gríðarlega öflugur þrýstihópur.  Þær tillögur sem við leggum fram veita stjórnmálamönnum enn eitt tækifæri til þess að sýna að þeir hafi kjark til að setja velferð og framtíð þjóðarinnar í fyrsta sæti í þessum málum.“

„Heilbrigðiskerfið í Bretlandi er undir gríðarlegu álagi vegna sjúkdóma af völdum áfengis. Það álag er ekki eingöngu vegna innlagna á slysa- og bráðadeild í tilvikum þar sem tengslin við áfengisneyslu eru augljós eða innlagnir vegna lifrarsjúkdóma, heldur einnig um umtalsverðan fjölda annars konar sjúkdóma þar sem áfengi hefur mun meiri áhrif en almennt er viðurkennt,“ segir Jackie Ballard, fyrrverandi þingmaður á breska þinginu og forstjóri samtakanna Alcohol Concern, sem starfa með þingmannasamtökunum.

Samtökin Alcohol Concern kynntu á dögunum upplýsingar um tjón af völdum áfengisneyslu í öllum sveitarfélögum á Englandi. Þar er áætlað að alls 9,6 milljónir manna, eða rúm 18% af um 53 milljónum íbúa Englands, bíði tjón á heilsu sinni vegna of mikillar áfengisdrykkju. Þar af eru 2,4 milljónir manna taldar í mikilli hættu.

„Við þurfum að tryggja að framboð á nægilega góðri umönnun áfengissjúklinga sé sett í forgang til þess að draga úr þessari byrði. Það er einnig mjög mikilvægt að koma í veg fyrir skaðlega áfengisdrykkju. Þar skiptir mestu máli að ríkisstjórin ákveði lágmarksverð á áfengi í landinu. Með því væri fyrst og fremst hægt að bjarga mannslífum og einnig vinna gegn mikilli og óþarfri sóun verðmæta,” sagði Ballard.