Tímamót

Einar Hermannsson

Einar Hermannsson formaður SÁÁ

Þann 8. apríl síðastliðinn sleit SÁÁ formlega samstarfi sínu við Íslandsspil. Lauk þar með nærri 30 ára samstarfi við Rauða krossinn og Landsbjörgu um rekstur spilakakassa sem þá kölluðust söfnunarkassar. Ég tel þetta vera mikið gæfuspor fyrir samtökin og sýna að við metum mannúð fram yfir peninga. Eftir útgöngu okkar hafa umræður farið af stað um siðferði góðgerðasamtaka vegna reksturs á spilakössum svo og almenn umræða um spilafíkn. Það er mikill munur fyrir okkur hjá SÁÁ að geta nú tekið þátt í þeirri umræðu eingöngu út frá skjólstæðingum með spilafíkn og aðstoða þá við að ná bata.

Við finnum fyrir því að gríðarleg ánægja ríkir í samfélaginu, í stjórn SÁÁ og hjá starfsfólki með útgöngu okkar og í kjölfarið hefur skapast afar jákvæð umræða um SÁÁ.  Sá hlýhugur kemur bersýnilega í ljós þegar bornir eru saman fyrsti ársfjórðungur þessa árs við fyrsta ársfjórðung 2020 en valgreiðslur hafa hækkað um tæp 60 % á milli ára. Þá veitti einstaklingur, sem kýs að halda nafnleynd, samtökunum einar  10 milljónir í styrk vegna útgöngunnar og má hér lesa brot úr bréfi hans til samtakanna.

„ Starf SÁÁ hefur lengst af verið fjármagnað með sjálfsaflafé og stuðningi félagsmanna, almennings og áhugamanna um áfengis- og vímuefnavanda. Þar sem spilafíkn er ein tegund fíknar hefur SÁÁ nú tekið þá samfélagslegu og siðferðislegu ákvörðun að taka ekki lengur við fjármunum sem fengnir eru með hagnaði af spilakössum. Af því leiðir tekjumissir fyrir samtökin, tekjumissir sem ég vil koma til móts við með því að heiðra minningu konunnar minnar og eigin edrúmennsku í rúm fjörtíu ár. Fullur þakklætis fyrir það líf sem starf SÁÁ hefur leitt af sér mér og öðrum til góðs“

Kunnum við þessum velgjörðarmanni miklar þakkir fyrir hans framlag.

 

Höldum áfram að hlúa að þeim sem þurfa á þjónustu SÁÁ að halda, samfélaginu til heilla.

 

Einar Hermannsson

Formaður SÁÁ