Tímamótayfirlýsing landlæknis Bandaríkjanna

Hér á eftir fer orðrétt þýðing á ávarpi sem landlæknir Bandaríkjanna, dr. Vivek Murthy, flutti þann 19. apríl 2016 á sérstakri hringborðsráðstefnu í tengslum við fund Allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna í New York um vímuefnavandann UNGASS2016. Þetta er fyrsta skipti sem Allsherjarþing SÞ setti málefnið á dagskrá með slíkum hætti.

vadm-murthy2Hægt er að horfa á landlækninn flytja ávarp sitt á myndbandi á Facebook-síðu embættis hans með því að smella hér en texti ávarpsins fer þýddur hér á eftir.

Ávarpið sætir tíðindum að ýmsu leyti. Landlæknir lýsir því m.a. yfir að vonlaust sé að ætla að saksækja og loka fólk inni til að sigrast á vímuefnavandanum. 45 ára stríð Bandaríkjastjórnar gegn fíkniefnum hafi misheppnast og breyst í stríð gegn fólki sem notar vímuefni. Frá sjónarhóli velunnara SÁÁ er það sérstakt fagnaðarefni að hann boðar að landlæknisembættið muni síðar á árinu gefa út í fyrsta skipti sérstaka skýrslu, um áfengis- og vímuefnavandann sem heilbrigðismál, þar sem útskýrðar verði nýjustu vísindarannsóknir sem sýni fram á að vímuefnamisnotkun sé langvinnur sjúkdómur sem sé líffræðilegs eðlis og eigi upptök í mannsheilanum og lausnin við honum felist í heilbrigðisþjónustu, meðferð og ráðgjöf sem er svipuð þeirri þjónustu sem SÁÁ hefur boðið íslenskum áfengis- og vímuefnasjúklingum í anda þess sem best þekkist í fíknlækningum hverju sinni undanfarin 39 ár.  Hann talar einnig um að skortur á fræðslu til heilbrigðisstétta sé lykillinn að vímuefnavandinn snýst ekki aðeins um ólögleg vímuefni heldur einnig lyf, ópíóða, sem ávísað er af læknum.

Lesið ávarpið allt hér á eftir:

„Takk fyrir virðulegu fundarstjórar og þátttakendur í þessum umræðum. Háttvirtu sendifulltrúar og fulltrúar hins alþjóðlega samfélags. Ég er þakklátur fyrir að hafa tækifæri til að vera með ykkur hér í dag.

Ég heiti dr. Vivek Murthy og er landlæknir Bandaríkjanna. Ég er hingað kominn til að deila með okkur því sjónarmiði okkar að vímuefnavandinn er fyrst og fremst heilbrigðisvandi sem kallar á lýðheilsufræðilegar lausnir. Fyrir 45 árum lýsti landið mitt yfir stríði gegn fíkniefnum sem óvart varð svo að stríði gegn því fólki sem notar fíkniefni.  Það varð til að stimpla þau og útskúfa og refsa þeim frekar en að ráðast gegn rót vandans.

Við höfum síðan komist að því að fíkn er ekki siðferðisbrestur. Hún er langvinnur sjúkdómur. Langvinnur sjúkdómur sem brýnt er að meðhöndla af þekkingu og samúð. Fólk sem lifir við fíkn þarf stuðning og meðferð. Okkur hefur lærst að það er mikilvægt að vinna með samstarfsfólki innan löggæslunnar að því að finna jafnvægi milli stefnunnar í lýðheilsumálum og skynsamlegum aðferðum sem tryggja öryggi almennings og við viðurkennum að hvorttveggja er nauðsynlegt. En við höfum líka komist að því að við getum ekki leyst þennan vanda með því að saksækja fólk og loka það inni. Þess í stað þurfum við að fjárfesta í fræðslu, forvörnum og meðferð sem leiðir til langtíma bata vegna þess að samkvæmt World Drug Report frá síðasta ári (skýrslu skrifstofu Sameinuðu þjóðanna um fíkniefni og afbrot) notuðu næstum því 246 milljónir manna víða um heim ólögleg fíkniefni á árinu 2013.

Við höfum komist að því að ólögleg vímuefni eru aðeins hluti vandans. Faraldur geisar og er að eyðileggja líf fólk vegna notkunar og ofskömmtunar á ópíóðum sem ávísað er af læknum, meðal annars vegna þess að þessum löglegu lyfjum er ávísað í of miklum mæli og það skortir á þjálfun og upplýsingar. Við þurfum að styrkja þjálfun lækna hvað varðar reglur um ávísun lyfja. Við þurfum að hjálpa heilbrigðisstarfsfólki að skilja ávanabindandi eðli ópíóða og hlutverk þeirra í verkjameðferð. Þökk sé Lýðheilsu- og forvarnarstofnun Bandaríkjanna liggja nú fyrir skýrrar leiðbeiningar sem auðvelda þeim sem ávísa þessum lyfjum að gera það með réttum hætti.

Samkvæmt upplýsingum frá Sameinuðu þjóðunum er vitað um nærfellt 200.000 dauðsvöll af völdum fíkniefna á árinu 2013. Það er sameiginlegt verkefni okkar að stöðva þennan faraldur og beita traustum lýðheilsufræðilegum aðferðum til þess að draga úr notkun þessara efna og afleiðingum notkunarinnar. Þetta þarf meðal annars að fela í sér meðferð með aðstoð lyfja þar sem notuð eru lyf eins og til dæmis methadone, naltrexone og buprenorphine.  Þær þurfa að fela í sér fordómalausa ráðgjafaþjónustu og nálaskipti þjónustu en allar þessar aðferðir hafa reynst árangursríkar við að bjarga lífi fólks.

Ég hvet aðildarríkin til þess að viðurkenna vímuefnamisnotkun sem langvinnan sjúkdóm og til að auka í samræmi við það viðbrögð hvað varðar viðbúnað sem snertir lýðheilsu og heilbrigðisþjónustu. Ég hvet ykkur til að taka upp gagnreyndar aðferðir við inngrip sem koma í veg fyrir og veita meðferð við fíkn og sem styðja þá sem eru á batavegi á þann hátt að öllum bjóðist fjölbreytt úrræði á sviði heilbrigðis- og félagsþjónustu sem nauðsynleg eru til þess að endurreisa líf sitt án þess að þurfa að búa við mismunun og án þess að þurfa að sæta ámæli og fordómum.  Það hafa orðið miklar vísindalegarframfarir á sviði læknavísinda og atferlisvísindum og það er orðið tímabært að fara að hagnýta þá þekkingu til þess að bjarga mannslífum og hlífa fjölskyldum og til þess að gera samfélög okkar öruggari. Og ég hvet ykkur einnig til þess að fjárfesta í umfangsmiklum verkefnum til þess að draga úr eftirspurninni, þar á meðal fræðslu, skimun, atferlismeðferð, vísindarannsóknum og ofskömmtunarfræðslu þar sem markmiðið er að stuðla að bata.

Ég fagna því að þið hafið kallað til þessa sérstaka fundar og ég vonast til þess að öll ríki skuldbindi sig til þess að leggja fram fjármuni til umfangsmikilla forvarna og snemmtækrar íhlutunar eins og nánar er kveðið á um í leiðbeiningum um grundvallaratriði þess hvernig draga eigi úr eftirspurn.

Ég vil einmitt lýsa ánægju minni með það að Alþjóða heilbrigðismálastofnunin og Skrifstofa Sameinuðu þjóðanna um fíkniefni og afbrot hefur birt Alþjóðlegan meðferðarstaðal á vettvangi Stjórnarnefndar efnahags- og félagsmálaskrifstofu Sameinuðu þjóðanna um fíkniefni (CND – The Commission on Narcotic Drugs) þannig að aðildarríkin geta nú gengið að lista með upplýsingum um þau meðferðarúrræði sem byggð eru á gagnreyndum aðferðum og þeir geta valið úr.

Síðar á árinu mun ég birta fyrstu skýrsluna sem komið hefur frá embætti mínu um áfengi, vímuefni og heilsufar. Í meira en hálfa öld hafa skýrslur Embættis landlæknis í Bandaríkjunum (U.S. Surgeon General) fjallað um margar af helstu heilsufarsvandamálum hvers tíma allt frá tóbaksreykingum og ofbeldi til HIV faraldurs og geðheilbrigðismála. Þessar skýrslur leiða jafnan til þess að umfjöllunarefnið fær mikla og nauðsynlega alþjóðlega athygli.

Skýrslan sem ég mun gefa út mun uppfæra skilning okkar á vímuefnanotkun með því að leggja fram upplýsingar um nýjustu hágæða rannsóknir í vísindum á sviði forvarna, meðferðar og bata. Hún mun einnig útskýra líffræðilegan grundvöll þess hvaða áhrif vímuefnamisnotkun hefur á mannsheilann og hvers vegna sumt fólk er viðkvæmara fyrir þeim áhrifum en aðrir. Við munum leggja fram þessar upplýsingar í aðgengilegu formi og láta fylgja hagnýt verkfæri fyrir foreldra, fjölskyldur, samfélög og þá sem móta stefnu stjórnvalda. Við vonumst til að þetta muni  nýtast ekki aðeins Bandaríkjamönnum heldur einnig náunga okkar um allan heiminn.

Ég trúi því að með traustri þekkingu á sviði læknisvísinda – traustri þekkingu sem við getum nýtt til þess að tryggja jarðtengingu í opinberri stefnumótun – getum við í sameiningu tekist á við áskoranir fíknarinnar. Við getum dregið úr þjáningu og við getum í sameiningu leyst fíkniefnavanda heimsins. Og til þess þurfum við á leiðsögn ykkar að halda. Þakka ykkur kærlega fyrir.“

Þýðing PG