Traust milli aðila og trúin á framtíðina

Í byrjun þessa árs tilkynnti SÁÁ um fyrirhugaða lokun göngudeildar sinnar á Akureyri um næstu áramót. SÁÁ hefur rekið göngudeild á Akureyri í 25 ár og allan tímann greitt með starfseminni af sjálfsaflafé sínu, alls um 500 milljónir. Nauðsynlegt er að geta aðkomu Akureyrarbæjar að rekstrinum sem í gegnum tíðina hefur stutt við starfsemina með um fjórðungsframlagi, nema árin 1998-2006 þegar bærinn hætti greiðslum.

Sennilega er orðið of seint að bjarga rekstrinum á Akureyri. Ekkert hefur heyrst frá stjórnsýslunni síðan í janúar þegar tilkynnt var um fyrirhugaða lokun. SÁÁ hefur auglýst eignir sínar fyrir norðan til sölu og stefnir nú að því að opna göngudeildarþjónustu um allt land með sérstökum fjarfundarbúnaði sem uppfyllir öll skilmerki um gæði og öryggi slíkrar starfsemi. Með góðum vilja væri hægt að tala um þessar fyrirsjáanlegu breytingar sem framfaraspor – nema fyrir Akureyringa.

SÁÁ eru félagasamtök til almannaheilla, stofnuð og starfrækt til eflingar skýrt afmörkuðum málefnum. Árangur í starfi og ábyrg meðferð fjármuna hefur einkennt reksturinn í 40 ár. Frjáls félagasamtök, sem njóta velvildar og stuðnings líkt og SÁÁ, skapa mikil verðmæti í íslensku samfélagi. Traust milli aðila og trúin á framtíðina eru fjöregg samtakanna.

Samspil hins opinbera við almannaheillasamtök eins og SÁÁ hefur ekki náð takti breytinga í samfélaginu. Í mörgum málum er engu líkara en stjórnsýslan og pólitíkin sitji föst og innilokuð á endalausum kaffi- og kleinufundum. Þegar þjónusta, eins og sú sem SÁÁ hefur byggt upp á Akureyri í aldarfjórðung hefur margsannað sig, ætti hið opinbera að tryggja sjálfbærni hennar svo SÁÁ geti í framhaldinu horft til framtíðar og nýtt krafta sína og þekkingu til nýsköpunar og uppbyggingar innviða í samfélaginu. Þá væri vel spilað.

En það er auðvitað ekki eftir neinu að bíða fyrir SÁÁ og hina sjúkratryggðu sjúklingana. Fíknsjúkdómurinn er langvinnur vandi sem þarf að sinna alla ævi. Samtvinnun þekkingar, reynslu og upplýsingatækni mun auðvelda SÁÁ nauðsynleg inngrip og eftirfylgni og færa hagkvæmari langtímaþjónustu nær þeim einstaklingum sem þurfa á göngudeildarþjónustu að halda. Við stígum þetta skref.

Spurningin er hvort ríkið ætli að sitja hjá enn eitt árið og láta SÁÁ og almenning reka þjónustuna alfarið fyrir söfnunarfé?