Tregða yfirvalda bitnar á fólki með fíknsjúkdóm

shutterstock_1031579890

„Tíminn líður. Er tilgangur heilbrigðisyfirvalda að draga og torvelda samningsgerð til ársloka og tryggja þannig að SÁÁ fái ekki það sem samþykkt var í fjárlögum fyrir 2019?“

Hvað gengur yfirvöldum til?

Finnst þeim einstaklingar með fíknsjúkdóm fá of mikla þjónustu?

Er sú meðferð sem SÁÁ veitir, ekki stjórnvöldum þóknanleg?

Heilbrigðisráðuneytið eykur ekki möguleika SÁÁ á að sinna sínu markmiði, sem er að veita meðferð fólki með fíknsjúkdóm og aðstandendum þeirra.

SÁÁ greiðir með framlögum almennings stóran hluta af þeirri meðferð sem nú er veitt á sjúkrahúsinu Vogi og í lyfjameðferð við ópíóíðafíkn. Göngudeildir SÁÁ hafa verið reknar án nokkurs framlags frá ríkinu.

Fjárlaganefnd sá stóru myndina og þörfina, samþykkti í lok árs 2018, 150 milljóna viðbótarframlag til SÁÁ árið 2019, það var samþykkt á Alþingi í fjárlögum.

Nú er miður mars 2019.

Sjúkratryggingar Íslands eru í umboði ráðuneytis að vinna að samningi, þó með skorðum og fyrirmælum sem gera þá vinnu torvelda. Tíminn líður. SÁÁ hefur svarað öllum fyrirspurnum SÍ skilmerkilega um leið og þær berast.

Reksturinn hjá SÁÁ er í gangi, kostnaðartölur liggja fyrir, lýsing á starfsemi liggur fyrir.

Í dag var sagt skýrt hjá SÍ að fyrirmæli frá ráðuneyti væru um 20 milljónir til göngudeildar á Akureyri, 80 milljónir til göngudeildar í Reykjavík og 50 milljónir í Vog.

Ekkert hefur verið minnst á hvernig þeim 50 milljónum sem samþykkt var í fjárlögum, verður komið á Vog, þótt fyrir liggi að kostnaður við veitta þjónustu sé langt umfram það sem ríkið greiðir og samningar allir útrunnir.

Miður mars 2019. Viðbótarframlögin sem samþykkt var að veita eru hugsuð til 31.12.2019. Þau verða ekki veitt afturvirkt frá 1.1.2019.

Tíminn líður. Er tilgangur heilbrigðisyfirvalda að draga og torvelda samningsgerð til ársloka og tryggja þannig að SÁÁ fái ekki það sem samþykkt var í fjárlögum fyrir 2019?

Þessi tregða yfirvalda bitnar á fólki með fíknsjúkdóm.

Höfundur greinar