Treystum baklandið – leysum vandann

SÁÁ hefur lengi reynt að fá stjórnvöld til samstarfs um rekstur á langtímameðferðarúrræði fyrir endurkomusjúklinga – karla og konur sem eru langt gengnir áfengis- og vímuefnasjúklingar og þurfa meiri þjónustu að lokinni afeitrun en hægt er að veita með núverandi meðferð. Léleg félagsleg staða og færni fólksins ásamt með lélegri líkamlegri og andlegri heilsu gerir núverandi meðferð of hraða og átakamikla. Þörf er á sérúrræðum fyrir þetta fólk sem eðlilegast er að SÁÁ veiti. Langflest eru þau eldri en 35 ára og farin að láta á sjá vegna áratuga langrar óhóflegrar áfengis- og vímuefnaneyslu. Líkamleg heilsa er yfirleitt léleg. Flest búa ein, taka lítinn þátt í fjölskyldulífi og eru áberandi félagslega einangruð. 80% þeirra hafa ekki verið í vinnu árum saman. Stöðugur húsnæðisvandi plagar fólkið og mörg eru á götunni.

Þetta er ekkert nýtt, heldur gömul saga sem þarf að fara að klára. Sagan um sjúklinginn, sagan um fjölskyldusjúkdóminn – saga um bróður, systur, pabba, mömmu eða frænda sem er jafnan útskrifaður eftir skammtímadvöl á sjúkrahúsum og stofnunum án þess að nokkurt úrræði sé til staðar í kerfinu sem getur veitt þá þjónustu og þann stuðning sem þarf til að þessir einstaklingar geti lifað við boðlegar aðstæður og náð þokkalegum bata frá sjúkdómi sínum.

Stuðningur við langtímameðferð fyrir konur og karla

SÁÁ telur að sérhannað búsetuúrræði með einstaklingsíbúðum fyrir allt að 36 karla og konur úr þessum hópi geti leyst stóran hluta vandans til frambúðar. Samtökin vilja búa þessu fólki slíkt heimili með langtíma félagslegum stuðningi og nauðsynlegri heilbrigðisþjónustu.

Það er slíkt umhverfi sem er forsenda fyrir því að svo langt gengnir alkóhólistar geti náð langtíma-edrúmennsku. Þessu úrræði þarf að koma á fót svo hægt sé að koma í veg fyrir að aftur og aftur þurfi að útskrifa þessa einstaklinga úr meðferð eða af öðrum sjúkrastofnunum inn í vonlitlar félagslegar aðstæður með litla eða enga möguleika á langtíma bata frá sjúkdómi sínum.

SÁÁ hefur lagt mikla vinnu og hugvit í að greina þarfir þessa hóps og hvernig þeim verði best sinnt. Samtökin telja sig öðrum fremur til þess fallin að annast þjónustu við þennan hóp og eru sem fyrr tilbúin til viðræðna við stjórnvöld um það mál og munu halda áfram að vekja athygli stjórnvalda á stöðu veikustu fíklanna og hvetja til samstarfs um úrbætur.

Þetta málefni, uppbygging meðferðar- og búsetuúrræðis fyrir langt gengna áfengis- og vímuefnasjúklinga, er áherslumál SÁÁ næstu mánuðina. Ég heiti á vini og velunnara samtakanna að leggjast á árarnar með okkur.


Þessi grein Arnþórs Jónssonar, formanns SÁÁ, birtist fyrst í Morgunblaðinu 8. október 2014, sama dag og Baráttufundur SÁÁ fór fram í Háskólabíó undir slagorðinu Treystum baklandið.