Trúboð ráðuneytisins

Kvikmyndin „Lof mér að falla“ er áhrifamikil endursögn um stjórnlausa vímuefnaneyslu og sorgleg örlög tveggja stúlkna. Nokkuð hefur verið fjallað um þann hluta kvikmyndarinnar sem sýnir einhvers konar meðferð sem yngri stúlkan reynir á eigin skinni til að ná stjórn á lífi sínu. Nafn meðferðaraðila er ekki nefnt sem aftur á móti gefur tilefni til nánari útskýringa núna þegar þessi hluti kvikmyndarinnar er til umræðu. Sú mynd sem dregin er upp af „meðferðinni“ er áminning um hvernig veikt fólk er illa áttað og áhrifagjarnt og þarfnast því umönnunar fagstétta sem hafa skýr siðferðisleg viðmið í umhverfi sem uppfyllir bæði gæða- og öryggiskröfur Embættis Landlæknis.

Við þessu var varað í skýrslu um svokallað endurkomufólk sem SÁÁ fór með í heilbrigðisráðuneytið árið 2003. Þar stendur ma: „Geðheilsa hópsins er með þeim hætti að full þörf er á eftirliti af hálfu lækna meðan á afeitrun stendur og geðlæknisfræðilegu inngripi ef þörf er á. Stórum hluta hópsins getur stafað hætta af trúboði óupplýstra og ólærðra öfgatrúarmanna meðan á afeitrun stendur.“

Fíknsjúkómurinn er alvarlegur. Sá sem fær slíka læknisfræðilega greiningu verður að taka niðurstöðunni alvarlega. Óábyrgar raddir í okkar samfélagi sem tala eins og hér sé ekki um sjúkdóm að ræða heldur eitthvað annað, enduróma bæði fordóma og þekkingarleysi. Það sem af er þessu ári 2018, hafa 27 einstaklingar yngri en 40 ára, með læknisfræðilega greiningu um fíknsjúkdóm, látist hér á landi – með öðrum orðum þá deyr einn yngri en 40 ára á níu daga fresti. Hvað er það sem fólk skilur ekki varðandi sjúkdómsgreininguna?

Heilbrigðisyfirvöld hafa ekki brugðist við alvarlegum ábendingum SÁÁ. Fjármagn til meðferðar sem uppfyllir gæða- og öryggiskröfur Embættis Landlæknis er skorið við nögl. Sjúkrahúsið Vogur gæti lokað 1. október hvert ár þegar búið er að vinna fyrir allan peninginn sem heilbrigðisráðuneytið skammtar. Ég fullyrði að ríkisstjórnin sæti nú á neyðarfundi að ræða þessa óbærilegu dánartíðni ef sjúkdómurinn héti eitthvað annað en fíknsjúkdómur.

Meðfylgjandi er samantekt um endurkomufókið frá 2003

Höfundur greinar