Um 100 manns í ævilangri meðferð á Vogi

Um 100 einstaklingar eru í ævilangri viðhaldsmeðferð vegna ópíumfíknar með vikulegri lyfjagjöf. Lyfin eru afhent sjúklingunum endurgjaldslaust og þannig hefur verið frá upphafi. SÁÁ hefur rekið þessa meðferð frá árinu 1999 og sífellt bætist í hóp þessara einstaklinga. Í 3. tölublaði SÁÁ blaðsins árið 2014 var rætt við Þórarin Tyrfingsson, þáverandi framkvæmdastjóra lækninga á Vogi, um viðhaldsmeðferðina og aðrar skaðaminnkunaraðgerðir á vegum samtakanna, sem eru hinar umsvifamestu hér á landi.

Við birtum brot úr viðtalinu hér að neðan skömmu eftir að það var tekið í lok nóvember 2014 náðust samningar milli SÁÁ og Sjúkratrygginga ríkisins og miðast við meðferð níutíu sjúklinga. Með þessum samningi er ríkið í fyrsta skipti farið að greiða fyrir kostnaðinn vegna þeirra S-merktu lyfja sem notuð eru vegna viðhaldsmeðferðarinnar en þann kostnað hefur SÁÁ þurft að greiða með söfnunarfé allt frá árinu 1999 og til síðustu áramóta.

„Skaðaminnkunarumræðan er táknræn fyrir ákveðna áherslu í vímuefnavörnum og tengist þeirri umræðu, sem fer vaxandi, að meðhöndla eigi fólk sem notar ólögleg vímuefni sem sjúklinga sem eigi að fá þjónustu innan heilbrigðiskerfisins, frekar en sem afbrotamenn, sem þurfi að hafa upp á og refsa,“ segir Þórarinn. Slíkar áherslur eru augljóslega í fullu samræmi við markmið SÁÁ og starfsemi þessara samtaka áfengis- og vímuefnasjúklinga allt frá upphafi.

Umsvifamesta skaðaminnkun í landinu fer fram á Vogi

Þegar að er gáð eru veigamiklir þættir í starfsemi Sjúkrahússins Vogs líka dæmigerðar skaðaminnkunaraðgerðir, og líklega þær umfangsmestu sem unnið er að í anda þeirrar hugmyndafræði hér á landi. Þar er einkum um að ræða viðhaldsmeðferð við ópíumfíkn, skimanir vegna lifrarbólgu C og HIV sýkinga, og endurinnlagnir langt genginna vímuefna- og áfengissjúklinga.

[…]

Viðhaldsmeðferð fyrir ópíumfíkla hófst árið 1999 á Vogi. Heróín er útbreiddasta ópíumefnið víða erlendis en þótt það hafi aldrei skotið rótum hér á landi hefur misnotkun ópíumefna verið útbreidd. Ýmis sterk verkjalyf hafa verið misnotuð í stað heróíns og er contalgín þekktast þeirra efna úr umræðunni.

„Þetta er gott dæmi um skaðaminnkandi meðferð. Með viðhaldsmeðferð hætta menn að sprauta sig í æð og fá staðinn buprenorphin sem er viðurkennt lyf við ópíumfíkn sem ekki er hægt að misnota, þótt það sé vissulega vímuefni. Þessi meðferð er hvergi í boði í landinu nema hér hjá SÁÁ. Þeim sem nýta sér viðhaldsmeðferðina hefur smám saman fjölgað og það eru um 100 manns í dag. SÁÁ hefur greitt lyfjakostnaðinn enda hefur hann ekki verið í þeim grunni sem samningur samtakanna við ríkið byggist á,“ segir Þórarinn.

Frumkvæði SÁÁ vegna grafalvarlegs ástands

Líkt og skimunina ákvað SÁÁ að veita viðhaldsmeðferðina á eigin kostnað þegar samtökin stóðu frammi fyrir grafalvarlegu ástandandi hjá ákveðnum hópi sjúklinga.

„Batahorfur þessa fólks voru mjög slæmar,“ segir Þórarinn. „Dauðsföll af völdum yfirskammta var gríðarlegt vandamál og ástandið mjög hættulegt. Með viðhaldsmeðferðinni gjörbreyttust batahorfurnar. Það var hægt að meðhöndla fólkið með lyfjum og koma við endurhæfingu. Vegna þess varð fólk virkara félagslega, gat tekið þátt í uppeldi barna sinna, fór út á vinnumarkaðinn eða í skóla, lét meðhöndla aðra sjúkdóma, eins og lifrarbólgu C, og kom þannig í veg fyrir frekara heilsutjón. Batahorfurnar eru allt aðrar í dag en þær voru á þessum tíma. Þar að auki er hættan á að fólk úr þessum hópi deyi, jafnvel þótt það detti í það, mun minni en ef það væri ekki í lyfjameðferð.“

Sjá þjónustusamning sem SÁÁ og Sjúkratrygginga ríkisins undirrituðu þann 17. desember sl. um viðhaldsmeðferð vegna morfínfíknar hér.

Smellið hér til að lesa allt viðtalið (bls. 8-9) og SÁÁ-blaðið 3. tbl. 2014 í heild sinni