Um samstöðu foreldra

shutterstock_748822669

Foreldrar gegna stóru hlutverki í forvörnum gegn áfengis- og vímuefnaneyslu barna sinna. Uppeldisaðferðir okkar og tengsl við unglinginn innan fjölskyldunnar skipta máli. Þar geta úrlausnarefni okkar verið margvísleg og breytileg. Á hinn bóginn eru nokkur verkefni eða málefni sem allir foreldrar standa frammi fyrir óháð því hvernig uppeldisstarfið gengur. Þetta eru þau málefni sem snúa að samstöðu allra foreldra annars vegar og afstöðu okkar til áfengis- og vímuefna. Í flestum tilvikum erum við þokkalegustu uppalendur og sem betur fer eru vandamálin okkar ekki stóralvarleg, þó auðvitað séu undantekningar. Góð viðleitni okkar og framúrskarandi árangur skila sér þó ekki eins og til er stofnað ef við hyggjum ekki að eftirfarandi verkefnum.

Samstaða foreldra

Foreldrar þurfa að standa saman. Unglingarnir okkar eru að taka afdrifarík skref út í lífið þar sem jafningjahópurinn skiptir þá miklu máli. Á þessu skeiði vísa unglingar gjarnan til þess sem vinur eða vinkona mega gera og höfða til sanngirni okkar til að fá sitt fram. Foreldrar hafa mismunandi gildismat og setja ólíkar reglur um margvísleg mál og fylgja þeim eftir af mismiklum þunga. Slíkt misræmi milli heimila er eðlilegt í mörgum tilvikum. Sum málefni eru samt þannig vaxin að misræmi milli heimila getur verið bagalegt. Hér er átt við reglur um hegðun og hátterni unglinga úti í samfélaginu sem eru alls ekki eða á mörkunum að heyra undir einkamál fjölskyldunnar. Dæmi um þetta eru t.d. útivistareglur.

Tilkynningaskylda og eftirlit

Rannsóknir hafa sýnt að því meira sem foreldrar vita um hagi, ferðir og félaga barna sinna á unglingsaldri, því síður lenda þau í vandræðum vegna áfengis og vímuefna. Með öðrum orðum - því betur sem við fylgjumst með unglingnum okkar þess meiri líkur á að hann komist hnökralaust í gegnum unglingsárin.

Hér er ekki verið að tala um strangt eftirlit og smásmugulega afskiptasemi. Hér er aðeins verið að tala um að foreldrar viti og fylgist með hverja unglingurinn umgengst, hvar hann er staddur hverju sinni, hvað hann verður lengi, hverju hann hefur áhuga á o.s.frv. Þetta virðist skila þeim árangri að unglingurinn finnur til meira öryggis og upplifir að hann skipti foreldra sína miklu máli. Auk þessa skynja foreldrar vandamál á forstigi og grípa ósjálfrátt inn með hefðbundnum uppeldisaðferðum sem þeir kunna.

Útivistareglur

Unglingar nota kvöldin og helgarnar til að drekka áfengi. Þetta er sá tími þar sem krakkar komast í aðstæður til að gera slíkt. Því eru útvistareglur þýðingarmikill þáttur í forvörnum. Oft er hópamyndun unglinga á kvöldin og um helgar með tilheyrandi ærslum og gauragangi höfð til marks um "unglingavandamál" og vex fólki mjög í augum. Hér er þó fremur um vandamál fullorðinna að ræða sem hafa ekki sett og fylgja ekki eftir skynsamlegum útivistareglum með þeim ráðum sem til eru. Í ljós hefur komið að víðast hvar gengur mjög vel að koma útivistareglum og virðingu fyrir þeim í gott horf. Kemur þá í ljós að "unglingavandamálið" sem áður sást var fremur á yfirborðinu og krakkar sem eru á hættulegri braut koma þá í ljós og skera sig úr fjöldanum.

Unglingapartí

Reynslan sýnir að eftirlitslaus unglingapartí eru áhættusöm. Við reynum að feta hinn gullna meðalveg þar sem við gefum unglingum okkar sjálfstæði upp að vissu marki og höfum samtímis á honum taumhald hins sanngjarna, skynsama og ákveðna stjórnanda. En meðalvegurinn er stundum vandrataður. Til eru foreldrar sem hafa gert afdrifarík mistök þegar unglingapartí eru annars vegar. Dæmi eru um unglinga sem haga sér vel og treysta má næstum fullkomlega. Þeim er leyft að halda saklaust partí á meðan foreldrarnir bregða sér frá (t.d. í bíó klukkan ellefu eða í heimsókn til vina). Hugsunin á bak við þetta er sú að krakkarnir hafi unnið sér inn með góðri hegðun og frammistöðu að fá að vera ein í smátíma án þess að hafa "gamla fólkið" yfir sér. Sé aðeins litið á unglinginn og nánustu vini hans kann þetta að virðast meinlaust. Á hinn bóginn hafa svona eftirlitslaus unglingapartí farið úr böndunum vegna óboðinna gesta á líkum aldri (eða lítið eitt eldri) sem vita um partíið og koma fullir á staðinn.

Gestgjafarnir ráða ekki vel við slíkar aðstæður. Án þess að nokkur hafi ætlað sér það í byrjun er fylliríispartí komið í gang. Til eru dæmi um verulega ljótar uppákomur af þessu tagi þar sem foreldrar hafa komið að heimilinu í rúst! Eftirlitslaus unglingapartí eða ekki? Spurningin snýst alls ekki um traust heldur hvort unglingurinn hafi styrk, þroska og lífsreynslu til að bera ábyrgð á heimilinu við þessar aðstæður.

Samkomustaðir unglinga í hverfinu/bænum

Í flestum hverfum stærri bæja og hverjum smábæ hafa unglingar tilhneigingu til að safnast einhvers staðar saman. Þegar mikil brögð eru að slíkum hópamyndunum með tilheyrandi reiðileysi og agaleysi þarf að grípa til aðgerða. Unglingahjarðir sem þessar geta orðið hættulegt umhverfi. Þarna geta þeir komist í kynni við og prófað áfengi og önnur vímuefni. Þarna getur einhver misst stjórn á sér og meitt einhvern. Þarna getur unglingur sem á sér einskis ills von og hefur engan áhuga á að fljúgast á lent milli steins og sleggju í átökum annarra. Fyrsta skrefið til að mæta þessu ástandi er auðvitað að koma útivistareglum í virka framkvæmd. Annað skrefið gæti verið foreldrarölt.

Foreldrarölt

Góð reynsla hefur fengist af foreldrarölti víða á höfuðborgarsvæðinu og út um land. Foreldrarölt er einfalt í framkvæmd og meira að segja má hafa af því nokkra skemmtun. Auðvelt er að fá foreldra sem reynslu hafa af slíku rölti til að kynna það fyrir foreldrahóp sem hefur áhuga.

Verslunarmannahelgi og útilegur

Yfir sumartímann fer fólk í útilegur og verslunarmannahelgarnar eru alræmdar á Íslandi. Hér reynir líka á samstöðu foreldra. Oft á tíðum geta unglingar með harðfylgi fengið leyfi til að fara allt of ungir á samkomu fjarri heimilum sínum um verslunarmannahelgar (og jafnvel aðrar helgar). Þetta leyfi fæst oft á tíðum vegna þess að foreldrar halda að allir aðrir foreldrar leyfi sínum börnum að fara. Ef við setjum okkur í samband við foreldra félaganna og ræðum við þá málið kemur oft annað í ljós.

Afstaða foreldra til áfengis

Spurningin er óþægileg en við verðum samt að svara henni: Hvenær sætti ég mig við að unglingurinn minn byrji að drekka? Við getum líka spurt okkur að því að hve miklu leyti það er okkar einkamál hvernig við svörum þessari spurningu. Þegar við tökum þá afstöðu t.d. að leyfa syni okkar að vera í næði í stóru herbergi í kjallaranum með vinum sínum, vitandi að þeir eru að drekka áfengi, erum við ekki aðeins að hafa áhrif á líf okkar eigin barns heldur erum við líka að grípa inn í líf vina hans. Er ekki sanngjarnt að bera þetta undir foreldra vinanna: "Er ekki í lagi að strákarnir séu hérna á laugardagskvöldum og staupi sig?" Svo ekki sé minnst á áfengiskaup. Þegar foreldri unglings kaupir fyrir hann áfengi getur hann verið að kaupa áfengi fyrir aðra unglinga líka í óþökk foreldra þeirra. Þegar við kaupum áfengi fyrir okkar ungling erum við líka búin að skapa fordæmi sem hefur áhrif inni á öðrum heimilum.

Við þurfum einnig að velta því fyrir okkur hvernig við sjálf förum með áfengi. Þótt við eigum ekki við áfengisvandamál að stríða getur verið að við meðhöndlum áfengi í hugsunarleysi. Við megum ekki gleyma því að unglingar eru fljótir að skynja það úti í samfélaginu, í fjölmiðlum og kvikmyndum og jafnvel heima hjá sér að áfengi er eitthvað sem notað er til að kalla fram æskilegt ástand-afslöppuð og skemmtileg samskipti á góðri stund, nauðsynlegur liður í stórafmælum og á tímamótum, lyf við stressi og kvíða o.s.frv. Við ættum að velta því fyrir okkur hvort við sendum einhver slík skilaboð til unglinganna okkar.

Foreldrar fara sjálfir út að skemmta sér eins og gengur og gerist. Er hægt að ganga að því vísu hvenær við komum heim? Hverju svörum við þegar börnin spyrja okkur hvenær megi eiga von á okkur heim? Sendum við sjálf þau skilaboð að þegar við förum út að skemmta okkur sé óráðið hvenær komið er heim og stemmningin látin ráða? Gerum við samt ráð fyrir að unglingurinn láti annað en stemmningu líðandi stundar ráða hvenær hann býst til heimferðar þegar hann skemmtir sér?

Á að kaupa vín handa unglingum?

Sumum foreldrum þykir sjálfsagt að kaupa vín handa unglingum sem ekki fá afgreiðslu í vínsölum. Stundum er þetta gert í þeirri trú að verið sé að stuðla að góðum vínsiðum. Oftar er þetta gert í einhverju hugsunarleysi eða af undanlátsemi við ímyndaðan þrýsting. Foreldrar þurfa að hafa mjög skýra afstöðu til þessa máls.

Er einhvern tíma í lagi að nota dóp?

Flestir ef ekki allir foreldrar svara þessar spurningu afdráttarlaust neitandi. Ólögleg fíkniefni - nei takk!

Við þurfum þó að spyrja okkur hvernig við eigum að bregðast við ef barnið okkar veitir okkur þær upplýsingar eða við grunum að einhver vinurinn sé að fikta við eða nota ólögleg vímuefni. Liggjum við á þessum upplýsingum og látum málið afskiptalaust? Bönnum kannski barninu okkar að umgangast vininn? Eða höfum við samband við foreldra vinarins og grennslumst fyrir um hvort þau viti af þessu? Og segjum sem svo að foreldri eins vinarins eða kunningjans hafi samband og láti í ljós grunsemdir um að eitthvað gruggut kunni að vera á sveimi í hópnum.

Hvernig ætlar þú að bregðast við því? Ætlar þú að vera reið(ur), hneykslast og halda uppi vörnum fyrir barnið þitt í heilagri vandlætingu?

Samvinna foreldra og annarra aðila í samfélaginu

Oft er það svo að foreldrar geta ekki beitt sér sameiginlega nema eiga sér einhvern samstarfsvettvang. Börnin okkar eru öll í skóla og því er skólinn heppilegasti vettvangurinn til að kalla foreldra saman og stilla saman krafta þeirra. Hvernig gengur okkur að sinna kalli kennara? Leitum við eftir aðstoð skólans til að koma á samráðum og samvinnu foreldra? Reynsla víða að kennir okkur að foreldrar og aðrir hafa komið útivistum barna og ýmsu fleiru í gott lag einmitt fyrir milligöngu skólans.

Þau eru öll okkar börn!

Við gleymum því stundum að þau eru öll okkar börn. Auðvitað eigum við okkar eigin afkvæmi - sólargeislana í lífi okkar - og berum fyrir þeim sérstaka umhyggju umfram alla aðra, finnum til þyngri ábyrgðar gagnvart þeim en öllum öðrum og tengjumst þeim traustari tilfinningaböndum. Hinu megum við samt ekki gleyma að allir hinir krakkarnir eru og koma til með að mynda félagslegt umhverfi okkar eigin barna. Þau öll eru það fólk sem síðar meir þurfa sem burðarásar samfélagsins að sjá um okkur þegar við erum orðin sjúk og hrum. Þess vegna hefur velferð allra barna og allra unglinga þýðingu fyrir okkur öll. Hvort sem við viljum það eður ei eigum við alltaf einhvern þátt í uppeldi annarra manna barna. Áfengi og vímuefni hafa líklega aldrei verið í eins mikilli nálægð við ungmenni á Íslandi og einmitt nú. Þau eru aðeins í seilingarfjarlægð. Þetta krefst af okkur sérstakrar árvekni og virkrar samstöðu um það sem hvert og eitt okkar getur haft áhrif á til heilla. Þó okkur þyki vandinn stundum stór og ógnvænlegur og höfum þungar áhyggjur skulum við hafa hugfast að margar árangursríkar aðgerðir til forvarna eru mjög einfaldar og liggja í augum uppi.