Um þúsund manns selja Álfinn um land allt

Íþróttafélög, skátar og skólahópar setja svip á álfasöluna sem fram fer 6.-10. maí og nota þau sölulaunin til að fjármagna keppnis- eða útskriftarferðir. Þetta er í 26. skiptið sem Álfurinn er seldur í fjáröflunarskyni fyrir SÁÁ.

Þorkell Ragnarsson er sölustjóri í ár eins og undanfarin ár. Hann var með í fyrstu álfasölunni og hefur tekið þátt í þeim öllum, oft sem sölustjóri en alltaf að minnsta kosti sem kaupandi.

Um þúsund manns um land allt er vinna með okkur, segir Þorkell Ragnarsson, sem stjórnar skipulagningu sölustarfsins í samstarfi við Hilmar Kristensson. Það má segja að Þorkell og Hilmar séu bestu vinir Álfsins, Hilmar hefur safnað öllum álfum frá upphafi og margoft stýrt sölustarfinu.

Gengið í hús og selt við verslanir og fjölfarna staði

Þorkell hefur lengi tengst SÁÁ og var með þegar fyrsta álfasalan fór fram árið 1990. Á tíunda áratugnum stýrði hann sölunni í Breiðholti ásamt hópi frá knattspyrnufélagi SÁÁ þar sem hann var þjálfari og leikmaður á þeim tíma. Keli, eins og hann er kallaður, starfaði sem áfengisráðgjafi hjá SÁÁ á árunum 1995 til 1998 og þá voru önnur verkefni lögð til hliðar þegar Álfurinn kallaði því stjórnendur samtakanna vildu hafa Kela á vaktinni þar sem verið var að selja Álfinn.

Sölufólkið vinnur með sama hætti um allt land; sumir ganga í hús en aðrir eru við verslanamiðstöðvar og aðra fjölfarna staði og bjóða Álfinn til sölu. Duglegt sölufólk sem starfar á fjölmennu eða fjölförnu svæði getur auðveldlega selt nokkur hundruð Álfa frá miðvikudegi til sunnudags og sölulaunin fyrir hvern seldan Álf eru 400 krónur. Fólk getur haft góðar tekjur þá fimm daga sem sölustarfið stendur yfir.

Sölumenn oft í fjáröflun fyrir keppnisferðir

Þorkell minnir á að þeir sem kaupa Álfinn séu ekki aðeins að leggja sitt af mörkum í mikilvægri fjáröflun fyrir SÁÁ. Miklar líkur séu á að fólk sé líka að styðja við íþrótta- og æskulýðsstarf í sínu hverfi eða í sínum heimabæ.

„Íþróttafélögin og önnur æskulýðsfélög eru mjög áberandi í álfasölunni og líka skólahópar. Þau er oft að fjármagna keppnisferðir, útskriftarferðir eða önnur ferðalög innanlands eða utan. Foreldrar, umsjónarkennarar og þjálfarar og aðrir forsvarsmenn íþróttafélaga taka þátt í þessu með börnunum og unglingunum,“ segir Þorkell.

Álfurinn selst vel um land allt

Sölustjórinn heldur utan um tölfræði sem tengist álfasölunni og segir að salan dreifist yfirleitt nokkuð jafnt og þétt yfir landið allt.

Að jafnaði eru tveir þriðju af öllum Álfum seldir á höfuðborgarsvæðinu, sem er takt við hlutfall þeirra landsmanna sem búa á því svæði, og einn þriðji eru seldur á landsbyggðinni.

Alls staðar er sölufólkið að leggja sig fram og alls staðar er mikill velvilji hjá þjóðinni í garð SÁÁ.

Nokkrir staðir á landsbyggðinni skera sig þó úr varðandi góðan árangur í sölustarfinu, ár eftir ár. Þar má nefna Akureyri, sem er söluhæsti bærinn utan höfuðborgarsvæðisins, Árborg, þar sem salan hefur verið mjög öflug síðustu ár, og Reykjanesbæ, sem alltaf stendur fyrir sínu, að sögn Þorkels. „Krakkar úr körfubolta og knattspyrnu í ÍBK hafa verið mjög dugleg síðustu ár,“ segir hann.