Þjóðarátak byggði unglingadeild


Er vinátta unglinga og sérstaklega kynlíf þeirra öðruvísi og ljótara en ástarlíf annarra? Ég er ekki sannfærður um það, segir Þórarinn Tyrfingsson, forstöðulæknir á Vogi í viðtali við SÁÁ blaðið þar sem hann bregst við umræðu sem verið hefur í þjóðfélaginu um unglinga á Vogi.

Við birtum brot úr því viðtali hér. Sérstök unglingadeild tók til starfa við sjúkrahúsið árið 2000 og var hún liður í miklu þjóðarátaki sem þá var gert vegna gríðarlegs vímuefnavanda unglinga, sem fæddir voru á árunum 1980-1984.

„Frá því Vogur tók til starfa árið 1983 hafa komið til okkar 3.700 manns, sem voru 19 ára og yngri. Langflest voru þau 18-19 ára en það er okkar helsti markhópur á unglingadeildinni og á ekki í önnur hús að venda af því að stofnanir barnaverndarstofu sinna þeim ekki lengur. Um 800 af þessum 3.700 manns voru yngri en 17 ára, en 300 yngri en 16 ára. Það er ekki óalgengt að þessi börn hafi byrjað að nota vímuefni 13-14 ára. Fæst byrja yngri en það, þótt til séu dæmi um 11-12 ára. Frá upphafi hafa komið til okkar fimm einstaklingar sem eru yngri en 14 ára. Allir voru þeir 13 ára; þrjár stúlkur og tveir piltar, fædd frá 1983-2000. Á þessu ári hefur enginn yngri en 14 ára komið til okkar.“

Eiga 13-14 ára börn heima á stofnun eins og Vogi? Eru þau búin að þróa með sér áfengis- og vímuefnasjúkdóm?

„Það þarf að greina það, þess vegna koma þau hingað og það er vel hægt að greina það ef um það er að ræða. Þegar svo er, þá erum við með allt annað í höndunum en einhverja unglingadrykkju sem er tímabundin og bagleg vegna þess að fólk er ekki lögráða eða ekki nægilega þroskað til að nota áfengi. Þá erum við að tala um langvinnan, erfiðan sjúkdóm . Honum fylgir oft mikið af endurkomum hingað inn.“

Liggur á að verða fullorðin

Það heyrist gagnrýnt að unglingar komi hingað, kynnist vondu fólki, sem þeir ættu ekki að umgangast og séu hálfu verri eftir að þeir eru útskrifaðir?

„Þetta er gagnrýni sem allar stofnanir sem eru með unglinga hafa þurft að sæta. En hinn raunverulegi vandi er ekki oft ræddur en hann er sá að oft liggur unglingunum svo ofboðslega á að verða fullorðin. Það geta orðið svo mikil brögð að því að þetta komi fram í miklum hegðunarvandamálum. Hjá ungum stúlkum birtist það kannski átakanlegast í því að þær sækja í sér miklu eldri karlmenn og vilja ekki vera með jafnöldrum sínum heldur fara upp um 3-4 aldursflokka. Eins er það með strákana. Sumir vilja meina að þetta vandamál hafi einhverjar stofnanir búið til, SÁÁ eða heimili Barnaverndarstofu eða einhverjir skólar. Eflaust er það til að menn kynnist fólki á slíkum stofnunum, sem ekki er heppilegt að kynnast, en oftast er það svo að menn fagna vel hverjir öðrum þegar þeir koma hingað vegna þess að menn þekkjast og sú vinátta og þau tengsl eru alls ekki öll af hinu neikvæða. Þessi börn hjálpa hvert öðru, forða hvert öðru frá slysum og það tekst milli þeirra vinátta sem getur haldist þótt þau fari hvert í sína áttina.

Mér finnst þessi tengsl oft sett fram með neikvæðum formerkjum, eins og vinátta unglinga og sérstaklega kynlíf þeirra sé öðruvísi og ljótara en ástarlíf annarra. Ég er ekki sannfærður um það. Í samskiptum fólks, sem er í vímuefnaneyslu, er auðvitað til ofbeldi og kynbundið ofbeldi en það er líka til í samböndum annars fólks. Auðvitað má færa rök fyrir því að oftar sé kynbundið ofbeldi í sambandi þegar neysla er mikil. En það er ekki alltaf uppi á tengingnum. Þegar fólk er að taka saman í vímuefnaneyslu myndast yfirleitt með því sama væntumþykja og umhyggja og með öðru fólki. Það er ekkert flóknara það en því miður er fólk oft fordómafullt gagnvart þessu og býr til ljótar myndir og slíkt er auðvitað líka til.“

Smellið hér til að lesa allt viðtalið (bls. 9) og SÁÁ-blaðið 3. tbl. 2014 í heild sinni