Uppbygging innviða í 40 ár!

SÁÁ hefur á 40 árum byggt upp heildstæða þjónustu fyrir fólk með fíknsjúkdóm; einstaklinga, börn þeirra og fjölskyldur. Samtökin hafa lagt áherslu á að taka á þeim vanda sem fíknsjúkdómurinn veldur með fjölbreyttum úrræðum fyrir ólíka hópa og hefur þjónustan ætíð verið fagleg og byggð á nýjustu þekkingu.

Árangur í starfi og ábyrg meðferð fjármuna hefur einkennt meðferðarstarf og rekstur SÁÁ frá upphafi. Góður vitnisburður um það eru sérhannaðar fasteignir sem samtökin hafa byggt upp fyrir starfsemi sína, jafnt og þétt í rúma fjóra áratugi. Ný meðferðarstöð SÁÁ á Vík á Kjalarnesi var tekin í notkun á fertugsafmæli samtakanna í október síðastliðnum og óhætt að segja að með henni hafi orðið bylting í aðstöðu til áfengis- og vímuefnameðferðar hér á landi. Boðið er upp á einstaklingsherbergi fyrir alla skjólstæðinga og sérsniðin aðstaða er fyrir fólk með fötlun. Nýja meðferðarstöðin á Vík gefur skjólstæðingum samtakanna mun meira persónulegt rými en áður hefur verið boðið upp á og meðferðin öll fær nýtt og betra yfirbragð. Fasteignir SÁÁ hafa verið fjármagnaðar að öllu leyti með sjálfsaflafé samtakanna og eru ríki og sveitarfélögum að kostnaðarlausu.

Samfélagsleg verðmæti SÁÁ eru mikil. Með því að styðja einstakling til bata og virkni má koma í veg fyrir tapaðar vinnustundir með tilheyrandi afkomukvíða, áföllum og félagslegum afleiðingum. Álag og kostnaður í öðrum miklu dýrari kerfum heilbrigðis- og félagsþjónustu minnkar. Framtíðarsýn SÁÁ er að auka í fremur en draga úr, þegar kemur að meðferð og öðrum inngripum til að styðja fólk til bata og virkni í samfélaginu. Ég hvet fyrirtæki og einstaklinga til að hjálpa okkur að leggja samfélaginu lið.

Ef þú eða einhver sem þér þykir vænt um þarf aðstoð vegna áfengis- eða vímuefnavanda hafðu þá samband. Það eru allir velkomnir til SÁÁ.

Arnþór Jónsson,
formaður SÁÁ