Uppsláttur veggja á nýrri meðferðarstöð á Vík stendur yfir

Nú er unnið við að slá upp veggjum fyrstu hæðar nýrrar meðferðarstöðvar sem verið er að byggja á landi SÁÁ á Vík á Kjalarnesi. Myndirnar sem hér fylgja að ofan tók Hjalti Björnsson, dagskrárstjóri á Vík, í gær þegar starfsmenn Ístaks voru að störfum við uppsláttinn.

Fyrsta skóflustunga að nýbyggingunum var tekin þann 22. apríl í vor og í beinu framhaldi hófst jarðvegsvinna og stóð hún sem hæst meðan starfsemi á Vík lá niðri vegna sumarleyfa í júlí. Starfsmenn Ístaks vinna verkið.

Ætlunin er að nýja meðferðarstöðin verði tekin í notkun í október 2017 en þá verða 40 ár liðin frá stofnun SÁÁ. Framkvæmdirnar á Vík munu felast í því að reistar verða 2.730 fermetra nýbyggingar sem verða tengdar rúmlega 800 fermetra húsnæði sem fyrir er á meðferðarstöð SÁÁ á Vík. Um leið verða eldri húsin endurbætt og innréttingar þeirra og votrými endurnýjuð.

Að verkinu loknu verður risin fullkomin, nútímaleg meðferðarstöð þar sem í boði verður meðferð fyrir karla og konur í aðgreindum álmum með stórbættri og fullkominni aðstöðu fyrir sjúklinga og starfsfólk SÁÁ og er vonast til þess að með þessari uppfærslu og endurnýjun aðstöðunnar skapist forsendur fyrir því að enn betri árangur náist í meðferðinni.

Á nýrri Vík verður hægt að hýsa 61 sjúkling í meðferð í framhaldi af dvöl á sjúkrahúsinu Vogi. Í karlaálmu verða 40 einsmannsherbergi og 21 einsmannsherbergi í kvennaálmu. Einnig verða aðskildar byggingar fyrir matsali, setustofur, fyrirlestra og meðferðarhópa karla og kvenna. Átta herbergi verða sérstaklega útbúin með tilliti til aðgengis fyrir fatlaða. Ekki er um það að ræða umfang meðferðar á vegum SÁÁ verði aukið með nýju meðferðarstöðinni á Vík. Um leið og hún verður tekin í notkun mun SÁÁ hætta starfsemi á Staðarfelli í Dölum.

Myndirnar hér að neðan eru útlitsteikningar THG arkitekta af nýju meðferðarstöðinni á Vík. Ef smellt er á myndirnar sést stærri útgáfa af þeim.