Úr ársriti SÁÁ: Umfang kannabissjúkdómsins

Eftirfarandi kafla um umfang kannabissjúkdómsins er að finna í bls. 49 og 50 í 1. hefti Ársrits meðferðarsviðs SÁÁ 2016. Þar kemur m.a fram eftirfarandi: „4.860 einstaklingar sem fæddir eru 1970 og seinna höfðu komið á Sjúkrahúsið Vog í lok ársins 2015 og fengið kannabisgreiningu. 54% allra sem komið hafa á Vog og eru fæddir 1970 og eftir það hafa því fengið kannabisgreiningu.“ Meðfylgjandi myndir, sem sjást stærri ef smellt er á þær, eru myndir 110-125 í hefti 2. í ársritinu.

Kannabisefni voru fyrstu ólöglegu vímuefnin sem flutt voru til landsins og notuð að einhverju marki. Neysla ólöglegra vímuefna var óþekkt hér á landi fyrir árið 1967. Dreifing, sala og neysla kannabisefna skapaði ólöglegan markað vímuefna á Íslandi á árunum 1970-75. Þó að einhver brögð væru að því á þessum árum að LSD gengi kaupum og sölum má segja að kannabisefnin hafi verið einu ólöglegu vímuefnin á markaðnum fram til ársins 1983. Hass var eina kannabisefnið sem notað var á Íslandi að einhverju marki lengst framan af. Er það yfirleitt blandað saman við sígarettutóbak og reykt. Á árunum fyrir 1980 var nokkuð um að neytendur ræktuðu kannabisjurtina og framleiddu marijuana. Það lagðist þó fljótt af og hass varð aftur ráðandi á markaðnum fram til ársins 2005.  Innlend ræktun fór að aukast aftur eftir 1998 og eftir 2005 má segja að gras eða marijúana sé eina kannabisefnið sem hefur verið á ólöglega vímuefnamarkaðnum hér.

1980 óx innflutningur á kannabisefnum verulega og hélst stöðugur fram til ársins 1988. Neyslan náði ákveðnu hámarki á árunum 1985 til 1987. Með minnkandi neyslu eftir 1988 dró úr innflutningi allt fram til 1994. Árið 1995 jókst mjög innflutningur og neysla á hassi. Á árunum 2005 og 2006 verður síðan veruleg breyting því þá fara menn að notfæra sér fullkomna tækni í gróðurhúsarækt til að rækta gras eða maríjúana hér heima. Þetta sást vel í verðkönnunum SÁÁ. Neyslan nær svo hámarki á árinu 2005 til 2006, bæði tölulega og hlutfallslega.

Kannabisefni valda ein og sér alvarlegum sjúkdómi þar sem neytandinn verður líkamlega háður efninu. Í afeitrun fá sjúklingar veruleg fráhvarfseinkenni sem lýsa sér í svefntruflunum, kvíða og óróleika. Fylgikvillar mikillar kannabisneyslu hafa verið þeim læknum sem vinna með þessa sjúklinga vel ljósir um langan tíma. Framfarir í frumulífeðlisfræði hafa gert mönnum kleift að skilja betur verkun kannabisefna á heilann. Þekkingin hefur einkum aukist eftir árið 1992. Þessi nýja vísindaþekking rennir enn frekari stoðum undir skilning manna á því, að kannabisfíkn er alvarlegur heilasjúkdómur sem hefur í för með sér slæma fylgikvilla, einkum hjá ungu fólki. Ungt fólk sem notar kannabisefni í óhófi á erfitt eða ómögulegt með að mynda trausta sjálfsímynd og vinna skipulega að markmiðum til lengri og skemmri tíma. Hvort tveggja er grundvöllur góðrar geðheilsu. Stórneytendur kvarta sjálfir undan minnistruflunum og að vitsmunaleg úrvinnsla heilans truflist verulega. Jafnframt þessu koma fram breytingar á tilfinningum og geðslagi, oft með verulegu þunglyndi.

4.860 einstaklingar sem fæddir eru 1970 og seinna höfðu komið á Sjúkrahúsið Vog í lok ársins 2015 og fengið kannabisgreiningu. 54% allra sem komið hafa á Vog og eru fæddir 1970 og eftir það hafa því fengið kannabisgreiningu.

Fjöldi þeirra sem eru með kannabissjúkdóminn og koma á Vog jókst stöðugt fram til ársins 2002. Eftir það er fjöldinn svipaður sem kemur til meðferðar við kannabisfíkn á hverju ári eða um 600 manns, sem er um 35% sjúklinganna. Þeim sem eru eldri en 30 ára í hópnum fjölgar meðan dregur úr fjölda þeirra sem eru yngri en 20 ára.

Frá 2003 hefur fjöldi þeirra sem fá kannabisgreiningu sem aðalvímuefnagreiningu verið nær óbreyttur.

Nýgengi kannabissjúkdómsins hefur verið nær óbreytt frá árinu 1997 hjá aldurshópnum 15-64 nema hvað heldur dregur úr síðustu tvö árin. Nýgengið hefur verið á niðurleið hjá þeim sem eru 24 ára eða yngri frá árinu 2006 og sérstaklega dregur úr árin 2014 og 2015.