Úr ársriti SÁÁ: Sjúkdómsgreiningar á Vogi

Allir áfengis- og vímuefnasjúklingar, hvaða vímuefni sem þeir nota, eiga í grundvallaratriðum við sama líkamlega sjúkdóm að stríða ef þeir uppfylla nægilega mörg skilyrði DSM V.

En hvað er þetta DSM?

Fíknsjúkdómur er greindur, samkvæmt greiningarviðmiðum bandarísku geðlæknasamtakanna. Við sjúkdómsgreininguna er stuðst við DSM-5, (Diagnostic and Statistical Manual of Mental Disorders, 5th) flokkunar- og greiningarhandbók bandarísku geðlæknasamtakanna American Psychiatric Association. Kannað er hvort sjúklingur sé eða hafi undanfarna tólf mánuði verið haldinn alls ellefu mögulegum einkennum. Sjúklingar sem greinast með 2-3 einkenni teljast hafa vægan vanda, hjá þeim sem hafa 4-5 einkenni telst vandinn í meðallagi. Ef sjúklingur greinist með sex einkenni eða fleiri af þessum ellefu telst hann eiga við mikinn vanda að stríða.

Af þeim 1.699 einstaklingum sem lögðust inn á Sjúkrahúsið Vog á árinu 2015, greindust 95% með sex eða fleiri af þeim ellefu einkennum sem tiltekin eru fyrir vímuefnasjúka í greiningarhandbókinni DSM-5.

Til er sérstök meðferð við sjúkdómnum sem beinist að því að stöðva sjúkdómsþróunina með bindindi og beita í kjölfarið markvissri meðferð sem miðar að því að lagfæra starfrænar truflanir í heila og óæskileg einkenni sem eru sameiginleg sjúklingunum.

Mikilvægt er að sem flestir skilji að áfengis- og vímuefnameðferð þarf að vera inngripsmikil og nægilega löng til að hún skili árangri. Ef sjúklingur er tilleiðanlegur að fara í slíka meðferð er árangurinn góður. Áfengis- og vímuefnameðferð hefur breyst og batnað í gegnum tíðina og fjölmörg meðferðarúrræði hafa verið búin til og þróuð. Rannsóknir hafa sýnt að mörg þessara úrræða virka vel hvert fyrir sig og enn betur sé þeim raðað saman og sett í skynsamlega samfellu.

Pistillinn að ofan er byggður á upplýsingum úr ársriti meðferðarsviðs SÁÁ 2016. Ársritið í heild er hægt að lesa með því að smella hér.