Útvörður SÁÁ á Norðurlandi

Anna Hildur Guðmundsdóttir, áfengisráðgjafi, er Akureyringur og hefur veitt göngudeild SÁÁ forstöðu í sínum heimabæ frá árinu 2008 en hún hefur starfað hjá SÁÁ frá 2005. SÁÁ hefur rekið göngudeild á Akureyri í 25 ár. Frá 2007 hefur göngudeildin verið í húsnæði samtakanna á Hofsbót 4.

Göngudeildin veitir Norðlendingum fjölbreytta þjónustu. Þangað kemur fólk í eftirfylgni að lokinni meðferð á Vík eða Staðarfelli, og einnig mæta sjúklingar sem eru á leið á Vog þangað í greiningarviðtöl. Anna Hildur segist þessa dagana vera með tíu konur í hóp, sem hittist vikulega, og er þar um að ræða konur sem lokið hafa kvennameðferð á Vík og mæta vikulega í stuðningshóp fyrsta árið eftir kvennameðferðina. Einnig átta karla sem lokið hafa Víkingameðferð á Staðarfelli. Þá eru almennir stuðningshópar fyrir sjúklinga sem lokið hafa dvöl á Vogi án þess að fara í eftirmeðferð og viðtöl fyrir sjúklinga sem bíða eftir að komast á Vog. Líka eru í boði viðtöl fyrir aðstandendur sjúklinga og helgarnámskeið um fjölskyldumeðferð eru haldin að hausti og vori.

Stuðningur í heimabyggð

„Það er gífurlega mikilvægt fyrir fólk á þessu svæði að þurfa ekki að sækja þessa þjónustu annað, við þurfum auðvitað að fara á Vog suður en það léttir mikið á hér á félagsþjónustu sveitarfélaga, heilsugæslunni og fjölskyldum á þessu svæði að geta nýtt þetta göngudeildarúrræði og gengið þennan stuðning í heimabyggð,“ segir Anna Hildur. „Við erum með mjög góða aðstöðu og það fer vel um okkur og fólk talar um að það sé hlýtt og gott andrúmsloft á deildinni.“

Hún segir að frumkvæði að rekstrinum hafi allt tíð komið frá SÁÁ og samtökin hafa borið mestallan kostnað af rekstrinum af of þeim sökum hefur iðulega ríkt óvissa um framtíð göngudeildarinnar. Akureyrarbær hefur, eitt sveitarfélag, lagt rekstrinum lið með árlegu framlagi undanfain ár. Núverandi meirihluti bæjarstjórnar Akureyrar hefur einnig lýst áhuga á viðræðum við SÁÁ um að tryggja reksturinn framtíðar og munu þær hefjast fljótlega eftir áramót, segir Anna Hildur.

Akureyri styður starfið

Önnur sveitarfélög á Norðurlandi hafa enn ekkert lagt að mörkum til þess að tryggja þessa þjónustu á svæðinu, þótt fólk þaðan nýti sér göngudeildina ekki síður en Akureyringar. „SÁÁ vill vera á Akureyri og þjónusta þetta svæðið og stuðningur sveitarfélaganna skiptir miklu máli og þetta er líka mikilvæg þjónusta fyrir sveitarfélögin. Einn edrú einstaklingur hann sparar mjög mikla peninga fyrir samfélagið.

Eins og kemur fram í viðtölum hér í blaðinu við konur, sem hafa nýtt sér þjónustu göngudeildarinnar, hefur starfið skilað mjög góðum árangri og sérstaklega hvað varðar eftirfylgni við konur sem lokið hafa kvennameðferð á Vík. Anna Hildur segir að lykillinn að því sé meðal annars stöðugleiki í starfsmannahaldi og eins fylgi ákveðin nánd svona lítilli einingu þar sem fólk kynnist vel.

„Þær kynnast mér og deildinni vel og ég er sjálf búin að fara í gegnum þetta sem skiptir ótrúlega miklu máli. Þær ganga að mér vísri og eru líka duglegar að nýta sér viðtöl og leggja á sig að koma og ég hef hugsað vel um þær þótt ég segi sjálf frá hef ég verið flink við að hvetja þær áfram.“

Kvennameðferðin er ekki það eina sem gengur vel í starfinu á Akureyri því að góður árangur hefur einnig náðst í víkingameðferði fyrir endurkomumenn þar sem nokkrir eru að útskrifast þessar vikurnar eftir að hafa lokið eins árs hópmeðferð á göngudeildinni.

—-

Frétt úr SÁÁ blaðinu sem kom út á dögunum. Hægt er að lesa blaðið í heild sinni hér.