Valdefling einstaklingsins

Í langan tíma hefur vísindasamfélagið skoðað og rannsakað fíkn. Þessar rannsóknir voru lengi vel gerðar í skugga fordóma, goðsagna og ranghugmynda um eðli fíknar. Einstaklingar með fíknsjúkdóma í okkar samfélagi voru taldir viljalausir og siðferðilega vafasamir. Það er einmitt í skugga slíkra sjónarmiða að samfélagið ákveður að leggja þurfi meiri áherslu á refsingar, höfnun og útskúfun en minni áherslu á forvarnir, upplýsingu og meðferð.

Viðhorf samfélagsins gagnvart fíknsjúkdómum hafa breyst frá því sem áður var. Upplýstur almenningur og stjórnvöld þekkja byltingarkenndar uppgötvanir á starfseindum heilans og aukin vísindalegur skilningur okkar á stjórnleysi vímuefnaneyslu hefur gert okkur hæfari en áður til að bregðast við þessum algenga heilbrigðisvanda.

Líffræðilegar starfseindir og áhrifaþættir í umhverfinu hafa verið kortlagðir að stórum hluta og nú stendur yfir nákvæm leit að breytilegum erfðaþáttum sem hafa áhrif á þróun fíknsjúkdómsins hjá einstaklingnum.

Hagnýting á þessari þekkingu vísindasamfélagins er forsenda framþróunar og framfara á sviði forvarna og meðferðar fyrir áfengis- og vímuefnasjúklinga. Ef við viljum draga úr áföllum og heilsubresti einstaklinga vegna sjúklegrar vímuefnaneyslu, reisa við brotnar fjölskyldur og minnka fjárhagslega byrði samfélagsins vegna vímuefnaneyslunnar, þá verður það best gert með þekkingu og mannúð.

Valdefling einstaklingsins felst í gagnreyndum vísindalegum upplýsingum sem hann getur notað til að breyta lífi sínu til batnaðar. SÁÁ hefur lengi átt gott samstarf við NIDA, sem er rannsóknarstofnun bandaríska heilbrigðisráðuneytisins á sviði fíknrannsókna. Frá NIDA koma um 80% alls fjármagns á sviði fíknrannsókna á heimsvísu. Hægt er að nálgast fjölbreyttar upplýsingar um áfengis- og vímuefnafíkn á vef SÁÁ og fyrir áhugasama enskumælandi er best að byrja hjá drugabuse.gov sem er vefur NIDA.

Þegar mikið er gert úr mikilvægi þekkingar á sviði heilbrigðisvísinda, þá er ekki verið að gera lítið úr öðrum þáttum mannlegra samskipta. Enginn heldur því fram að manneskjan sé komin að endimörkum þekkingar sinnar. Kærleikurinn fellur auðvitað aldrei úr gildi sem besta meðalið til að nálgast fólk.


Þessi grein eftir Arnþór Jónsson, formann SÁÁ, birtist fyrst í Fréttablaðinu, þann 26. júlí 2016.