Valgerður Á. Rúnarsdóttir tekin við starfi forstjóra Sjúkrahússins Vogs

Valgerður Á. Rúnarsdóttir hefur tekið við af Þórarni Tyrfingssyni sem forstjóri Sjúkrahússins Vogs.

Valgerður Á. Rúnarsdóttir er sérmenntuð á sviði lyflækninga og fíknlækninga. Hún hefur starfað sem sérfræðilæknir og yfirlæknir á Sjúkrahúsinu Vogi síðastliðin 18 ár og er öllum hnútum kunnug í starfsemi SÁÁ.

Þórarinn lét af störfum á föstudaginn en hann varð sjötugur laugardaginn 20. maí síðastliðinn. Þórarinn hefur starfað fyrir SÁÁ síðan árið 1979 og leitt þá miklu uppbyggingu sem orðið hefur á rekstri og starfsháttum samtakanna sem yfirlæknir, forstjóri Sjúkrahússins Vogs og sem formaður SÁÁ stærstan hluta tímans.

Meðfylgjandi mynd tók Spessi af þeim Valgerði og Þórarni í hópi samstarfsfólks á Vogi síðasta vinnudag Þórarins, 19. maí 2017.