Valgerður heldur erindi á alþjóðlegri fagráðstefnu í París

Á morgun heldur Valgerður Rúnarsdóttir, yfirlæknir SÁÁ, erindi á alþjóðlegri fagráðstefnu um lifrarsjúkdóma í París (The International Liver Congress). Erindi Valgerðar fjallar um íslenska lifrarbólgu C verkefnið en árangurinn af því hefur vakið heimsathygli í alþjóðlega fræðasamfélaginu. Um tíu þúsund þátttakendur, hvaðanæva að úr heiminum, sækja ráðstefnuna.

Markmiðið með íslenska lifrarbólgu C verkefninu er að útrýma þessum skæða veirusjúkdómi sem leggst einkum á fólk sem sprautar sig með vímuefnum. Tekist hefur að ná meðferðarsambandi við alla þá sem greinst hafa með veiruna síðustu rúmlega tvo áratugi, en SÁÁ hefur skimað eftir veirunni í sprautusjúklingahópi SÁÁ og haldið nákvæma skráningu um sjúklingahópinn frá 1995.

Það er mikið gleðiefni að framfaramál í íslenskri heilbrigðisþjónustu skuli vekja alþjóðlega eftirtekt.

Sjá nánar á vef Lifrarþings ILC 2018: https://ilc-congress.eu/