Velheppnuð heimsókn til Suðurnesja

CaptureHúsfyllir var á velheppnuðum borgarafundi sem SÁÁ hélt í Duus-húsum í Reykjanesbæ fimmtudaginn 15. október.

Þetta var sá sjötti í röð borgarafunda sem SÁÁ hefur haldið víða um land undanfarin misseri, sá síðasti var í Fjallabyggð í febrúar.

„Þetta var mjög ánægjuleg og gagnleg heimsókn í Reykjanesbæ,“ segir Arnþór Jónsson, formaður SÁÁ. „Það var afbragðsgóð stemmning hjá fundarmönnum á borgarafundinum og við áttum líka mjög ánægjulegan fund með Kjartani Má Kjartanssyni, bæjarstjóra, og nokkrum af lykilstarfsmönnum bæjarins. Reykjanesbær hefur ákveðna sérstöðu meðal sveitarfélaga varðandi þann áhuga sem sveitarstjórnin hefur sýnt á samstarfi við SÁÁ eins og sést á því að við erum í samstarfi við sveitarfélagið um vísi að göngudeildarþjónustu. Ráðgjafi frá göngudeild SÁÁ starfar í Reykjanesbæ hálfan dag í viku í aðstöðu sem bærinn hefur lagt til. Reykanesbær er eina sveitarfélagið á landinu þar sem slíkt fyrirkomulag er í gildi og er til marks um metnað og áhuga af hálfu bæjarins og ég held að Suðurnesjamenn hafi kunnað vel að meta þá þjónustu.“

Á borgarafundinum fluttu erindi í tónum og tali Þórarinn Tyrfingsson, yfirlæknir á Vogi, Arnþór Jónsson, formaður SÁÁ, Haukur Hilmarsson, fjármálaráðgjafi, Einar Már Guðmundsson, rithöfundur og Eva Þyrí Hilmarsdóttir, píanóleikari. Fundarstjóri var Ásgerður Th. Björnsdóttir, framkvæmdastjóri SÁÁ, sem jafnframt fór í stuttu máli yfir rekstur samtakanna.