Verð á vímuefnum breytist lítið

Allt frá ársbyrjun 2000 hefur SÁÁ gert mánaðarlegar kannanir á verðlagi á ólöglegum vímuefnum „á götunni.“ Allir innritaðir sjúklingar á Sjúkrahúsinu Vogi, sem hafa heilsu til, taka þátt í könnun þar sem spurt er hve margir þeirra hafa keypt slík efni síðastliðnar tvær vikur, og hvað greiddu þeir fyrir efnin. Meðaltalsverð er síðan reiknað.

Verðkannanir SÁÁ hafa frá upphafi verið gerðar með þessum sama hætti og ættu því að gefa glögga mynd af verðbreytingum á ólöglegum vímuefnum „á götunni” á þessu sautján ára tímabili. Niðurstöður kannananna frá upphafi er hægt að lesa í pdf-skjali hér og að neðan. Skjalið hefur verið uppfært miðað við nýjustu upplýsingar því í júlí 2017.

Athyglisvert er hversu verðið á vímuefnum breytist lítið og fá ný efni koma á markaðinn. Það eru fyrst og fremst lögleg lyf sem hafa að geyma methylpenedat og morfín og skyld efni sem bæst hafa við á síðasta áratug.

Kannabisefni
Gras (maríjúana) hefur verið allsráðandi á íslenska vímuefnamarkaðnum undanfarin á. Verð á skammtinum hefur verið óbreytt frá 2010 og selst grammið á 3000-3500 krónur. Lítið hefur verið verslað með hass eftir 2005 og verð á skammtinum af hassi selst á svipuðu verði og gras, eins og annars staðar í Evrópu. Kannabisefni, sem smíðuð eru í efnaverksmiðjum einkum í Kína og sett eru í jurtaleifar og pakkað í Evrópu og ganga meðal annars undir nafninu „Spice“ eða „K2“, komu inn á markaðinn 2016. Þau eru þó enn lítið þekkt og notuð af reglulegum kannabisneytendum á Íslandi. Þeir sem sækja einkum í þessi efni eru þeir sem eiga á hættu að þurfa að gangast undir lyfjaleit, t.d. fangar. Skimunarpróf sem sífellt verða áreiðanlegri ná oft ekki að greina þessi efni. Verðið á Spice er enn ekki stöðugt en skammturinn virðist seldur á sama verði og hin kannabisefnin. Samkvæmt Evrópsku vímuefnaskýrslunni (European Drug Report 2017) er verð á kannabisefnum í Evrópu það sama á hassi og grasi, um 1000-1500 krónur. Styrkleiki á efnunum þar hefur lítillega aukist, gras úr 7% í 9% og hass úr 10% í 15%, án þess að það hafi áhrif á verðið þar. Litlar upplýsingar eru um styrkleika á þeim kannabisefnum sem haldlögð eru í söluferli á götunni á höfuðborgarsvæðinu.

Amfetamín og skyld efni
Amfetamínsúlfa (speed) var allsráðandi á markaðnum fyrir hrun en frá árinu 2009 hafa amfetamínsjúklingar notað mikið af lyfjum sem hafa að geyma náskylt efni, methylphenedat (Ritalin og Ritalin Uno). Einkum hafa það verið sjúklingar sem nota efnin í æð sem þetta gera. Verð á þessum efnum hefur verið stöðugt. Ritalin Uno 40 mg tafla selst á 2500 krónur og grammið af amfetamíninu á um 5000 kr. Samkvæmt Evrópsku vímuefnaskýrslunni (European Drug Report 2017) er meðalverð á amfetamín 1250-3250 í Evrópu og styrkleiki um 25%. Verð á E-pillu er um 3000 krónur og breytist lítið en verð í Evrópu er 750-1250 kr.

Kókaín
Lengi hefur það orð farið af kókaíninu, sem á boðstólum er á hinum almanna vímuefnamarkaði á Íslandi, að styrkleikinn væri lítill. Grammið hefur verið selt á 15.000 til 18.000 krónur lengi. Styrkleiki í Evrópu almennt er 45% og verðið á bilinu 7400-9750 krónur.

Sterk verkjadeyfandi lyf og efni
Heróín er ekki á markaði hér en frá síðustu aldamótum hafa morfín-forðatöflur gengið kaupum og sölum (Contalgin). Markaðsleyfi fékkst nýlega fyrir Oxycodin sem hefur nær sömu verkun og morfín. Það virðist eins vinsælt og morfín og eftir að nýjabrumið fór af lyfinu selst það á svipuðu verði. Verð á 100 mg Contalgín-töflunni hefur verið 5000-6000 krónur undanfarið ár. Í Evrópu er meðalverð á heróíni 4750-7500 krónur og styrkleiki 25 %.

https://saa.is/wp-content/uploads/2017/08/verdkonnun_agust_2017.pdf