Verðkönnun: 21% aðspurðra sprautar vímuefnum í æð

Allt frá ársbyrjun 2000 hefur SÁÁ gert mánaðarlegar kannanir á verðlagi á ólöglegum vímuefnum „á götunni.“ Allir innritaðir sjúklingar á Sjúkrahúsinu Vogi, sem hafa heilsu til, taka þátt í könnun þar sem spurt er hve margir þeirra hafa keypt slík efni og hvað þeir greiddu fyrir efnin. Meðaltalsverð er síðan reiknað.

Niðurstöður frá upphafi er hægt að lesa í pdf-skjali hér og að neðan. Skjalið hefur verið uppfært miðað við nýjustu upplýsingar í marslok 2018.

Alls svöruðu 38 einstaklingar verðkönnun í lok mars 2018. Í ljós kom að 63% aðspurðra höfðu keypt ólögleg vímuefni/lyf, eða 24 einstaklingar. Meðalaldur þeirra var 34,5 ár en meðalaldur hinna sem ekki höfðu keypt slík efni var 42,5 ár. Átta einstaklingar höfðu sprautað vímuefnum í æð, eða 21%.

Langflestir höfðu keypt örvandi vímuefni, eða 19 einstaklingar, þar af höfðu flestir keypt kókaín (16) og/eða amfetamín (14). Fjórtán keyptu kannabisefni, flestir gras, 9 keyptu sterk verkjalyf í flokki ópíóíða og 15 einstaklingar keyptu benzódíazepín-lyf, eða róandi lyf. Fjórir einstaklingar keyptu ofskynjunarlyfið LSD og önnur lyf ganga kaupum og sölum, eins og Lyrica og Gabapentin. Rúm 13% aðspurðra höfðu notað kannibisvökva í rafsígarettur.

Í janúar, febrúar og mars svöruðu samtals 29 einstaklingar sem höfðu sprautað vímuefnum í æð. Af þeim höfðu 70% oftast fengið nálar og sprautur í apótekum eða 20 manns. Fimm einstaklingar fengu oftast nálar og sprautur hjá frú Ragnheiði en aðrir möguleikar voru frá vinum og annars staðar. Flestir nefndu fleiri en einn stað.

https://saa.is/wp-content/uploads/2018/04/verdkonnun_SAA_mars_2018.pdf