Við erum með fókus á lausnina

„Það er eins og allar ófarir í þjóðfélaginu berist á endanum hingað inn á Vog. Mér finnst allavega svo ótrúlega markt sem beygt hefur fólk leysast hjá því hér í meðferðinni.  Við erum með fókus á lausnina og hvaða leið er út úr þessu,“ segir Þóra Björnsdóttir sem verið hefur hjúkrunarforstjóri á Sjúkrahúsinu Vogi síðustu 22 ár í viðtali sem var tekið fyrir saa.is.

Ég kom til starfa hér á Vog fyrir hartnær 22 árum eftir að hafa unnið á bráðamóttöku Landspítalans við Hringbraut í sjö ár. Ég hafið áhuga lækningu áfengi-og vímuefnasjúkra og á því sem var að gerast hjá SÁÁ. Ég hafði ekki mikin skilning á fíknsjúkdómnum og hafði á bráðamóttökunni mætt mörgum fíklum í neyð. Ég var hissa þegar sumir þeirra voru nýbúnir að vera á Vogi en voru samt drukknir. Þá átti ég til að hringja á Vog og spyrja, „Bíddu hvað klikkaði hjá ykkur, maðurinn er enn að drekka?“.

Ég á núna rúmlega tuttugu árum síðar erfitt með að skilja það hversu miklir fordómar eru ennþá úti í samfélaginu gagnvart þessum sjúkdómi og starfinu. Ég er spurð af gömlum vinnufélagum mínum í heilbrigðisstétt og öðrum með undrun hvort ég sé ennþá að vinna þarna á Vogi. Svona eins og spurt sé af hverju er alltaf verið að moka í botnlausa tunnu.

Ég er búinn að læra mikið á þessum árum mínum hér á Vogi og það er búið að vera ofboðslega gaman að taka þátt í þessum miklu breytingum á meðferðinni sem hafa átt sér stað og eru enn að verða. Mér finnst svolítið eins og við séum alltaf í djúpulauginni. Það skýrist svolítið af því að við erum alltaf að sækja fram og mér finnst það hafa verið þannig allan minn tíma hér. Þekkingu hefur fleytt ótrúlega fram hvað þennan sjúkdóm varðar og vísindin hafa stutt við þessa þróun. Breytingarnar fylgja rannsóknum sem eiga sér stað. Í Bandaríkjunum eru fíknilækningar og -hjúkrun viðurkend sérgrein og sérstakt fag innan læknisfræði við hliðina á hjartalækningum og lungnalækningum svo dæmi sé tekið.

Það sem heillaði mig fljótt og gerði þetta starf svo spennandi er að það er fókuserað á lausnina. Ef ég á að einfalda þetta þá felur starfið í sér að miðla og koma á framfæri þekkingu og stuðningi.

Ég hef verið mjög lánsöm með starfsfólk bæði hjúkrunarfræðinga og sjúkraliða. Margir hafa verið hér lengur en ég. Sumir hafa komið hingað með langa reynslu af hjúkrunar- og sjúkraliðastarfi annar staðar í heilbrigðiskefinu. Svo eru líka þeir starfsmenn sem komu hingað sem nemar og það hefur kveikt hjá þeim áhuga hafi hann ekki verið fyrir og þeir komið til starfa að loknu námi.

Við erum níu hjúkrunarfræðingar og erum á þrískiptum vöktum. Næturvaktirnar er erfiðast að manna. Við vinnum í fastmótuðu skipulagi. Starfsfólk þarf að læra og tileinka sér það. Það er í grundvallaratriðum margt eins í störfum heilbrigðisstarfsfólks allstaðar en það er líka margt ólíkt sem ræðst af faglegum ástæðum og það á að sjálfsögðu við hér.

Það er himinn og haf á milli þess sjúkrahúss sem við höfum nú og þess sem ég kom inn í fyrir rúmlega tuttugu árum. Þá var ekki mikið pláss fyrir starfsfólkið. Mín skrifstofa var sjúkraherbergi og Þórarinn Tyrfingsson, yfirlæknir var með sína skrifstofu þar sem var laust pláss hverju sinni.


Virkir þátttakendur í teymisvinnunni

Ég hef alltaf tekið þátt í öllu því sem tengist starfinu hér.  Ég hef mikinn áhuga á edrúmennskunni og batanum og kraftaverkinu í kringum það þegar fólk fer að ná sér og breytist og þótt við hjúkrunarfræðingarnir séum ekki að tala við sjúklingana um það hvernig það verður edrú þurfum við að skilja það og skilja hugarfarið sem verið er að þjálfa hér í meðferðinni og þessa ábyrgð sem við kennum sjúklingunum að taka á sjálfum sér. Þess vegna vil ég að við séum ekki einangraðar í hjúkruninni og aðeins í því að gefa lyfin og taka blóðþrýstinginn heldur séum við líka að taka þátt í þeirri miklu breytingu sem verður á fólki frá því að það kemur veikt og í fráhvörfum og þangað til það fer eftir að vera búið að vera hér í tíu daga í afeitrun og fá stuðning.  Það er mjög skemmtilegt að taka þátt í því.  Ég hef talað mikið fyrir því að við hjúkrunarfræðingar þekkjum prógrammið og hef sótt mikið í það að við séum virkir þátttakendur í teymisvinnu hjá læknum og ráðgjöfum.  Mér finnst að það sem gefi þessu gildi sé að sjá hvernig rennur af fólki og það kemur til sjálfs sín.

Við fylgjumst öll með sjúklingnum þessa tíu daga og komum með innlegg í umönnun þeirra og meðferð, læknar, hjúkrunarfræðingar og sjúkraliðar og ráðgjafar. Við sem stjórnum vinnum mikið á gólfinu. Ég fer stofugang og sit með læknunum og dagskrárstjórnunum á morgnana og við förum yfir þá sjúklinga sem eru komnir á tíunda dag og erum að plana hvað er framundan. Við erum ekki bara inni á skrifstofu að skrifa upp á reikninga, heldur erum við í mikilli nálægð við fólkið.

Þegar ég byrjaði var engin viðhaldsmeðferð og engin lifrarbólgumeðferð og það hefur mikið bæst við og það er heilmikil umsýsla varðandi viðhaldsmeðferðina, við tökum til lyfin og útdeilum þeim, það er tekin til og skráð hver einasta tafla og talið. Þetta eru eftirritunarskyld lyf og það má ekki taka bara úr dósinni heldur er mikið bókhald í kringum þetta, það verður að að skrá töfluna og draga frá og svo sendum við Sjúkratryggingum og höfum fengið þetta greitt frá þeim síðustu 2-3 árin. Það þarf manneskju í fullu starfi í þetta og eina manneskju til að sinna lifrarbólguverkefninu. Þegar best lætur eru 3-4 hjúkrunarfræðingar á á morgunvakt, þrír á kvöldvakt og einn á næturvakt. Sjúkraliðarnir gegna líka mjög mikilvægu hlutverki í þessu teymi, þær taka á móti öllum sem koma og taka fyrstu upplýsingar og eru mjög faglegar við það. Svo ég segi það enn og aftur þá hef ég verið mjög lánsöm með samstarfsfólk og þessi þverfaglegi hópur hefur þróast afskaplega vel. Við erum nálægt hvert öðru læknarnir, hjúkrunarfræðingarnir, sjúkraliðarnir og ráðgjafarnir, og ég hef verið mjög áhugasöm um þetta þverfaglega samstarf, ekki síst milli hjúkrunarfræðinga og ráðgjafa.

Sérhæfð í slökun og dáleiðslu

Mér finnst líka gott að fara á opna AA-fundi og heyra í fólki í bata og ég geri það þótt ég sé sjálf ekki alkóhólisti. Ég dáist að því sem ég sé gerast hjá fólki í edrúmennskunni.  Ég hef alltaf haft áhuga á af hverju sumir drekka öðru vísi en aðrir og fundist þetta spennandi vettvangur. Þótt ég hafi ekki haft mikinn skilning á fíknsjúkdómnum á námsárunum valdi ég að skrifa um áfengissýki þegar ég var í hjúkrunarnáminu, og kynnti mér þá batasamfélagið, fór á fund og fannst það heillandi. Ég hef líka haft sérstakan áhuga á slökun og lærði djúpslökun og dáleiðslu áður en ég kom hingað til starfa, fann þegar ég var á bráðamóttökunni að ég þurfti á einhverju slíku að halda og eftir að ég kom hingað tók við umsjón með slökun í meðferðinni. Ég gaf út slökunardisk, Slökunarstund hjá SÁÁ, við tónlist eftir Friðrik Karlsson. Ég veit að mjög margir hafa notfært sér þann disk.

Það vill enginn drekka sig í hel

Hvað finnst þér um þá skaðaminnkunarnálgun sem mikið er í umræðunni og ekki síst meðal hjúkrunarfræðinga um að það eigi að mæta fólki í neyslu þar sem það er statt og án þess að þrýsta á um að það hætti neyslunni.

Það er mikil skaðaminnkun sem á sér stað í viðhaldsmeðferðinni hér og í endurinnlögnum og fleiru en við erum ekki hluti af þessari skaðaminnkunarumræðu sem þú nefnir. Okkar hugmyndafræði er ekki sú að trúa því að fólk vilji vera í þessu ástandi, drukkið og ósjálfbjarga í vímunni. Þá er það veikast og þarf mestu hjálpina. Það er með þennan sjúkdóm eins og aðra að sumir eru komnir á lokastigið –  eru „terminal“ eins og maður segir – og þá þarf að hlúa að þeim. Þeir koma hingað og fá mat,  þjónustu og lyf. Maður getur kannski ekki ætlast til að þeir nái edrúmennsku, en þeir vilja ekki vera á þeim stað og drekka sig í hel. Það vill það enginn.
Ég er líka mjög ánægð með að við tölum þannig við fólk að við segjum við það: þetta er það sem í boði, hvað má bjóða þér en ekki þú átt og þú skalt og þú verður. Við sköpum andrúmsloft sem styður við góðar ákvarðanir og smám saman kemur þannig stemmning í húsinu að hópurinn veit að það besta sem það gerir er að halda áfram án þess að nokkur sé þvingaður til eins eða neins Þessi nálgun er hluti af því sem heitir motivational interviewing og Þórarinn Tyrfingsson innleiddi hér á árum áður. Þórarinn er einstakur og það hefur kennt mér mikið að vinna með honum. Ég er hrein og bein við hann og fæ ekkert annað en stuðning til baka. Hann er sterkur leiðtogi en góður stjórnandi og útdeilir verkefnum og treystir sínu fólki.

Allur harmur í þjóðfélaginu endar á inni á Vogi

Hvað er erfiðast við það að vera hjúkrunarframkvæmdastjóri á Vogi?

Líklega er erfiðast að sjá eftir fólki sem útskrifar sig sjálft ótímabært og rýkur út. En ég lærði það snemma – hópurinn kenndi mér það – að það er ekki hægt að stöðva fólk í því.  Fyrst vildi ég stjórna fólki en það var bara ekki hægt og mér var kennt að kveðja fólk þannig að hún eða hann vilji koma aftur. Segja bara gangi þér vel og velkomin aftur. En mér fannst erfitt framan af að sjá fólkið fara þegar það var ekki orðið tímabært, rjúka út.

Maður hefur harðnað með árunum að því leyti að maður býst við öllu og brynjar sig. Það er stundum eins og allur harmur sem gerist úti í þjóðfélaginu berist á endanum hingað á inn á Vog. Þá tökum við á móti fólki með annan fókus. Við erum með fókus á lausnina og hvaða leið er út úr þessu. Við erum lítið að velta okkur upp úr áföllum og harmi, það er seinna tíma verkefni fyrir fólk að vinna úr því.

Myndirnar tók Spessi. Myndin til vinstri er tekin af hjúkrunarvaktinni á Vogi, sem sinnir um 2.200 sjúklingum á ári.  Á þeirri í miðjunni er Þóra Björnsdóttir ásamt  Bryndísi Ólafsdóttur hjúkrunardeildarstjóra, til vinstri, og Berglindi Þöll Heimisdóttur hjúkrunarfræðingi.

Höfundur greinar