Viðbúnaður heilbrigðisyfirvalda vegna áfengis- og vímuefnasjúkdómsins

 

Þórarinn Tyrfingsson skrifar:

Á árunum 1963-1984 var Geðdeild Landspítalans eina sjúkrahúsið á Íslandi sem tók við áfengis- og vímuefnasjúklingum til sérstakrar meðferðar. Á árinu 1976 var áfengis- og vímuefnameðferðin á LSH endurskipulögð og vistheimilið að Vífilstöðum tekið í notkun. Árið 1977 hafði Kleppsspítalinn yfir að ráða 138 sjúkrarúm. Þetta var fyrir tíð SÁÁ.

Árið 1984 fékk SÁÁ rekstrarleyfi fyrir Sjúkrahúsið Vog. Með því var mörkuð ný stefna í áfengis- og vímuefnameðferðinni á Íslandi og vísindaviðmiðin í meðferðinni breyttust. Við þetta varð til ný heilbrigðisstofnun á Íslandi sem uppfyllti gæða- og öryggiskröfur heilbrigðisráðuneytisins og Landlæknisembættisins og gat sinnt mismunagreiningum og fylgikvillum áfengis- og vímuefnasjúklinganna á ásættanlegan hátt að mati heilbrigðisyfirvalda.

Önnur stefnumörkun en í nágrannalöndum

Við það var mörkuð stefna í málefnum áfengis- og vímuefnasjúklinga sem er önnur en tíðkast á hinum Norðurlöndunum og í Vestur Evrópu. Með tilkomu Sjúkrahússins Vogs og annarra meðferðarstofnana SÁÁ og rekstri þeirra skipuðu Íslendingar meðferðarmálum áfengis- og vímuefnasjúklinga með öðrum hætti en aðrir. Við þetta opnuðust stórar dyr fyrir áfengis- og vímuefnasjúklinga inn í heilbrigðiskerfið þar sem vanda þeirra var sinnt sérstaklega og reynt að stoppa vímuefnaneysluna. Áður höfðu áfengis- og vímuefnasjúklingarnir þá fyrst leitað sér heilbrigðisþjónustu inn á geðdeildir eða almennar deildir sjúkrahúsanna vegna meintra líkamlegra fylgikvilla og geðrænna orsaka stjórnlausrar neyslu.

Á sjúkrastofnunum SÁÁ varð til þekkingarsamfélag og vísir að nýrri læknisfræðilegri nálgun sem síðan hefur þróast og tileinkað sér nýja sérgrein læknisfræðinnar sem fæst við áfengis- og vímuefnasjúklinga og nefnd er Addiction Medicine og sækir á bæði í USA og Evrópu.

Nú er áfengis- og vímuefnasjúklingum fyrst og fremst veitt heilbrigðisþjónusta á þar til gerðum stofnunum SÁÁ en í öðrum löndum eru slíkum sjúklingum veitt þjónusta á geðdeildum og almennum lyflæknis- og skurðdeildum. Nokkuð augljóst er að með tilkomu SÁÁ náðist aukin hagkvæmni og meðferðarstarfið varð markvissara og árangursríkara, við það sparaðist mikið fé. Áfengismeðferðin hjá SÁÁ kom þannig í veg fyrir að sjúklingar þurfi að leggjast inn á almenn sjúkrahús og geðdeildir þar sem kostnaður er miklu meiri. Rúmlega helmingur innritanna á geðdeild Landspítalans upp úr 1970 og fyrir daga SÁÁ var vegna áfengis- og vímuefnasjúkdóma. Með núverandi fyrirkomulagi varð álag á geðdeildir og almennar deildir minna vegna áfengis- og vímuefnasjúklinga og rúm skapaðist til að sinna öðrum sjúklingum betur.

Stórfelld fækkun rúma hjá LSH

Í töflunni að ofan má sjá fjölda þeirra sjúkrarúma sem kostuð hafa verið af Heilbrigðisráðuneyti og uppfylla gæða og öryggiskröfur Landlæknisembættisins á árunum 1977 til 2014. Í töflunni má einnig sjá mannfjölda 15-64 ára á hverju tímabili. Frá árinu 1984 hefur geðdeild Landspítalans fækkað meðferðarrúmum fyrir áfengis- og vímuefnasjúklinga meðan rúmin hjá SÁÁ voru óbreytt fram til 2007.

Rekstri Víðiness var breytt og það hætti hlutverki sínu sem áfengismeðferðarstofnun um og eftir 1985. Vífilstaðir lokuðu 1995 og starfsemin þar var flutt á Teig við Flókagötu og við það fækkaði rúmum úr 24 í 12. Teig er svo lokað 2000 og Gunnarsholti 2003.

Stórfelld skerðing eftir hrun

Eftir hrun hætti Heilbrigðisráðuneytið að greiða húsnæðis og fæðiskostnað á Vík og Staðarfelli og breytti meðferðunum þar í göngudeild eða dagdeild. Þannig fækkaði sjúkrarúmum hjá SÁÁ um 60. Með nýjum þjónustusamningi um sjúkrahúsið Vog var sjúkrarúmum þar fækkað um 18. Frá hruni hefur sjúkrarúmum hjá SÁÁ fækkað um 78. Á síðustu árum hefur verkskipting komist á milli geðdeildar Landspítalans og SÁÁ. Geðdeildin hefur einbeitt sér að því að sinna sjúklingum sem eru áfengis- og vímuefnasjúklingar en jafnframt með geðrofssjúkdóma eða aðra erfiða geðsjúkdóma meðan meðferðarstofnanir SÁÁ einbeita sér að þeim sem hafa kvíðaraskanir og þunglyndiseinkenni jafnframt áfengis- og vímuefnasjúkdómnum.

Heilbrigðisráðuneytið hefur því fækkað sjúkrarúmum sem ætluð eru áfengis- og vímuefnasjúklingum til meðferðar úr 265 þegar mest var í lok árs 1985 í 62 rúm í lok árs 2014.

Höfundur greinar