Viðhaldsmeðferð við ópíóðafíkn hjá SÁÁ

SÁÁ hefur veitt sjúklingum sem sprauta þeim vímuefnum sem kölluð eru ópíóðar (morfín og morfínskyld lyf og vímuefni) í æð viðhaldameðferð með lyfjum frá árinu 1999. Meðferðin er í flestum tilfellum veitt með lyfinu buprenorphine (suboxone, subutex) sem gefið er í tungurótartöflum en einstaka sinnum er lyfið methadon notað. Viðhaldsmeðferð ásamt félagslegri og geðrænni endurhæfingu hefur gjörbreytt meðferð og batahorfum þessara sjúklinga síðustu tuttugu árin eða svo.

Viðhaldsmeðferð er lokalending þegar önnur meðferð bregst. Hún krefst sérhæfðrar þekkingar og umhverfis sem hefur tök á og faglega getu að halda utanum lyfjagjöfina. Hafa þarf gott eftirlit með sjúklingum og grípa inn í vandann með innlögn eða annarri sérhæfðri meðferð ef á þarf að halda.

Skilyrði viðhaldsmeðferðar

Sjúklingurinn þarf að gangast undir miklar skuldbindingar og samstarfsvilji hans þarf að vera mikill svo slík meðferð takist vel. Meðferðin er einstaklingshæfð og tekur mið af því að hver sjúklingur hefur ólíka stöðu. Auk þess breytist nálgunin eftir því hvernig meðferðin gengur, frá tímabili aðlöðunar þar sem verið er að vinna að samstarfsvilja og að minnka skaðann, í að vera minniháttar eftirlit þegar vel hefur gengið í langan tíma. Viðhaldsmeðferð getur staðið í mjög langan tíma og oftar en ekki er um ævilanga meðferð að ræða.

Til að komast í viðhaldsmeðferð þurfa sjúklingar að innritast á Sjúkrahúsið Vog þar sem nákvæm greining er gerð á sjúkdómi þeirra og samstarfsvilja. Í framhaldi af dvöl á Vogi þurfa sjúklingar að ljúka fjögurra vikna endurhæfingu á Staðarfelli (karlar) eða Vík (konur). Eftir það halda þeir áfram að sækja sérhæfð lyf á Vog, flestir buprenorphine en einstaka methadone. Sumir sækja lyfin daglega, aðrir einu til tvisvar sinnum í viku.

Hjúkrunarfræðingar á Vogi afhenda lyf eftir ákveðnum fyrirmælum og meta um leið sjúklinginn. Læknaviðtöl fara fram reglulega á göngudeildinni á Vogi. Auk þess eru teknar þvagprufur og blóðprufur hjá sjúklingum. Margs konar inngrip og þjónusta fylgir viðhaldmeðferðinni sem starfsfólk Vogs ber hitann og þungan af. Áætlaðar komur til hjúkrunarfræðinga vegna lyfjameðferðarinnar eru um 6.000 á ári og fjöldi viðtala við lækna er áætlaður um 1.000.

Þann 17. desember 2014 var gerður  þjónustusamningur SÁÁ og Sjúkratrygginga Íslands um viðhaldsmeðferðina. Frá því viðhaldsmeðferð SÁÁ hófst 1999 og til áramótanna 2015 greiddi SÁÁ allan kostnað vegna lyfjanna og nam sá kosnaður samtakanna milljónum króna á ári. Sjúklingum í viðhaldsmeðferð hafa ávallt fengið lyfin án endurgjalds og þar til þjónustusamningurinn var gerður tryggði SÁÁ afhendingu lyfjanna og greiddi fyrir með sjálfsaflafé.  Frá 1.janúar 2015 tók þessi fyrsti þjónustusamningurinn sem gerður hefur verið um viðhaldsmeðferð gildi. Tengill á hann er að ofan.

Eins og sést í samningnum greiða sjúkratryggingar nú 1.950 þúsund krónur á mánuði fyrir viðhaldsmeðferðina. Innifaldar í samningnum eru 5.000 komur á í lyfjaskömmtun á ári og 600 komur í viðtöl við sérgreinalækna. Samningurinn og greiðslur ríkisins miðast við að 90 manns séu á hverjum tíma í meðferð. Hann miðast við að sjúklingar greiði gjald fyrir læknaviðtöl. Gjöldin sem sjúklingar greiða fyrir viðtöl taka mið af stöðu þeirra hjá Sjúkratryggingum, t.d. varðandi það hvort um sé að ræða lífeyrisþega eða fólk með afsláttarkort. Mjög strangt eftirlit er með sjúklingum í viðhaldsmeðferð og er það þeim mun strangara því skemmra sem liðið er frá því fólk hætti neyslu. Fyrst um sinn kemur fólk daglega til að fá lyf sín afhent og undirgangast þvagprufur. Nokkrum sinnum á ári er læknaviðtal á göngudeild á Vogi.Hann tryggir 90 manns aðgang að meðferðinni og endurgjaldslaus lyf á hverjum tíma.

Um stöðu þeirra sem sprauta sig með morfínefnum fyrir og eftir viðhaldsmeðferð með buprenorphine

„Batahorfur þessa fólks voru mjög slæmar. Dauðsföll af völdum yfirskammta var gríðarlegt vandamál og ástandið mjög hættulegt.“ Þannig lýsti Þórarinn Tyrfingsson, forstjóri sjúkrahússins Vogs, stöðu mála varðandi fólk sem sprautaði sig með morfínskyldum vímuefnum, áður en viðhaldsmeðferðin kom til sögu í viðtali við SÁÁ blaðið í desember 2014.

Um áhrif viðhaldsmeðferðarinnar segir Þórarinn: „Með viðhaldsmeðferðinni gjörbreyttust batahorfurnar. Það var hægt að meðhöndla fólkið með lyfjum og koma við endurhæfingu. Vegna þess varð fólk virkara félagslega, gat tekið þátt í uppeldi barna sinna, fór út á vinnumarkaðinn eða í skóla, lét meðhöndla aðra sjúkdóma, eins og lifrarbólgu C, og kom þannig í veg fyrir frekara heilsutjón. Batahorfurnar eru allt aðrar í dag en þær voru á þessum tíma. Þar að auki er hættan á að fólk úr þessum hópi deyi, jafnvel þótt það detti í það, mun minni en ef það væri ekki í lyfjameðferð.“

Höfundur greinar