Viðurkenning fyrir mannúðarstarf

Göngudeild SÁÁ á Akureyri var meðal þeirra aðila sem Landsbankinn á Akureyri veitti nýlega viðurkenningu fyrir störf að mannúðarmálum. Anna Hildur Guðmundsdóttir, dagskrárstjóri Göngudeildarinnar, mætti fyrir hönd samtakanna til þess að taka við viðurkenningunni, 100.000 krónum ásamt viðurkenningarskjali, við athöfn sem haldin var í Akureyrarútibúi bankans.

Auk Göngudeildar SÁÁ voru það Aflið, Geðverndarfélag Akureyrar og nágrennis, Krabbameinsfélag Akureyrar og nágrennis og Jólaaðstoð 2014 sem bankinn veitti viðurkenningu.

„Öll félögin eiga það sameiginlegt að vinna ómetanlegt starf fyrir skjólstæðinga sína,“ segir  Arnar Páll Guðmundsson, útibússtjóri, og bætir því við að Landsbankinn á Akureyri leitist við að styðja margvíslegt mannúðarstarf á Akureyri og nágrenni fyrir utan almennt styrktarkerfi bankans.

Arnar Páll er lengst til hægri á myndinni að ofan og okkar kona, Anna Hildur Guðmundsdóttir, er fyrir miðri mynd ásamt öðrum þakklátum styrkþegum.