Vogur fær nýtt tæki til að taka hjartalínurit

Nýtt og fullkomið tæki til að taka hjartalínurit hefur verið tekið í notkun á Sjúkrahúsinu Vogi og leysir af hólmi eldra tæki sem nauðsynlegt var orðið að endurnýja. Nýja tækið er gjöf til Vogs frá Styrktarsjóði SÁÁ.

„Þetta nýja hjartalínuritstæki kemur að mjög góðu gagni hér á Sjúkrahúsinu Vogi,“ segir Guðbjörn Björnsson, sérfræðingur í lyflækningum á Sjúkrahúsinu Vogi. „Á sjúkrahúsi af þessari stærð þarf góð greiningartæki. Við verðum til dæmis að geta gert ákveðnar tegundir af blóðrannsóknum, við verðum að hafa hjartastuðtæki og við þurfum að geta tekið hjartalínurit.“

„Allt er það hluti af þeirri grunnþjónustu sem við þurfum að veita sem lítið sjúkrahús. Hér eru 2.200 innlagnir á ári og það gerist oft að fólk kvartar um brjóstverki. Þá þurfum við að greina það,“ segir Guðbjörn.

Tækið er af fullkomnustu gerð og er hægt að vista línuritin í stafrænu formi þannig að þau verði hluti af sjúkraskrá viðkomandi sjúklinga.

Styrktarsjóður SÁÁ keypti tækið góða hjá Icepharma og Einar Hermannsson, formaður styrktarsjóðsins, og Guðrún Lilja Guðmundsdóttir, sem situr í stjórn sjóðsins, afhentu Guðbirni og Þóru Björnsdóttur, hjúkrunarforstjóra það til afnota á mánudaginn. Meðfylgjandi mynd var tekin við það tækifæri. Frá vinstri: Guðbjörn, Þóra, Guðrún Lilja og Einar.