Vogur rekinn fyrir söfnunarfé það sem eftir lifir árs

Í dag er 1. október, afmælisdagur SÁÁ. 41 ár eru síðan samtökin voru stofnuð. 25 þúsund einstaklingar hafa komið í meðferð til SÁÁ og tæplega 21 þúsund þeirra eru á lífi í dag, langflestir í góðum bata. SÁÁ óskar þeim öllum, og aðstandendum þeirra og sjálfu sér til hamingju með 41 árs afmælið og enn meira til hamingju með öll edrúafmælin alla daga ársins.

Afmælisgjöf heilbrigðisyfirvalda til SÁÁ á hverju ári er að stöðva með táknrænum hætti greiðslur fyrir þjónustuna á Vogi. Ríkið setur því miður þak á fjármögnun sjúkrahússþjónustunnar og borgar aðeins fyrir 1530 innlagnir á Vog þótt þær séu a.m.k. 2200 á hverju ári.

Um þetta leyti árs, ár hvert, hefur SÁÁ unnið upp í allar magntölur þjónustusamnings ríkisins um sjúkrahúsið Vog. Það sem eftir lifir ársins er sjúkrahúsið Vogur því rekið fyrir söfnunarfé einvörðungu. SÁÁ, sjúklingarnir, starfsfólkið og samfélagið allt stendur því í einstakri þakkarskuld við alla vini og velunnara samtakanna sem tryggja áframhaldandi þjónustu á Vogi. Þeir lengi lifi!