Vogur, róninn og goðsögnin

Í dag hafa um 25 þúsund einstaklingar komið í meðferð til SÁÁ. Fjöldi meðferða sem þessir einstaklingar hafa þegið er yfir 70 þúsund og er þá allt talið – jafnvel þó meðferð hafi aðeins staðið yfir í einn dag.

Ef allur sjúklingahópurinn er flokkaður niður eftir fjölda meðferða sem einstaklingar hafa þegið, þannig að í fyrsta hópi séu þeir sem hafa komið einu sinni í meðferð, í öðrum hópi þeir sem hafa komið tvisvar, þriðja hópi þrisvar og svo koll af kolli, sést hvernig goðsagan um að alltaf sé sama fólkið á Vogi er í raun ekki skemmtileg goðsögn heldur andstyggileg lygasaga sem heldur lífi sínu í þrálátum fordómum gagnvart fíklum og alkóhólistum.

Langstærsti hópur sjúklinganna er í fyrsta flokki – þeir sem hafa komið einu sinni í meðferð. Þetta er um helmingur allra sjúklinga sem hafa komið í meðferð til SÁÁ síðastliðin 38 ár. Hópar eitt, tvö og þrjú telja samtals um 78% allra sjúklinga sem hafa komið í meðferð til SÁÁ. Dæmigerður alkóhólisti er maður eins og ég sem fór í meðferð 1994 og hef verið edrú síðan.

Að hverjum beinist þá hin fordómafulla goðsaga? Hún beinist auðvitað að hópi sjúklinga sem er veikastur, tíunda hópum – þeim sem hafa komið 10 sinnum eða oftar í meferð. Hópurinn telur um 5-6% af heildarfjölda sjúklinga SÁÁ á síðustu 38 árum. Oftast eru þetta einstaklingar sem hafa fæðst inn í óheppilegar og jafnvel óbærilegar félagslegar aðstæður þar sem neysla áfengis og annarra vímuefna er hluti af uppeldisaðstæðum barna og ungmenna og kvíði og öryggisleysi og skortur á efnislegum gæðum er viðvarandi vandamál og jákvæð hvatning til góðra verka er lítil eða engin. Stundum eru þetta svokallaðir tvígreindir einstaklingar. Oft er þetta fólk sem samfélagið hefur á einhvern hátt brugðist, gefist upp á eða yfirgefið. Hættum að gera hróp að þessu fólki.

Þekktir félagslegir umhverfisþættir rétt eins og erfðaþættir, ef þeir eru til staðar, auka líkur á að einstaklingur fái fíknsjúkdóm. Samt sem áður er það auðvitað þannig að enginn getur orðið alkóhólisti eða fíkill nema með endurtekinni notkun á vímuefnum. Talið er að um 15% þeirra sem nota vímuefni þrói með sér fíknsjúkdóm. Hjá þessum hópi hrindir endurtekin notkun á vímuefnum af stað breytingum í starfseindum heilans. Stjórnleysi í neyslu, hegðun og framkomu eru ytri einkenni þessa sjúkdóms. Hið innra upplifir sjúklingurinn örvæntingu, skömm og reiði. Enginn ætlar sér að verða alkóhólisti eða fíkill. Svo mikið er víst.

[author][author_info]Höfundur er Arnþór Jónsson, formaður SÁÁ[/author]

Höfundur greinar