X-mas styrkir unglingadeildina á Vogi

Xmas, jólarokktónleikarnir sem útvarpsstöðin X-ið 977 hefur staðið fyrir í desember síðastliðin ár eru á næsta leiti.  Tónleikarnir hafa nú þegar skipað sér stóran sess í tónlistarlífi landsins en á hverju ári hefur allt andvirði miðasölu runnið til góðs málefnis.  Í fyrra styrkti X-ið 977 Barna og unglingageðdeildina (BUGL) um talsverðar upphæðir og í ár mun styrkurinn renna til Unglingadeildarinnar á Vogi.

Dagskráin á X-mas 2014 er ekki af verri endanum en  á tónleikunum, sem verða haldnir í Gamlabíói þann 16. desember næstkomandi, fram koma:  Agent Fresco, Art is Dead, Dimma og Bubbi, Jónas Sig, Kaleo, Kiriyama Family, Morðingjarnir, Strigaskór 42, Þröstur upp á Heiðar, Vintage Caravan, Úlfur Úlfur og Valdimar.

Unglingadeildin á Vogi aðstoðar ungt fólk í vímuefnavanda og styður við bakið á því að meðferð lokinni.  Deildin var tekin í notkun í byrjun árs 2000 og hefur nú bráðum verið starfrækt í 15 ár.  Með tilkomu deildarinnar var þjónusta við vímuefnaneytendur á aldrinum 14- 19 ára stóraukin og bætt.  Á þessum 15 árum hafa 4843 einstaklingar verið innritaðir inn á unglingadeildina á Vogi.

„Við erum ákaflega þakklát fyrir þennan stuðning”, segir Arnþór Jónsson, formaður SÁÁ. „Á unglingadeildinni á Vogi er unnið frábært starf með ungmennum sem vilja snúa af braut fíknar og eignast innihaldsríkt og heilbrigt líf. Við höfum séð mjög góðan árangur af þessu starfi síðustu ár. En að sjálfsögðu þarf alltaf fjármagn til að standa undir svona starfsemi og því fögnum við ákvörðun X-sins 977 um að styðja við bakið á okkur á þennan hátt.”

Tónleikarnir fara fram í Gamlabíói 16. desember nk. kl. 20.00 og allt andvirði miðasölu rennur óskipt til starfsemi unglingadeildarinnar á Vogi.  Aðgangseyrir er aðeins 977 krónur.

Hægt er að kaupa miða á X-mas hér á Miði.is.