Yfirlýsing ASAM vegna skýrslu landlæknis Bandaríkjanna um vímuefnafíkn

Félag fíknlækna í Bandaríkjunum, (American Society of Addiction Medicine (ASAM)), hefur sent frá sér tilkynningu í tilefni af þeirri skýrslu sem landlæknir Bandaríkjanna, (Surgeon General), sendi frá sér síðastliðinn fimmtudag um forvarnir, meðferð og bata vegna vímuefnamisnotkunar og vímuefnafíknar. Þetta er fyrsta skipti sem landlæknisembættið sendir frá sér slíka skýrslu og þykir hún marka þáttaskil í umræðum um fíknsjúkdóma og fíknlækningar í Bandaríkjunum. Yfirlýsing ASAM, fer hér á eftir í íslenskri þýðingu, en ASAM er samstarfsaðili SÁÁ, dr. Jeffrey Goldsmith, forseti ASAM, var gestur SÁÁ á Íslandi sumarið 2015 og læknar og heilbrigðisstarfsfólk SÁÁ hefur átt í fjölþættu samstarfi við ASAM og einstaklinga og stofnanir á sviði fíknlækninga í Bandaríkjunum um áratugaskeið.

„Í dag hefur landlæknir Bandaríkjanna, Vivek Murthy, gefið út fyrstu skýrslu landlæknisembættisins þar sem gefið er yfirlit yfir stöðu vísindalegrar þekkingar varðandi notkun vímuefna, fíkn og heilsufar. Félag fíknlækna í Bandaríkjunum (The American Society of Addiction Medicine (ASAM)) lýsir ánægju sinni með þessa sögulegu rannsókn á heilsufarsáhrifum misnotkunar áfengis- og lyfja og hrósar dr. Murthy fyrir að grípa til aðgerða til þess að vekja fólk til vitundar um þetta mikilvæga lýðheilsumál.

„Skýrslan sem gefin er út í dag staðfestir það sem við höfum lengi vitað: Fíkn er heilasjúkdómur sem hægt er að meðhöndla og ætti að meðhöndla með gagnreyndum aðferðum og mannúðlegri umönnun,“ segir dr. Jeffrey Goldsmith, forseti ASAM. „Það hefur tíðkast of lengi að stefnumótendur, almenningur og jafnvel heilbrigðisstarfsfólk hafi misskilið þennan sjúkdóm og litið á hann sem einhvers konar siðferðisbrest. Við vonumst til að þessi skýrsla muni binda enda á þann misskilning í eitt skipti fyrir öll.“

Eins og bent er á í skýrslunni fela vímuefnanotkun og -fíkn í sér marktækar og verulegar áskoranir fyrir lýðheilsu. Upplýsingar fengnar úr alríkiskönnun á vímuefnanoktun og heilsufari (National Survey on Drug Use and Health (NSDUH)) leiða í ljós að fleiri en 27 milljón manns eldri en 12 ára – eða um það bil tíundi hver Bandaríkjamaður – hafði notað ólögleg vímuefni eða misnotað lyf sem læknar ávísa síðustu 30 daga og að 17,3 milljónir sögðust hafa notað áfengi í óhóflegu matni mánuðinn á undan. Árið 2015 áttu um það bil 20,8 milljónir Bandaríkjamanna eldri en 12 ára við vímuefnavanda (substance use disorder) að glíma sem tengdist notkun á áfengi eða ólögmætri þeirra á lyfjum eða öðrum vímugjöfum síðasta árið.

Skýrslan leggur til fjöldann allan af úrræðum og aðgerðum sem nauðsynlegt sé að alríkisstjórnin, stjórnir einstakra ríkja og sveitarfélaga grípi til í því skyni að auka framboð á gagnreyndri meðferð og forvarnaraðgerðum, auk þess sem mikið þarf þurfi að eiga sér stað til þess að hrinda þeim úrræðum í framkvæmd. Til dæmis mælir skýrslan með algjörri samþættingu meðferðarúrræða og almennrar heilsugæslu en tekur fram að slíkt sé ekki gerlegt nema til staðar sé velþjálfaðir starfsmenn sem njóti hæfilegrar umbunar. Gagngerar breytingar á námsefni menntastofnana þurfi að eiga sér stað ef takast á að tryggja að næsta kynslóð heilbrigðisstarfsfólks sé í stakk búin til að greina og meðhöndla sjúklinga vegna fíknar og til að tryggja að sjúklingar hafi aðgang að nauðsynlegri þjónustu þurfi að gera heilbrigðisáætlanir og þeir aðilar sem veita sjúkratryggingar þurfi að greiða fyrir þá þjónustu eins og greitt er fyrir almenna heilbrigðisþjónustu.

„Með því að taka saman þetta yfirlit yfir stöðu mála hvað varðar vísindin og leggja blessun landlæknisembættisins yfir það er þessi skýrsla í senn vísbending um það hve langt við erum komin á leið með það að skilja fíkn sem lýðheilsuvanda og um leið gefur hún okkur traustan grundvöll til að byggja áframhaldandi baráttu fyrir stefnumótun í meðferðar- og forvararmálum sem byggist á gagnreyndum vísindum,“ segir dr. Kelly Clark, viðtakandi forseti ASAM. „Við hlökkum til að fylgjast með samstarfsaðilum okkar og stefnumótendum á öllum stigum stjórnsýslunnar taka til við að hrinda áherslum og tillögum landlæknis í framkvæmd.“