Lög SÁÁ
Lög SÁÁ
1. gr.
Nafn samtakanna er Samtök áhugafólks um áfengis- og vímuefnavandann, skammstafað SÁÁ. Starfssvið samtakanna er landið allt og geta einstaklingar, félög og félagasamtök orðið félagar. Heimili samtakanna og varnarþing er í Reykjavík.
2. gr.
Tilgangur Samtaka áhugafólks um áfengis- og vímuefnavandann er :
1. Að útrýma vanþekkingu og fordómum á áfengisvandamálinu og hafa áhrif á almennings- álitið með fræðslu um eðli sjúkdómsins alkóhólisma.
2. Að starfrækja afeitrunar- og endurhæfingarsjúkrahús fyrir alkóhólista og aðra vímuefnasjúklinga.
3. Að starfrækja sjúkrahúsþjónustu við göngudeild fyrir alkóhólista og aðra vímuefnasjúklinga.
4. Að starfrækja fræðslu og meðferð fyrir aðstandendur alkóhólista og annarra vímuefnasjúklinga.
5. Að vinna að fræðslu og fyrirbyggjandi aðgerðum sem og endurhæfingu hinna sjúku.
6. Að styrkja til sérmenntunar starfsfólk til ofangreindrar starfsemi, svo og til annarra starfa málefninu viðkomandi.
7. Að skipuleggja sjálfboðaliðastörf og afla fjár til reksturs samtakanna.
8. Að afla og koma á framfæri til almennings upplýsingum um eðli og umfang þess vanda sem stafar af notkun áfengis og annarra vímuefna.
9. Að leita samvinnu við og styrkja þá starfsemi, sem berst raunhæft við áfengis- og vímuefnavandann.
10. Að tryggja áfengis- og vímuefnasjúkum læknishjálp og meðferð í heilbrigðis- og almannatryggingakerfinu án þess að sú sjúkdómsgreining leiði til skerðingar.
11. Að vinna að fræðslu og menntun fagstétta sem starfa á sviði heilbrigðisvísinda að lækningu og umönnun og meðferð áfengis- og vímuefnasjúkra.
Kappkosta skal að því að á sjúkrahúsi SÁÁ Vogi starfi fagfólk úr ýmsum greinum heilbrigðisþjónustunnar. Starfsfólkið skal veita sjúklingum og aðstandendum þeirra sem leita til sjúkrahússins vegna áfengis- og vímuefnasjúkdómsins heilbrigðisþjónustu í hæsta gæðaflokki.
Tryggja skal að á sjúkrahúsi SÁÁ Vogi verði rekið og stundað öflugt vísindastarf. Rannsakendur á spítalanum skulu leitast við að stunda og eiga aðild að vísinda- og rannsóknarstarfi í samstarfi á innlendum og alþjóðlegum vettvangi. Stefna skal að samstarfi við framhaldsskóla og háskóla um menntun á sviðum heilbrigðisvísinda. Á aðalfundi SÁÁ skal forstjóri gera grein fyrir þessu starfi sjúkrahússins og áætlunum um vísindarannsóknir.
Framangreindum tilgangi hyggst félagið ná með því að sameina leika sem lærða til baráttu, sem byggð er á þekkingu. SÁÁ sem slíkt er ekki bindindisfélag og vill forðast boð og bönn og hverskonar sleggjudóma.
3. gr.
Sá sem óskar inngöngu í samtökin skal koma á framfæri inntökubeiðni á skrifstofu samtakanna. Telst viðkomandi félagi í samtökunum 7 sólahringum eftir að inntökubeiðni berst samtökunum.
4. gr.
Tekjur samtakanna eru:
1. Félagsgjöld.
2. Opinber framlög og styrkir.
3. Framlög félaga og einstaklinga.
4. Fé sem aflað er með sérstökum fjáröflunaraðgerðum, svo sem happdrættum o.fl.
5. gr.
Aðalfund samtakanna skal halda fyrir 1. júlí ár hvert og skal hann boðaður með viku fyrirvara með auglýsingu í a.m.k. tveimur dagblöðum og tveimur útvarpsstöðvum. Aðalfundur er lögmætur ef rétt er til hans boðað. Á aðalfundi skulu þessi mál tekin til umræðu og afgreiðslu:
1. Skýrsla stjórnar um framkvæmdir og starfsemi samtakanna á liðnu starfsári.
2. Gjaldkeri leggur fram endurskoðaða reikninga til umræðu og samþykktar.
3. Lagabreytingar ef fyrir liggja tillögur um þær.
4. Kosning stjórnar, varastjórnar, endurskoðenda og varaendurskoðenda.
5. Tekin ákvörðun um félagsgjöld.
6. Önnur mál.
6.gr.
Á fundum samtakanna hefur hver félagi eitt atkvæði, hvort heldur hann er einstaklingur eða félag.
7. gr.
Aðalstjórn samtakanna skipa 48 menn. Kjörtími stjórnarmanna er þrjú ár og skulu 16 kjörnir á hverjum aðalfundi auk 7 varamanna til eins árs. Endurkosning stjórnarmanna er heimil. Kjörgengir eru, auk einstaklinga sem aðild eiga að samtökunum, fyrirsvarsmenn félaga sem aðild eiga. Séu slíkir menn kjörnir í stjórnina sitja þeir út kjörtíma sinn þó þeir hætti sem fyrirsvarsmenn þess félags sem aðildina á að samtökunum.
8. gr.
Framkvæmdastjórn skal skipuð 9 mönnum sem aðalstjórn kýs úr sínum hópi til eins árs á fyrsta fundi sínum eftir aðalfund. Skal formaður kosinn sérstaklega og er hann jafnframt formaður aðalstjórnar, þá skal einnig kjósa varaformann, sem verður jafnframt varaformaður SÁÁ. Að öðru leyti skiptir framkvæmdastjórn með sér verkum. Framkvæmdastjórnarfundir teljast löglegir ef 5 framkvæmdastjórnarmenn mæta. Forfallist framkvæmdastjórnarmaður skal boða til stjórnarfundar aðalstjórnar sem kýs nýjan mann í framkvæmdastjórn í hans stað.
9. gr.
Fundi í aðalstjórn skal halda eftir þörfum en þó eigi sjaldnar en tvisvar milli aðalfunda. Framkvæmdastjórnin fer í umboði aðalstjórnar með vald hennar milli aðalstjórnarfunda. Hún kýs sér varaformann, ritara og gjaldkera á fyrsta fundi sínum. Hún skal leggja fyrir aðalstjórn til umræðu og ákvarðanatöku allar fyrirætlanir um meiriháttar fjárfestingu, breytingu á rekstri stofnana eða stofnsetningu nýrra stofnana, svo og ákvarðanatöku um stefnumótun í samskiptum við opinbera aðila ef þurfa þykir. Framkvæmdastjórnin sér um allar framkvæmdir og annast rekstur stofnana þeirra, er stofnað hefur verið til eða kunna að verða stofnsettar á vegum samtakanna og hefur úrskurðarvald í öllum málum er þær varða milli aðalstjórnarfunda. Hún ræður menn til að stjórna stofnunum samtakanna og sjá um rekstur þeirra og fjárhag sbr. 10. gr. Hún gerir skriflega samninga við starfsmenn þessa og setur þeim erindisbréf, sem hafa skal m.a. ákvæði um samþykki stjórnar fyrir öllum stærri framkvæmdum og fjárfestingu, sem ekki fellur undir daglegan rekstur.
Framkvæmdastjórnin skipuleggur og stjórnar fjáröflun samtakanna, hún skal í hvívetna gæta hagsmuna þeirra og kemur fram fyrir hönd þeirra út á við m.a. í öllum viðræðum og samningum við opinbera aðila.
Framkvæmdastjórn er heimilt að skipa nefndir sér til aðstoðar til að vinna að ákveðnum verkefnum í þágu samtakanna. Stofnanir og fjáröflunarleiðir samtakanna skulu hver um sig hafa sérstaka bókfærslu og reikningslega aðskilinn fjárhag.
Framkvæmdastjórn ræður framkvæmdastjóra fyrir ýmsa starfsemi samtakanna.
Framkvæmdastjórn ræður framkvæmdastjóra lækninga og framkvæmdastjóra hjúkrunar, samkvæmt 10. gr. laga nr. 40/2007 um heilbrigðisþjónustu. Framkvæmdastjóri lækninga er jafnframt forstjóri sjúkrahúss SÁÁ. Framkvæmdastjórn setur forstjóranum erindisbréf þar sem tilgreina skal helstu markmið í þjónustu og rekstri stofnunar og verkefni hennar til lengri og skemmri tíma. Forstjóri ber ábyrgð á að sjúkrastofnunin starfi í samræmi við lög, stjórnvaldsfyrirmæli og erindisbréf. Forstjóri ber ábyrgð á þeirri þjónustu sem sjúkrahúsið veitir og að rekstrarútgjöld og rekstrarafkoma sé í samræmi við áætlanir og ákvarðanir framkvæmdastjórnar og ber ábyrgð gagnvart henni.
Aðalstjórn ákveður stjórnarlaun stjórnarmanna í framkvæmdastjórn á fyrsta fundi eftir aðalfund. Aðalstjórn felur á sama fundi þremur framkvæmdastjórnarmönnum að ákveða laun stjórnarformanns með starfssamningi. Skal við þá ákvörðun taka mið af launum framkvæmdastjóra samtakanna og helstu stjórnendum á vegum þeirra.
Með samþykki aðalstjórnar er heimilt að stofna til sérstakra undirdeilda SÁÁ. Deildir SÁÁ geta kosið sér sérstakar stjórnir sem starfa undir yfirstjórn aðal- og framkvæmdastjórnar SÁÁ.
10. gr.
Við sjúkrahús SÁÁ skal starfa framkvæmdastjórn skv. 12. gr. heilbrigðislaga nr. 40/2007 stjórnendum sjúkrahússins til ráðgjafar, en hún getur með samþykktum bundið forstjóra í starfi. Framkvæmdastjórn skipa, auk forstjóra, framkvæmdastjóra lækninga, framkvæmdastjóra hjúkrunar, 3 fulltrúar sem framkvæmdastjórn SÁÁ skipar hverju sinni. Starfsmenn sjúkrahússins tilnefna fullrúa til setu í framkvæmdastjórn sem hefur þar tillögurétt.
11. gr.
Verði ágreiningur í framkvæmdastjórn er a.m.k. tveimur stjórnarmönnum heimilt að vísa ágreiningi til úrskurðar aðalstjórnar SÁÁ. Stjórnarfundir eru því aðeins lögmætir að framkvæmdastjórn sé skipuð 5 mönnum. Tólf aðalstjórnarmenn geta krafist fundar aðalstjórnar. Skal sú krafa vera skrifleg til formanns og tekið fram hvaða mál fundurinn eigi að fjalla um. Skal þess getið í dagskrá fundarins og skulu þau mál vera fyrstu mál á dagskrá. Í áskorun um fund skal felast fundarboð. Til fundar aðalstjórnar skal boða bréflega með viku fyrirvara.
12. gr.
Endurskoðendur skulu vera tveir og jafnmargir til vara. Einnig skal löggiltur endurskoðandi endurskoða reikninga samtakanna og sjá um uppsetningu þeirra. Reikningsár samtakanna er almanaksárið.
13. gr.
Lagabreytingar þurfa 2/3 hluta greiddra atkvæða. Tillögur um lagabreytingar skulu hafa borist framkvæmdastjórn 7 dögum fyrir aðalfund. Samtökunum verður ekki slitið nema á aðalfundi og skal þess getið í fundarboði ef til stendur að bera fram tillögu um slit samtakanna á fundinum. Fer um félagsslit sem lagabreytingar. Verði samtökin lögð niður skal afhenda eignir þeirra til annars félags sem vinnur að sama megintilgangi. Þarf tillaga um slíkt aðeins samþykki einfalds meirihluta á þeim fundi sem samþykkt hefur slit. Sé slíku félagi ekki til að dreifa, eða hljóti tillaga ekki samþykki, skal fela þriggja manna nefnd að taka ákvörðun um, hvernig eignum skuli best ráðstafað í þessum megintilgangi. Skal einn einn nefndarmanna kosinn á fundinum, annar tilnefndur af heilbrigðisráðherra og hinn þriðji tilkvaddur af Sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu.
14. gr.
Með ákvæðum 1.-2. gr. og 13. gr. er fyrir því séð að samtökin telji sig undanþegin skyldu til að greiða tekjuskatt og eignarskatt skv. 5. tl. 4. gr. laga nr. 75/1981. Þá teljast framlög til samtakanna frádráttarbær frá skattgjaldstekjum sbr. 2. tl. E-liðar 1. mgr. 30. gr. laga nr. 75/1981 og 3. mgr. 1. töluliðar, 1. mgr. 31. gr. s.l., sbr. reglugerð nr. 748/1983.
(Að ofan eru lög SÁÁ – Samtaka áhugafólks um áfengis- og vímuefnavandann, eftir breytingar sem gerðar voru á aðalfundi 30. júní 2020. Lögin voru upphaflega samþykkt á aðalfundi þann 21. júní 1991, og hafði áður verið breytt á aðalfundi 23. maí 2001 og síðast á aðalfundi 6. júní 2014. )