Gagnreynd lyfjameðferð við ópíóíðafíkn
Hún fækkar dauðsföllum, minnkar skaða og leiðir til bata vegna alvarlegrar fíknar í sterk verkjalyf. Flestir hafa sprautað lyfjunum í æð og/eða haft alvarlegar afleiðingar af lyfjaneyslunni. Lyfin sem notuð eru til viðhaldsmeðferðar eru: mixt methadone og t. buprenorphine/naloxone.
Upphaf meðferðar er á Sjúkrahúsinu Vogi. Í framhaldi er viðhaldsmeðferðin veitt og fylgt eftir á göngudeild Vogs. Náin eftirfylgd er með lyfjatöku og vímuefnaneyslu.
Tekin er ákvörðun um þvagprufur, aðlögun að skammti eða niðurtröppun í reglulegum viðtölum við lækni.
Nákvæm talning og skrá er yfir hverja töflu sem afhent er og mikil vinna vegna eftirritunarskyldu frá Lyfjastofnun og upplýsinga til SÍ sem greiða lyfin.
Ráðgjafar og hjúkrunarfólk taka sýnin eftir ákveðnum fyrirmyndum, hjúkrunarvakt vinnur rannsóknina og les svörin, ritarar skrá niðurstöður í sjúkraskrá, læknar bregðast við niðurstöðum og ræða við einstaklinginn eftir því sem við á.
Læknismeðferð og eftirfylgd
Inngrip er alla daga ef bregðast þarf við frávikum, falli í neyslu, veikindum o.fl., oftast í viðtölum á göngudeild Vogs.
Fyrir suma er meðferðin eingöngu skaðaminnkandi, t.d. hjá fólki í sífelldri hættulegri neyslu eða með vitræna skerðingu.
Undirbúin viðtöl við lækna eru á þriðjudögum, önnur viðtöl eru bókuð á lækna eftir atvikum.
Lyfseðlar fara rafrænt í lyfjagátt en leyst úr þeim eingöngu á hjúkrunarvakt Vogs, lyfjaafhendingar og samtöl þar eru yfir 7000 á ári.
Flett er upp í lyfjagagnagrunni landlæknis varðandi önnur lyf einstaklingsins, en almennt eru ekki gefin ávanabindandi lyf með viðhaldsmeðferð.
Mikil þjónusta samhliða meðferð
Einstaklingur á viðhaldsmeðferð er í upphafi í annarri meðferð við fíknsjúkdómnum hjá SÁÁ og einnig á stundum hjá LSH en góð samvinna er á milli sjúkrahúsanna um þessa sérhæfðu meðferð.
Hluti karlmannanna hefja batann á meðferðarheimilinu Vin, samvinnuverkefni sem rekið er af SÁÁ. Þeir eru gjarnan þar í 6-18 mánuði og fá mikla meðferð á göngudeild Vogs samhliða.
Umgjörð viðhaldsmeðferðar
Þörf er á lagaumgjörð um þessa sérhæfðu meðferð, vegna sérstöðu um lyfjagjöf og afhendingu sem ekki passar í gildandi lög. Einnig er þörf á klínískum leiðbeiningum. Þetta hefur lengi verið ljóst og óskað eftir við Lyfjastofnun, Velferðarráðuneytið og Embætti landlæknis.
Meðferðin hefur þróast hjá SÁÁ frá 1999 og aðlagast þörfum, hún þarf mikið aðhald, inngrip, eftirlit, sveigjanleika og nákvæmni, enda veitt til skemmri og lengri tíma, einnig ýmist til skaðaminnkunar eða bata.