Áramótakveðja frá formanni SÁÁ
Kæru vinir og velunnarar SÁÁ,
Við áramót er ávallt heilbrigt að líta um öxl og gera upp það sem gert hefur verið og um leið líta fram á við til að gera sér grein fyrir verkefnum sem fyrir liggja.
Starfssemi SÁÁ er í jafnvægi um þessar mundir. Við höfum tryggt fjármagn í þá þjónustu sem við getum veitt. Jafnframt höfum við óskað eftir því við Sjúkratryggingar Íslands og heilbrigðisyfirvöld að hafin verði vinna við nýja heildarsamninga um þjónustu við fólk með fíknsjúkdóm og aðstandendur þeirra. Við erum bjartsýn um að það ferli hefjist fljótlega á nýju ári.
Á undanförnum árum höfum við fengist við ýmsar áskoranir í heilbrigðisrekstrinum. Þjónustan hefur aðlagast breyttum samfélagsháttum en gæði meðferðarinnar hafa alltaf verið í fyrirrúmi hjá SÁÁ. Meginmarkmið samtakanna er að tryggja stöðugt og gott aðgengi að lágþröskuldameðferð og þjónustu við fólk með fíknsjúkdóma og aðstandendur þeirra. Frá því verður ekki hvikað.
Það er ánægjulegt að vita til þess að heilbrigðisráðuneytið hefur myndað starfshóp til að vinna að stefnu í áfengis- og vímuefnamálum.
Eins og þið hafið vonandi orðið vör við, hefur orðið ásýndarbreyting á SÁÁ samhliða auknum sýnileika m.a. á samfélagsmiðlum.
Við þökkum félagsfólki, stuðningsfólki og íslensku þjóðinni fyrir þann óbilandi stuðning sem samtökin hafa alltaf búið að í gegnum tíðina.
Við þökkum fyrir árið sem er að líða og hlökkum til að takast á við verkefni ársins 2024.
Gleðilegt ár.
f.h. stjórnar og starfsfólks SÁÁ
Anna Hildur Guðmundsdóttir formaður.